| Sf. Gutt

Tap í Vínarborg

Liverpool tapaði 1:0 í Vínarborg fyrir Rapid Vín. Liðið hefur enn ekki skorað í æfingaleikjum sínum tveimur í sumar en liðið gerði markalaust jafntefli við St Gallen í Sviss á dögunum. Rafael Benítez gat notað þá menn sem hann vildi nema hvað þeir Glen Johnson og Stephen Darby voru hvíldir vegna smávægilegra meiðsla. 
 
Áhorfendur troðfylltu Ernst Happel leikvanginn í Vínarborg en þessi leikur var leikinn til að halda upp á 110 ára stórafmæli Rapid Vín. Það er ekki að spyrja að vinsældum Liverpool. Liverpool fékk fyrsta færið en Krisztian Nemeth náði ekki góðum skalla eftir fyrirgjöf Nabil El Zhar og boltinn fór framhjá. Leikurinn var daufur og tíðindalítill en heimamenn náðu smá saman undirtökunum. Undir lok hálfleiksins fékk Erwin Hoffer gott færi en Diego Cavalieri náði að verja.

Eina mark leiksins kom á 58. mínútu. Heimamenn fengu þá aukaspyrnu fyrir utan vinstra vítateigshornið. Steffen Hoffmann tók aukaspyrnuna og skoraði með skoti neðst í fjærhornið sem Peter Gulacsi réði ekki við. Yossi Benayoun reyndi að jafna úr aukaspyrnu en skot hans fór beint á markmann Rapid. Dirk Kuyt komst svo í færi eftir sendingu David Ngog en skot hans fór í hliðarnetið. Daniel Pacheco komst í færi en varnarmaður komst fyrir skot hans. Liverpool lék ekki vel frekar en gegn St Gallen og náði ekki að jafna. Heimamenn fögnuðu því sigri sem talinn var sanngjarn. 

Liverpoool: Cavalieri (Gulacsi 46. mín.) (Martin), Insua (Mascherano 65. mín.), Carragher (San Jose 46. mín.), Ayala (Skrtel 46. mín.), Degen (Kelly 65. mín.), Babel (Benayoun 46. mín.), Gerrard (Spearing 46. mín.), Plessis (Lucas 46. mín.), El Zhar (Kuyt 46. mín.), Nemeth (Pacheco 46. mín.) og Voronin (Ngog 46. mín.).

Áhorfendur á Ernst Happel leikvanginum: 50.000.

Maður leiksins samkvæmt Liverpoolfc.tv: Steven Gerrard.

Helsta heimild: Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Rapid Vín.

Liðshópur Liverpool og föruneyti heldur nú til Tælands þar sem leikið verður við landslið heimamanna.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan