| Sf. Gutt

Af HM


Frakkland og Króatía mætast í úrslitaleiknum um heimsmeistaratitilinn 2018. Þetta varð niðurstaðan eftir undanúrslitaleikina.

Frakkar mættu Belgum í fjörugum leik. Belgar voru meira með boltann og fengu fleiri færi en Frakkar vörðust vel. Eina mark leiksins kom á 51. mínútu þegar  Samuel Umtiti skallaði í mark eftir horn. Belgum tókst ekki að jafna þrátt fyrir góðar tilraunir. Frakkar spila nú í annað sinn á tveimur árum til úrslita á stórmóti en liðið tapaði 1:0 fyrir Portúgal í úrslitaleik Evrópukeppni landsliða. Simon Mignolet var varamaður eins og hingað til á mótinu. 

England fékk óskabyrjun í hinum undanúrslitaleiknum þegar Kieran Trippier skoraði beint úr aukaspyrnu eftir fimm mínútur. Enska liðið var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og færi gáfust til að auka forystuna. Það tókst ekki að nýta færin og það átti eftir að kosta sitt. Eftir því sem leið á síðari hálfleikinn náðu Króatar betri tökum á leiknum. Á 68. mínútu jafnaði Ivan Perisic metin með því að teygja sig í boltann í erfiðri stöðu og stýra honum í markið. Krótar tóku völdin en það var ekki skorað meira í venjulegum leiktíma.

Krótar tryggðu sér sigur á 109. mínútu framlengingarinnar. Mario Mandzukic skoraði þá með góðu skoti úr vítateignum eftir mistök í ensku vörninni. Krótar héldu sínu og unnu sanngjarnan 2:1 sigur sem var enn magnaðri í ljósi þess að þetta var þriðji leikurinn í röð sem liðið þurfti að fara í gegnum framlengingu. Dejan Lovren var í byrjunarliði Króata. Hann var ekki upp á sitt besta í fyrri hálfleik en eftir hlé og til loka var hann eins og klettur í vörninni. Jordan Henderson var skipt af velli í síðari hálfleik. Hann átti ekki sinn besta leik. Trent Alexander-Gordon var varamaður. 


Krótar mæta Frökkum í úrslitaleiknum sem fer fram í Moskvu á sunnudaginn. Daginn áður leika Belgía og England um bronsið og fer leikurinn fram í Pétursborg. 





   
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan