| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur Liverpool er á útivelli í kvöld, mánudagskvöldið 20. ágúst, gegn Crystal Palace. Flautað verður til leiks klukkan 19:00 að íslenskum tíma.

Bæði lið unnu fyrsta leik sinn í deildinni. Palace sóttu Fulham heim og sigruðu nokkuð örugglega 0-2 á meðan okkar menn tóku West Ham í bakaríið 4-0. Eins og oft áður má búast við erfiðum leik þar sem ávallt er gríðarlega góð stemmning á Selhurst Park.

Engin ný meiðslavandræði eru í leikmannahóp Liverpool fyrir leikinn en fækkað hefur aðeins í leikmannahópnum eftir að þeir Ragnar Klavan og Marko Grujic héldu á braut. Klavan seldur til Cagliari á Ítalíu á meðan Grujic var lánaður til Hertha Berlin í Þýskalandi. Joel Matip gæti verið klár í slaginn en líklega verður hann í mesta lagi á bekknum. Þeir Dejan Lovren og Alex Oxlade-Chamberlain eru svo frá og verða ekki með í kvöld.  Byrjunarlið Jürgen Klopp verður sennilega nokkuð svipað því sem var í fyrsta leik.  Alisson verður í markinu og vörnin væntanlega skipuð þeim Alexander-Arnold, Gomez, van Dijk og Robertson. Á miðjunni er ekki ólíklegt að Henderson komi inn og þá mögulega í staðinn fyrir Wijnaldum en mín spá er sú að Keita og Milner haldi sæti sínu.  Frammi verða svo þeir Mané, Salah og Firmino.

Heimamenn eru með fimm leikmenn á meiðslalista og líklega breyta þeir ekkert liðinu sem vann Fulham eins og áður sagði um síðustu helgi. Það gæti þó verið að Þjóðverjinn Max Meyer komi inn en hann kom á frjálsri sölu í sumar, nokkuð óvænt að mörgum fannst.  Roy Hodgson er hinsvegar nokkuð íhaldssamur stjóri eins og við þekkjum og hann vill ábyggilega ekki breyta liðinu of mikið í þessum leik.  Ljóst er að Palace menn munu verjast aftarlega á vellinum, freista þess að loka svæðum og senda svo háa bolta upp völlinn þar sem Benteke á að taka við boltanum og koma honum í spil.

Síðasti leikur þessara liða á heimavelli Palace endaði með 1-2 sigri Liverpool. Leikurinn fór fram þann 31. mars síðastliðinn og komust heimamenn yfir snemma leiks með marki úr vítaspyrnu. Spyrnan var dæmd eftir kunnuglegt atvik þar sem hár bolti kom fram völlinn, Benteke vann skallaboltann og Zaha komst í gegn framhjá Alexander-Arnold vinstra megin sem endaði með því að Karius braut á honum í teignum. En gestirnir sneru dæminu við í seinni hálfleik með marki frá Mané og Salah skoraði svo sigurmarkið sex mínútum fyrir leikslok. Liðin mættust svo einmitt líka í 2. umferð á síðasta tímabili en þá á heimavelli Liverpool og vannst þar 1-0 sigur með marki frá Mané seint í leiknum.



Spáin að þessu sinni er sú að okkar menn hafa sigur í hörkuleik. Ætli lokatölur verði ekki þær sömu og síðast þegar liðin mættust, 1-2. Palace menn berjast sem mest þeir mega í leiknum en þegar upp er staðið verða það gæði framlínunnar hjá Liverpool sem skera úr um niðurstöðuna.

Fróðleikur:

- Sadio Mané er markahæstur leikmanna Liverpool með tvö mörk það sem af er tímabili. Vissulega bara einn leikur en ekki lýgur tölfræðin !

- Komi Daniel Sturridge við sögu í leiknum verður það úrvalsdeildarleikur hans númer 100 fyrir Liverpool.

- Joe Gomez spilar væntanlega sinn 30. úrvalsdeildarleik fyrir félagið.






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan