| Grétar Magnússon

Sigur gegn City

Liverpool spilaði í annað sinn í Bandaríkjunum og nú var mótherjinn Manchester City.  Lokatölur voru 2-1 fyrir Liverpool í leik sem kannski ekki var fallegur fyrir augað en þeir Sadio Mané og Mohamed Salah breyttu gangi leiksins í seinni hálfleik.


Byrjunarlið Jürgen Klopp var þannig skipað:  Karius, Clyne, Gomez, Van Dijk, Robertson, Fabinho, Milner, Wijnaldum, Jones, Lallana, Sturridge.  Á bekknum voru þeir Kelleher, Mane, Salah, Grujic, Klavan, Moreno, Solanke, Phillips, Ojo, Woodburn, Camacho, Chirivella, Grabara.

Manchester City stilltu upp liði með nöfnum sem kannski ekki margir þekkja enda eru þeirra helstu stórstjörnur enn í fríi eftir HM í Rússlandi.  Byrjunarlið þeirra var þannig skipað:  Bravo, Mahrez, Denayer, Zinchenko, Harrison, Nmecha, Foden, Garcia, Diaz, Bolton og Humphreys.

City fengu fyrsta færi leiksins þegar Nmecha komst í gegn og skaut að marki úr teignum.  Karius varði skotið en boltinn barst aftur út til City leikmanns sem náði ekki að koma skoti á markið þökk sé góðri varnarvinnu Fabinho.  City menn vildu þó fá víti á Fabinho en dómarinn hlustaði ekki á þær kröfur.

Curtis Jones átti næsta færi leiksins hinumegin þegar hann skaut að marki rétt fyrir utan teig en skotið var frekar máttlaust og Bravo varði og hélt boltanum.  Næst voru City menn ágengir þegar Karius kýldi boltann frá marki en hann barst til Diaz rétt fyrir utan teig sem skaut að marki en skotið var beint á Karius.

Liverpool áttu betri færi það sem eftir lifði hálfleiks.  Lallana átti skot rétt framhjá markinu eftir hornspyrnu og Jones átti aftur skot rétt fyrir utan teig sem Bravo varði.  Á 41. mínútu hefði svo Jones átt að gera betur þegar Clyne sendi fyrir markið.  Jones skallaði að marki en yfir fór boltinn.  Tveim mínútum síðar vildi Jones svo fá vítaspyrnu þegar hann virtist vera felldur í teignum en dómarinn sá ekki ástæðu til að dæma, frekar óskiljanleg ákvörðun.

Í hálfleik gerði Klopp fimm breytingar á liðinu, inn komu þeir Woodburn, Klavan, Solanke og Mané og í markið fór Kelleher í stað Karius.  Auk Karius fóru svo þeir Gomez, Wijnaldum, Lallana og Sturridge af velli.

Snemma í síðari hálfleik fékk Sané gott færi en Kelleher gerði vel í að verja skot hans af mjög stuttu færi.  Á 57. mínútu komust svo City menn yfir.  Sané fékk góða sendingu innfyrir, tók á rás í átt að marki, lék inní teignn vinstra megin og sendi svo boltann framhjá Kelleher í markinu.

Eftir rétt rúman klukkutíma leik kom svo Salah inná ásamt þeim Moreno, Chirivella, Phillips, Grujic og Camacho.  Salah þurfti ekki langan tíma til að setja mark sitt á leikinn, nánar tiltekið 70 sekúndur.  Sending kom frá hægri og Salah skallaði boltann framhjá Hart í markinu.  Salah var líklega rangstæður þegar sendingin kom en markið stóð.

Eftir þetta var leikurinn eign Liverpool þar sem þeir Salah og Mané voru í aðalhlutverkum.  Skalla frá Salah var bjargað og skömmu síðar skaut Egyptinn í slána eftir að hafa fengið sendingu innfyrir.  Mané fékk sín færi líka en ekki vildi boltinn í markið.  Það var svo í uppbótartíma að sigurmarkið kom eftir vítaspyrnu.  Brotið var á Solanke í teignum og Mané skoraði örugglega úr spyrnunni.  Lokatölur 2-1.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan