| Heimir Eyvindarson

Hvarflar ekki að mér að hætta að sóla menn og vippa yfir þá

Alisson átti nokkur skrautleg augnablik í leiknum gegn Brighton í gær. Mesta athygli vakti þegar hann vippaði skemmtilega yfir Knockaert, en í 1-2 skipti í leiknum var hann líka ansi tæpur. 

Eftir leikinn sagði Klopp að það hefði aðeins farið um hann þegar Alisson var að sóla menn og vippa yfir þá. ,,Það er óþarflega mikil spenna fyrir mig að horfa upp á svoleiðis, en hvað veit ég - ég hef aldrei verið með brasilískan markmann áður. Kannski þarf ég bara að venjast þessu"

Klopp gat þess líka að útileikmennirnir hefðu stundum sett Alisson í óþægilega stöðu með óvönduðum og illa ígrunduðum sendingum. Það virtist þó aldrei slá Brassann verulega út af laginu, þótt vissulega hafi hurð skollið nærri hælum einu sinni eða tvisvar a.m.k. 

,,Ég reyni bara að gera mitt besta í að halda spilinu gangandi, ef það þýðir að ég þarf að sóla einhvern eða chippa yfir hann þá geri ég það. Varlega, að sjálfsögðu. Það getur verið of áhættusamt stundum, en það er partur af nútíma fótbolta", segir Alisson. 

,,Við erum lið sem spilar boltanum upp, alla leið frá aftasta manni. Þannig spilar Liverpool og ég reyni að hjálpa til við það. Það getur alltaf gerst að einhver geri mistök, en við vinnum hörðum höndum alla vikuna til að ná að gera allt rétt þegar í leikina er komið."

Þótt það hafi aðeins farið um stjórann og stuðningsmennina á köflum í gær þá er ekki hægt að segja annað en að Alisson hafi byrjað frábærlega hjá félaginu. Hann virðist gríðarlega öflugur og stútfullur af sjálfstrausti, sem smitar út frá sér í varnarlínuna - og allt liðið. Hann hefur ekki enn fengið á sig mark í deildinni og þar við bætist að hann hélt hreinu í síðustu tveimur deildarleikjunum með Roma í vor, þannig að hann er búinn að spila fimm deildarleiki í röð án þess að þurfa að hirða boltann úr netinu. 

Þess má geta að á síðustu 50 árum er Alisson 4. markvörðurinn í sögu Liverpool til að halda hreinu í fyrstu þremur deildarleikjum sínum. Hinir eru Bruce Grobbelaar, Pepe Reina og Simon Mignolet. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan