| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Í kvöld er mikilvægasti leikur tímabilsins til þessa þegar okkar menn heimsækja Roma á þeirra heimavöll, Ólympíuleikvanginn í Róm.  Leikurinn hefst klukkan 18:45 og við hvetjum alla sem geta að mæta á heimavöll okkar, Spot í Kópavogi og mynda þar klikkaða stemmningu.

Eins og venjulega byrja þessar upphitanir á pælingum með byrjunarlið en eins og með fyrri leik liðanna þá velur liðið sig sjálft og þarf ekkert að fjölyrða neitt meira um það.  Það vakti svo ánægju að sjá að Adam Lallana ferðaðist með liðinu til Rómar en Jürgen Klopp sagði á blaðamannafundi í gær að hann væri aðeins þarna til að æfa með liðinu, hann er ekki orðinn klár í slaginn ennþá en gæti þó tekið þátt í deildarleikjunum tveim sem eftir eru.  Joe Gomez verður ekki með vegna meiðsla sem hann hlaut gegn Stoke um síðustu helgi.  Sem fyrr eru svo þeir Joel Matip, Emre Can og Alex Oxlade-Chamberlain frá vegna meiðsla.  Sadio Mané tók ekki þátt í Stoke leiknum en ætti að vera klár og þeir Jordan Henderson og Trent Alexander-Arnold, sem einnig meiddust lítillega í þeim leik verða klárir eftir því sem næst verður komist.

Spennan er heldur betur farin að gera vart um sig hjá okkur stuðningsmönnum fyrir þennan stórleik og margir óttast Rómverja á þeirra eigin heimavelli.  Það hefur komið áður fram á þessari síðu að þeir hafa enn ekki fengið á sig mark á heimavelli það sem af er í Meistaradeildinni en nú verður eitthvað undan að láta.  Heimamenn hugsa hlýtt til 3-0 sigurs á stórliði Barcelona í 8-liða úrslitum og vita að sömu úrslit koma þeim áfram í úrslitaleikinn nú.  Varla munu þeir svo spila með varnarlínuna sína svo hátt uppi eins og þeir gerðu í fyrri leiknum því Liverpool menn nýttu sér það óspart og sendu langar sendingar fram völlinn þar sem þeir Salah, Firmino og Mané sköpuðu mikla hættu.  Samkvæmt þjálfara þeirra er Kevin Strootman tæpur fyrir leikinn og flestir telja að þeir spili í kvöld leikkerfið 4-3-3 til að mæta betur ógn Liverpool framávið.  En við sjáum hvað setur með það alltsaman.

Liverpool hafa spilað þrisvar sinnum gegn Roma á þessum sögufræga leikvangi í gegnum tíðina, eins og við rifjuðum upp í fyrri upphitun þá var fyrsti leikur liðanna úrslitaleikur í Evrópukeppni Meistaraliða sem endaði 1-1 og Liverpool sigruðu svo í vítaspyrnukeppni.  Árið 2001 vannst svo góður 0-2 sigur á leið liðsins til sigurs í Evrópukeppni félagsliða og tímabilið þar á eftir mættust liðin í seinni riðlakeppni Meistaradeildar og skildu jöfn 0-0.  Okkar menn eru því semsagt taplausir gegn þessu ágæta liði á útivelli til þessa og mikið væri nú gaman ef því yrði haldið áfram í kvöld.  Leikurinn má tapast en alls ekki of stórt og ef liðið lendir undir, líkt og gegn Manchester City í 8-liða úrslitum, þá er það ávísun á hjartsláttartruflanir og meira stress fyrir okkur stuðningsmenn í kvöld.


Spáin að þessu sinni er sú að tap verður hinsvegar niðurstaðan en það dugar hinsvegar til þess að komast í úrslitaleikinn gegn Real Madrid.  Lokatölur verða 2-1 þar sem Rómverjar skora fyrst en okkar menn jafna metin.  Heimamenn bæta við marki seint í leiknum en lengra komast þeir ekki.

Nú er bara að reyna að láta daginn líða sem hraðast, það verður erfitt eins og venjulega en þegar flautað verður til leiks setjum við allt okkar traust á Jürgen Klopp og hans menn og höfum fulla trú á því að liðinu takist ætlunarverk sitt !

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er sem fyrr markahæstur allra leikmanna liðsins á tímabilinu með 43 mörk.

- Salah og Roberto Firmino eru svo markahæstir leikmanna liðsins í Meistaradeildinni til þessa með 11 mörk hvor.

- Þeir félagar eru svo einu leikmenn liðsins sem hafa tekið þátt í öllum 13 leikjum Meistardeildarinnar til þessa.

- Edin Dzeko er markahæstur Rómverja í Meistaradeildinni til þessa með sjö mörk og alls 23 á leiktíðinni.

- Sadio Mané spilar að öllum líkindum sinn 70. leik fyrir félagið í öllum keppnum.






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan