| Grétar Magnússon

Sagan á bak við rauðu netin

Einhverjir hafa tekið eftir því að netin í mörkunum tveimur á Anfield eru orðin rauð en ekki í hefðbundna hvíta litnum.  Margir muna eftir rauðu netunum á níunda áratug síðustu aldar.

Þegar Fabio Borini skoraði fyrsta mark leiksins gegn Gomel síðastliðinn fimmtudag varð hann fyrsti maðurinn til að skora í rauðu netin síðan tímabilið 1994-95.  Það var Brendan Rodgers sem fyrirskipaði að netin ættu að vera rauð á ný og er þetta í annað skiptið sem nýi stjórinn sækir innblástur í sögu félagsins en fyrr í sumar birtum við frétt um það þegar hann lét setja upp elsta This is Anfield skiltið á ný í göngunum.

Stephen Done, starfsmaður á safni félagsins á Anfield sagði:  ,,Brendan og fjölskylda hans fengu að skoða Anfield daginn eftir að hann var kynntur sem stjóri félagsins og sem hluti af einkaferð um völlinn."



,,Í lok ferðarinnar stóðum við í Kop stúkunni og Brendan minntist þess að netin í mörkunum hafi alltaf verið rauð.  Árin í kringum 1980 voru árin sem byrjuðu að móta hann, það var þá sem hann byrjaði að fylgjast með og spila knattspyrnu og hann virtist muna vel eftir rauðu netunum.  Hann lagði það til að við myndum setja þau upp að nýju."

,,Kevin O'Shea (einnig starfsmaður safnsins) og ég vorum sammála.  Þetta myndi nú ekki vinna neina leiki fyrir okkur en ef þetta gefur okkur smá auka andlegt forskot með því að láta stuðningsmenn og liðinu líða betur hvers vegna ekki ?"

Það var maður að nafni John Brodie, verkfræðingur frá Liverpool, sem fann upp net í knattspyrnumörk árið 1889 og þaðan í frá áttu öll net að vera í dökkum lit, eins og raunin varð á Anfield allt þangað til að skipt var yfir í rauðu netin á sjöunda áratugnum.

Myndin hér fyrir neðan er frá leik við verðandi meistara í Manchester City og sýnir að netin voru að minnsta kosti komin í árið 1968.



Tímabilið 1994-95 var það síðasta sem stuðningsmenn sáu rauðu netin á Anfield þangað til þau sneru aftur gegn Gomel.  En hvers vegna voru þau tekin úr á sínum tíma ?

Stephen útskýrði það:  ,,Netin voru tekin niður vegna þess að sumir leikmanna Roy Evans töldu að þeir gætu ekki séð rauða netið með Kop stúkuna í bakgrunni, og því var skipt um þau."

,,Leikmennirnir höfðu kannski eitthvað til síns máls, en þetta virtist nú aldrei vera neitt vandamál fyrir leikmenn eins og Rush, Barnes, Aldridge og hvað þá Roger Hunt !"






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan