| Grétar Magnússon

Landsleikjafréttir

Þá er þessu landsleikjahléi lokið í bili og sem fyrr voru leikmenn Liverpool að leika með landsliðum sínum.  Rennum yfir gengi þeirra hér.

Jordan Henderson var fyrirliði Englendinga í fyrsta sinn þegar þeir mættu Slóveníu á útivelli á þriðjudagskvöldið.  Daniel Sturridge var einnig í byrjunarliðinu en hvorugur þótti standa sig neitt sérstaklega vel en það sama má reyndar segja um flestalla leikmenn liðsins í leiknum.  Liðin gerðu markalaust jafntefli og má kannski segja að Joe Hart markvörður hafi staðið sig einna best en hann varði einu sinni stórglæsilega í leiknum og gerði vel þegar leikmaður Slóveníu komst inní misheppnaða sendingu Henderson og komst nánast einn í gegn.  Góðu fréttirnar eru hinsvegar þær að Sturridge og Henderson komust óskaddaðir frá leiknum.

Sömu sögu er hinsvegar ekki að segja af Gini Wijnaldum sem lék með Hollandi gegn Frakklandi á heimavelli á mánudagskvöldið.  Wijnaldum meiddist í leiknum sem Hollendingar töpuðu 0-1 og afar ólíklegt er að hann nái sér góðum í tæka tíð fyrir leikinn við Manchester United á mánudagskvöldið.

Ragnar Klavan og félagar í eistneska landsliðinu léku einnig á mánudagskvöldið.  Þeir tóku á móti Grikkjum og töpuðu 0-2 þar sem Klavan lék allan leikinn í vörninni.  Sama kvöld áttust við Belgar og Gíbraltar þar sem Divock Origi og Simon Mignolet komu ekki við sögu en leikurinn var létt æfing fyrir Belga sem sigruðu 0-6.  Fyrrum leikmaður félagsins, Christian Benteke, setti met þegar hann skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins 8,1 sekúndu.  Er það fljótasta markið í sögu undankeppni HM.

Í nótt voru svo Philippe Coutinho og Roberto Firmino að spila með Brasilíu gegn Venesúela á útivelli og þar byrjaði Coutinho leikinn en Firmino var ónotaður varamaður.  Brasilíumenn unnu 0-2 og fór Coutinho ómeiddur af velli eftir 83. mínútna leik.  Brassarnir tveir eru væntanlegir til Englands á fimmtudagsmorguninn og ættu að hafa nægan tíma til að jafna sig eftir langt ferðalag til og frá Suður-Ameríku.

Af yngri landsliðsmönnunum er það að frétta að Ovie Ejaria skoraði sitt fyrsta landsliðsmark fyrir U-20 ára landslið Englands í sigri á U-20 ára liði Bandaríkjanna á mánudaginn.

Þá spilaði Trent Alexander-Arnold í 71. mínútu með U-19 ára landsliði Englands í 2-1 sigri á Búlgaríu á þriðjudaginn og Marko Grujic byrjaði inná hjá U-21 árs landsliði Serba í 3-1 sigri á Slóveníu.

Þess má til gamans geta að Christain Benteke, fyrrum framherji Liverpool, kom sér í sögubækur með sneggsta marki í sögu HM. Það tók hann aðeins átta sekúndur að skora fyrsta mark sitt af þremur í 0:6 sigri Belga. Vel af sér vikið hjá Christan sem hefur skorað nokkur mörk í byrjun leiktíðar fyrir Crystal Palace.









TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan