| Sf. Gutt

Niðurtalning - 3. kapítuli


Þriðji kafli niðurtalningarinnar kemur hér. Í honum er fjallað um eitt og annað sem tengist vegferð Rauða hersins frá Hoffenheim til Kiev.

+ Liverpool er að leika á sinni 22. leiktíð í Evrópukeppni sterkustu liða Evrópu. Á þessum 22 leiktíðum hefur liðið komist átta sinnum í úrslitaleikinn. 



+ Leikurinn í Kiev verður 57. leikur Liverpool á leiktíðinni. 


+ Leikurinn er 15. Evrópuleikur liðsins á leiktíðinni. 


+ Liverpool hefur notað 25 leikmenn á Evrópuvegferð sinni til Kænugarðs. 


+ Þeir Mohamed Salah og Roberto Firmino hafa spilað alla leikina.


+ Mohamed Salah og Roberto Firmino hafa skorað flest Evrópumörk hingað til á keppnistímabilinu eða 11. Sadio Mané hefur skorað níu sinnum. Philippe Coutinho skoraði fimm mörk áður en hann fór til Barcelona. Emre Can hefur skorað þrisvar sinnum. Alex Oxlade-Chamberlain og Trent Alexander-Arnold hafa skorað tvö mörk hvor. Þeir Georginio Wijnaldum og Daniel Sturridge eru með eitt mark. Eitt markið er sjálfsmark.


+ Liverpool hefur skorað 46 mörk á Evrópuvegferð sinni sem er markamet í keppninni.


+ Liverpool setti Englandsmet í riðlakeppninni þegar liðið skoraði 23 mörk. Manchester United átti gamla metið sem var 20 mörk á leiktíðinni 1998/99.


+ Liverpool setti Englandsmet í riðlakeppninni með því að vinna Maribor 0:7 Slóveníu. Þetta er stærsti útisigur ensks liðs í Meistaradeildinni.


+ Liverpool á líka Englandsmetið í heimasigri í keppninni. Liverpool vann Besiktas 8:0 á leiktíðinni 2007/08.

+ Loris Karius hefur haldið markinu hreinu sex sinnum í keppninni.


+ James Milner hefur lagt upp níu mörk í Meistaradeildinni. Það er nýtt met á einni leiktíð í keppninni. Wayne Rooney og Naymar áttu gamla metið sem var átta.

+ Liverpool og Roma settu met í undanúrslitarimmu sinni. Alls skoruðu liðin 13 mörk í leikjum sínum. Liverpool vann fyrri leikinn 5:2 en Roma þann seinni 4:2. 


+ Trent Alexander-Arnold varð yngsti Englendingurinn til að spila í byrjunarliði í undanúrslitum í Meistaradeildinni þegar hann spilaði á móti Roma. 

+ Liverpool er búið að heimsækja sjö lönd á Evrópuferðalagi sínu á leiktíðinni. Úkraína verður sjöunda landið.

+ Fyrsti Evrópuleikur leikur Liverpool í þessari Evrópuvegferð var í Þýskalandi á móti Hoffenheim. Svo lá leiðin til Rússlands, Slóveníu, Spánar, Portúgals og Ítalíu. Ferðin endar á Olympíuleikvanginum í Kiev höfuðborg Úrkraínu. 

+ Þetta verður í áttunda sinn sem sömu lið spila tvisvar til úrslita um Evrópubikarinn.


 + Liverpool og Real Madrid mætast í annað sinn í úrslitaleik um Evrópubikarinn. Liverpool vann Real 1:0 í París 1981.

+ Liverpool leikur í sjöttu höfuðborg Evrópu í úrslitaleik um Evrópubikarinn þegar liðið það gengur á hólm við Real Madrid í Kiev. 


+ Liverpool vann Evrópubikarinn í Róm árið 1977 og varði hann í Lundúnum árið eftir. Árið 1981 vannst Evrópubikarinn í París. Evrópubikarinn vannst í fjórða sinn og annað sinn í Róm árið 1984. Liverpool tapaði svo úrslitaleiknum 1985 í Brussel. Liverpool vann Evrópubikarinn til eignar í Istanbúl árið 2005 en sú borg er ekki höfuðborg. Árið 2007 tapaði Liverpool í Aþenu fyrir AC Milan. 


+ Liverpool hefur í öll fimm skiptin, sem liðið hefur unnið Evrópubikarinn, leikið í hinum margfrægu rauðu búningum sínum. Andstæðingarnir hafa alltaf klæðst alhvítu. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan