| Grétar Magnússon

Skita í Serbíu

Þið afsakið orðbragðið en það var ekki hægt að orða leik Liverpool gegn Rauðu Stjörnunni öðruvísi.

Gerðar voru þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum við Arsenal en inn kom Joel Matip í vörnina, Adam Lallana á miðjuna og Daniel Sturridge í sóknina.

Fyrstu mínútur leiksins var ljóst að leikmenn Rauðu Stjörnunnar ætluðu að selja sig dýrt í leiknum og voru augljóslega tilbúnir í verkefnið. En sama var ekki hægt að segja um leikmenn Liverpool. Strax á þriðju mínútu fengu heimamenn sína fyrstu hornspyrnu en ekki skapaðist hætta í teignum í það skiptið. Á 9. mínútu gerði Mané vel þegar hann komst af harðfylgi upp vinstri kantinn, sendi boltann út í teiginn þar sem Milner þrumaði boltanum hátt yfir viðstöðulaust. Mínútu síðar átti Marko Marin skot á markið hinumegin en það var auðvelt fyrir Alisson.

Besta færi Liverpool í fyrri hálfleik kom á 18. mínútu þegar Mané var áfram að skapa, sendi boltann inná teiginn þar sem Lallana flikkaði boltanum áfram á Sturridge sem þrumaði hátt yfir í úrvalsfæri. Liverpool var líka refsað fyrir þetta fjórum mínútum síðar þegar Milan Pavkov reis manna hæst í teignum og skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu. Pavkov var svo aftur á ferðinni á 29. mínútu þegar hann þrumaði boltanum í netið fyrir utan teig. Varnarvinna Liverpool manna arfaslök í báðum mörkum og miðjan úti á túni.

Síðari hálfleikur var einstefna gestanna en þeir náðu ekki að skapa sér nein alvöru færi enda voru menn hálfpartinn á hælunum allan leikinn. Í hálfleik gerði Klopp tvær breytingar þar sem Sturridge og Alexander-Arnold fóru útaf í stað Gomez og Firmino. Heimamenn hentu sér fyrir öll skot og fórnuðu sér fyrir málstaðinn hvað eftir annað. Það dugði til sigurs og 2-0 tap niðurstaðan í leiknum. Staðan í riðlinum því orðin frekar slæm hjá Liverpool eftir að hafa tapað báðum útileikjum sínum í riðlinum en það sem er meira áhyggjuefni er spilamennska liðsins í þessum leikjum. Leikmenn liðsins hafa svo sannarlega valdið miklum vonbrigðum í þessum leikjum.


Rauða Stjarnan: Borjan, Stojkovic (Gobeljic, 59. mín.), Savic, Degenek, Rodic, Krsticic (Jovicic, 73. mín.), Jovancic, Ben Nabouhane, Marin (Causic, 64. mín.), Srnic, Pavkov. Ónotaðir varamenn: Popovic, Babic, Stojiljkovic, Simic.

Mörk Rauðu Stjörnunnar: Pavkov (22. og 29. mín.).

Gult spjald: Marin.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold (Gomez, 45. mín.), Matip, van Dijk, Robertson, Milner, Wijnaldum, Lallana (Origi, 79. mín.), Salah, Sturridge (Firmino, 45. mín.), Mané. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Moreno, Keita, Fabinho.

Gult spjald: Lallana.

Maður leiksins: Ekki er hægt að velja mann leiksins að þessu sinni, menn voru einfaldlega allir í ruglinu í leiknum.

Jürgen Klopp: ,,Strákarnir eru mjög vonsviknir, ég er mjög vonsvikinn og við verðum að gera betur. Við verðum að gera betur af því að við getum það, en það er of seint hvað þennan leik varðar. Þeir áttu of mörg föst leikatriði og þeir skoruðu úr einu slíku. Svo skora þeir annað mjög fljótt og andrúmsloftið breyttist á vellinum, ég fann það vel. Ég get ekki talið upp allt það sem fór úrskeiðis því ég er bara með 10 fingur. Við keyrum núna á þessa tvo leiki sem eftir eru 100%."

Fróðleikur:

- Þetta var í fyrsta skipti í sögu félagsins sem liðið tapar þrem útileikjum í röð í Evrópukeppni.

- Það er huggun harmi gegn að leikur Napoli og PSG endaði með jafntefli og Liverpool eru því í öðru sæti riðilsins. Með jafnmörg stig og Napoli en Ítalirnir eru fyrir ofan vegna innbyrðis viðureigna.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan