| Sf. Gutt

Mohamed með markamet!


Mohamed Salah skoraði fyrsta markið í 4:0 sigri Liverpool á Brighton í dag. Markið þýddi að Egyptinn hefði sett nýtt markamet í Úrvalsdeildinni. Þetta var 32. deildarmark Mohamed á keppnistímabilinu. Þeir Alan Shearer, Cristiano Ronaldo og Luis Suarez deildu gamla metinu sem var 31 mark. 


Markamet Mohamed miðast við 38 leikja deildarkeppni. Metið í efstu deild á Englandi á William Ralph Dean, jafnan nefndur Dixie Dean. Hans skoraði 60 mörk fyrir Everton á leiktíðinni 1927/28. Metið var sett í 42. leikja deild en Dixie lék aðeins 39 leiki þessa mögnuðu leiktíð.  


Mohamed skoraði fyrsta mark sitt fyrir Liverpool í fyrstu umferðinni þegar Liverpool gerði 3:3 jafntefli við Watford í London. Síðan hefur hann slegið hvert metið á fætur öðru og nú er hann búinn að skora 32 deildarmörk og alls eru mörkin orðin 44 í öllum keppnum. Þess má geta að með því að skora á móti Brighton setti Mohamed annað met því með því var hann búinn að skora á móti 17 mismunandi liðum. Það hefur ekki áður verið afrekað. Vonandi á eftir að bætast við markareikninginn í úrslitaleiknum í Meistaradeildinni í loka mánaðarins. 

Hér að neðan má sjá lista yfir þá sem hafa skorað 30 mörk eða meira í Úrvalsdeildinni í 38 leikja keppni.

 

Mohamed Salah - Liverpool 32 - 2017/18.
Alan Shearer - Newcastle United 31 - 1995/96.
Cristiano Ronaldo - Manchester United 31 - 2007/08.



Luis Suarez - Liverpool 31 - 2013/14.
Kevin Phillips - Sunderland 30 - 1999/00.
Thierry Henry  - Arsenal 30 - 2003/04.
Robin van Persie - Arsenal 30 - 2011/12.



Roger Hunt á markametið hjá Liverpool í deildarmörkum á einu keppnistímabili. Hann skoraði 41 deildarmark á leiktíðinni 1961/62. Mörkin skoraði hann í annarri deild.

 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan