| Sf. Gutt

Niðurtalningin er hafin - 1. kapítuli


Liverpool og Real Madrid leika til úrslita um Evrópubikarinn á Olympíuleikvanginum í Kiev höfuðborg Úkraínu næsta laugardag. Liverpool á glæsta sögu í Evrópukeppninni og reyndar eiga fá lið í Evrópu glæsilegri sögu á þeim vettvangi. Það er okkur stuðningsmönnum Liverpool mikið gleðiefni að sjá liðið okkar í úrslitleik um Evrópubikarinn í fyrsta sinn frá því 2007.

Það er því mikil spenna í loftinu í Liverpool og hjá stuðningsmönnum liðsins okkar hvar sem þeir eru til sjós og lands. Til að magna spennuna, hefst í dag, niðurtalning fyrir úrslitaleikinn á liverpool.is. Í niðurtalningunni verður margt til fróðleiks um keppnina og árangur Liverpool í henni svo eitthvað sé nefnt.

+ Evrópukeppni meistaraliða, eins og keppnin hét fyrst, fór fyrst fram leiktíðina 1955/56. Real Madrid varð fyrst liða til að vinna keppnina. Reyndar vann liðið keppnina fyrstu fimm árin!


+ Leiktíðina 1992/93 var keppnisfyrirkomulagi breytt og kallaðist keppnin þá Meistaradeildin. Það er þó enn keppt um sama bikar og áður.


+ Leikurinn á laugardaginn er 63. úrslitaleikurinn um Evrópubikarinn.

+ Real Madrid hefur oftast unnið keppnina eða 12 sinnum. AC Milan hefur sjö sinnum unnið. Liverpool, Barcelona og Bayern Munchen hafa fimm sinnum unnið Evrópubikarinn. Ajax kemur svo næst með fjóra sigra. Inter Milan og Manchester United hafa unnið keppnina þrisvar sinnum. Benfica, Juventus, Nottingham Forest og Porto hafa unnið keppnina tvívegis. Aston Villa, Borussia Dortmund, Celtic, Chelsea, Feyenord, Hamburger SV, Marseille, PSV Eindhoven, Red Star Belgrad og Steaua Búkarest eiga einn sigur á afrekaskrá sinni.

+ Liverpool er sigursælast allra enskra liða á Evrópumótunum. Alls hefur Liverpool unnið ellefu Evróputitla.


+ Liverpool hefur unnið Evrópubikarinn fimm sinnum 1977, 1978, 1981, 1984 og 2005.


+ Liverpool hefur unnið Evrópukeppni félagsliða þrívegis 1973, 1976 og 2001.

 

+ Liverpool hefur unnið Stórbikar Evrópu þrívegis 1977, 2001 og 2005. 

+ Fyrsti leikur Liverpool í Evrópukeppni var háður 17. ágúst 1964 á Laugardalsvellinum. Liverpool vann þá K.R. 5:0 í Evrópukeppni meistaraliða. Gordon Wallace 2, Roger Hunt 2 og Phil Chisnall skoruðu. Gordon skoraði fyrsta Evrópumark Liverpool eftir 180 sekúndna leik. Á Laugardalsvöllinn mættu 10.268 áhorfendur. Á Anfield Road sáu 32.597 áhorfendur Liverpool vinna seinni leikinn 6:1. Gerry Byrne, Ian St. John 2, Roger Hunt, Bobby Graham og Willie Stevenson skoruðu. Gunnar Felixsson varð fyrstur til að skora hjá Liverpool í Evrópuleik. 

+ Frá leiktíðinni 1964/65 lék Liverpool 20 leiktíðir í röð í Evrópukeppni til 1984/85. Eftir harmleikinn á Heysel leikvanginum í Brussel var Liverpool dæmt frá þátttöku í Evrópukeppnum í sex sparktíðir. 

+ Liverpool er núna að leika á sinni 44. leiktíð í Evrópukeppnum ef rétt hefur verið talið.

+ Leikurinn gegn Real Madrid verður 13. úrslitaleikur Liverpool á Evrópumótunum.


+ Liverpool vann Evrópubikarinn til eignar í Istanbúl 2005. Reglur Knattspyrnusambands Evrópu kveða á um að vinni sama félag bikarinn fimm sinnum eða þrjú ár í röð þá eignist það hann. Ný eftirlíking af bikarnum er þá búin til og sett í umferð. Aðeins Liverpool, AC Milan, Bayern Munchen, Barcelona og Real Madrid hafa unnið bikarinn til eignar fram til þessa.


 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan