| Grétar Magnússon

Chris Kirkland nýtur þess að vera kominn aftur

Margir muna eftir markverðinum Chris Kirkland sem spilaði með Liverpool á árunum 2001 til 2005.  Hann þótti mikið efni eftir að hafa byrjað ferilinn hjá Coventry og í lok ágúst árið 2001 var hann keyptur til Liverpool ásamt Jerzy Dudek.  Hann spilaði þó ekki mjög marga leiki fyrir félagið en alls urðu leikirnir 45 talsins.  Tímabilið 2005-6 var hann lánaður til W.B.A. og um sumarið fór hann svo á sölu til Wigan.  Eftir þetta tók ferillinn hans töluverða dýfu og síðar lýsti Kirkland því að hann átti við mikil andleg veikindi að stríða sem lýstu sér í mjög miklu þunglyndi.



En hann tók á sínum vandamálum og var ráðinn sem markvarðaþjálfari hjá kvennaliði Liverpool í júlí síðastliðnum.  Kirkland er 37 ára gamall og segist njóta þess það að vinna með kvennaliðinu það sem af er.

Kvennaliðið hefur tímabilið með leik við Manchester United, sem einmitt stofnuðu sitt fyrsta kvennalið nú í sumar, í Continental Tyres Cup á sunnudaginn kemur.

,,Ég hef notið þess í botn.  Ég var að bíða eftir tækifæri eins og þessu, ég var með nokkur tilboð á borðinu." sagði Kirkland í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins, staddur í Hollandi í æfingabúðum með liðinu.

,,Ég hef verið tengdur Liverpool í allmörg ár, ég studdi þá sem drengur og var svo auðvitað gríðarlega heppinn að fá að spila fyrir félagið.  Ég mæti einnig á alla heimaleiki liðsins núna."

,,Þegar Neil (Redfearn, þjálfari kvennaliðsins) hafði samband við mig var auðvelt fyrir mig að segja já.  Hann hefur verið mér frábær og liðið er stórkostlegt.  Þetta er auðvitað öðruvísi en karlaboltinn en leikmennirnir hafa verið frábærir - þær vilja læra og þær hlusta vel á mann.  Við erum einnig með frábæran liðsanda."

,,Þetta er nýtt fyrir okkur flestum og það eru mörg ný andlit í liðinu því margar yfirgáfu félagið eftir síðasta tímabil.  En ég nýt þess í botn að vinna með þeim."

Og Kirkland heldur áfram:  ,,Það er mér virkilega ánægjulegt að mæta hér til vinnu, undirbúa æfingarnar og taka jafnvel þátt í þeim líka.  Stjórinn hefur reynst mér vel, hann óskar eftir ráðleggingum frá mér sem er mjög gott.  Margir stjórar gera það ekki.  Ég hef svo auðvitað notið æfinganna og að komast aftur út á grasið hefur verið skemmtilegt."

Kvennaliðið endaði í sjötta sæti Women's Super League á síðasta tímabili, eins og áður sagði hafa orðið miklar mannabreytingar í leikmannahópnum sem og að stjórinn er nýr og allt starfslið hans.  Kirkland lýsir þessu sem nýrri byrjun, liðið hefur verið að ná góðum úrslitum í æfingaleikjum og hann hvetur stelpurnar til að halda því góða gengi áfram þegar deildin byrjar.

,,Við vitum öll að við verðum að byrja vel, það er auðvitað þannig sama í hvaða deild þú ert.  En fyrstu leikirnir eru mikilvægir.  Stjórinn veit þetta og hann hefur verið að láta leikmennina spila á sama hátt á æfingum eins og hann vill sjá þetta í komandi deildarleikjum.  Ný tækifæri bíða og stelpurnar hafa tekið breytingunum mjög vel."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan