| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Liverpool er sem stendur jafnt Manchester City á toppi ensku Úrvalsdeildarinnar. Sigur á morgun kemur liðinu í efsta sætið og eftir stórsigur á Rauðu stjörnunni á miðvikudagskvöldið ættu leikmenn Liverpool að vera komnir á skotskóna eftir aðeins þrjú mörk í fimm leikjunum þar á undan. Ekkert er þó fast í hendi í þessari deild og leikmenn Liverpool verða að koma einbeittir til leiks. Cardiff City hefur gengið heldur illa þar til í síðustu umferð að fyrsti deildarsigurinn vannst. Það ætti því að vera meira sjálfstraust í liðinu en fram til þessa. 

Mikið hefur verið talað um að Liverpool hafi ekki hingað til spilað jafn vel og á síðasta keppnistímabili. Samt er liðið jafnt Manchester City á toppnum og hefur ekki tapað leik í deildinni. Mín skoðun er sú að Jürgen Klopp hafi breytt áherslum frá síðustu sparktíð. Það er ekki sami hraði í leik leiksins og kannski er ástæðan sú að dregið hafi verið viljandi úr hraðanum til að spara orku. Eins er breiddin í liðshópnum meiri núna og þess vegna er hægt að breyta liðinu meira milli leikja. Það hefur líka sitt að segja. En svo er vörnin öruggari og nýi markmaðurinn taustari en þeir sem voru í markinu síðustu árin. Þetta hefur allt sitt að segja að mínu mati. 


Skytturnar þrjár skoruðu allar á móti Rauðu stjörnunni og það var virkilega gott að þeir skyldu fara aftur í gang. Það er nauðsynlegt fyrir Liverpool að þeir séu að spila vel því það stafar mikil ógn af þeim og varnarmenn andstæðinganna eru ekki jafn öruggir með sig þegar þeir Mohamed Salah, Sadio Mané og Roberto Firmino eru í stuði og hafa verið að skora leikina á undan. Það mætti hiklaust bæta Daniel Sturridge við þessa þrjá sem áður voru nefndir en hann er búinn að skora fjögur góð mörk. 


Það verður að ná öllum tiltækum stigum í hús í toppbaráttunni. Leiktíðin byrjaði í sumar, haustinu lýkur í dag og fyrsti vetrardagur er á morgun. Það sem af er leiktíðar hefur Liverpool verið í toppbaráttuni og nær vonandi að vera í henni þar til leiktíðinni lýkur í vor. Ég spái því að Liverpool haldi áfram á sömu braut, á móti Cardiff, og liðið var á gegn serbnesku meisturunum. Liverpool vinnur 3:0. Mohamed Salah skorar tvö og Xherdan Shaqiri eitt. 

YNWA!  

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan