| Sf. Gutt

Okkur að kenna!

Roy Hodgson var ekki framkvæmdastjóri Liverpool nema í rétt hálft ár. Honum gekk flest í móti þegar leið á þetta hálfa ár sem hann stjórnaði og það endaði með því að samið var við hann um starfslok. Steven Gerrard segir að leikmenn Liverpool, á þeim tíma, beri töluverða ábyrgð á því að Roy gekk ekki betur í starfi á Anfield en raun varð á. 

,,Þetta var erfitt fyrir Roy og reyndar alla hjá félaginu. Kannski var hann ráðinn framkvæmdastjóri Liverpool á röngum tíma. Þegar starfið losnaði vildu mjög margir stuðningsmenn Liverpool að Kenny yrði ráðinn og þess vegna var aukin pressa á Roy að skila góðu verki frá fyrsta degi. Hann lifir og hrærist í knattspyrnunni, býr yfir mikilli reynslu og er öndvegis maður. Hann er virtur í knattspyrnuheiminum því hann hefur notið velgengni sem framkvæmdastjóri. Þó svo að honum hafi ekki vegnað vel hérna þá þýðir það ekki að hann sé orðinn slæmur framkvæmdastjóri."

,,Hann veit að hjá Liverpool er maður dæmdur af úrslitum. Úrslitin voru ekki nógu góð og því miður er það þannig í knattspyrnuheiminum að skuldinni er skellt á framkvæmdastjóra ef ekki gengur vel. Ég var einn af þeim leikmönnum sem komu fram eftir að hann fór og lét fólk ekki velkjast í vafa um að að hvernig fór var ekki bara Roy Hodgson að kenna. Leikmennirnir stóðu ekki undir nafni og skiluðu ekki sínu. Það var það dapurlega."

,,Hlutirnir hafa færst til betri vegar eftir að Kenny tók við. Nýju eigendurnir hafa haft sitt að segja. Fólkið sem starfar hjá félaginu er ánægt og við erum í framför."

Roy mætir með lærisveina sína hjá West Bromwich Albion til Liverpool á morgun og það verður áhugavert að sjá hvernig þeim vegnar á móti Deildarbikarmeisturunum á Anfield Road!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan