| Grétar Magnússon

Landsleikir

Nokkrir leikmanna Liverpool hafa spilað fyrir landslið sín til þessa og við rennum yfir gengi þeirra hér.

Á fimmtudagskvöldið spilaði U-21 árs lið Englendinga við Andorra og unnu 7-0 stórsigur. Dominic Solanke var á bekknum en kom inná sem varamaður í seinni hálfleik og skoraði mark á 81. mínútu. Sigurinn tryggði Englendingum sæti í úrslitum Evrópumóts U-21 árs liða sem fram fer á Ítalíu næsta sumar.

Curtis Jones byrjaði hjá U-18 ára liði Englendinga í leik gegn Svíþjóð. Englendingar unnu góðan 4-0 sigur. Rafael Camacho spilaði svo í 72 mínútur með U-20 ára liði Portúgals í 1-1 jafntefli við Sviss en leikurinn var í undankeppni Heimsmeistaramóts þessa aldursflokks.

Andy Robertson og félagar í skoska landsliðinu heimsóttu Ísrael í Þjóðadeildinni. Skotar leiddu 0-1 í hálfleik en Ísraelar sneru dæminu við í seinni hálfleik og unnu 2-1 sigur.

Á föstudagskvöldið mættust Dejan Lovren og Jordan Henderson í Króatíu. Liðin eru saman í riðli í Þjóðadeildinni og léku fyrir tómum velli þar sem stuðningsmenn Króata hafa hagað sér ansi ósæmilega undanfarið. Leikurinn var tíðindalítill og endaði markalaus. Bæði Henderson og Lovren fengu gult spjald og Henderson verður í banni þegar Englendingar mæta Spánverjum í næstu viku. Þeir Joe Gomez og Trent Alexander-Arnold sátu á bekknum hjá Englendingum og komu ekki við sögu í leiknum.

Svisslendingar léku gegn Belgum í Þjóðadeildinni og Xerdan Shaqiri byrjaði auðvitað hjá Sviss. Belgar unnu 2-1 sigur og Simon Mignolet sat sem fastast á bekknum.

Brasilíumenn mættu Sádi Arabíu í vináttuleik og þar spilaði Fabinho sem hægri bakvörður allan leikinn en þeir Roberto Firmino og Alisson Becker sátu á bekknum. Brasilíumenn unnu 2-0 sigur.

Í undankeppni Afríkumótsins spilaði Mohamed Salah með Egyptum gegn Svasílandi þar sem 4-1 sigur Egypta var niðurstaðan. Salah skoraði mark í leiknum beint úr hornspyrnu, afar snyrtilega gert en hann þurfti þó að fara af velli skömmu síðar vegna meiðsla í kálfa. Meiðslin eru sem betur fer ekki talin alvarleg. Gíneumenn með Naby Keita innanborðs sigruðu Rúanda 2-0 þar sem Keita fiskaði vítaspyrnu.

Loks spilaði Kamil Grabara svo með U-21 árs liði Pólverja sem gerðu jafntefli við Danmörku 1-1 í undakeppni Evrópumótsins.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan