| Grétar Magnússon

Klopp valinn besti stjórinn í september

Tilkynnt var í dag um hvaða stjóri hlýtur var valinn sem besti stjóri úrvalsdeildarinnar fyrir septembermánuð og kemur það kannski ekki á óvart að Jurgen Klopp fékk útnefninguna að þessu sinni.

Liðið spilaði þrjá leiki í mánuðinum í deildinni og unnu þá alla.  Fyrst vannst glæsilegur sigur á Leicester City í vígsluleiknum á nýju stúkunni á Anfield, 4-1.  Næsti leikur á dagskrá var svo gegn Chelsea á Stamford Brigde þar sem Klopp stýrði sínum mönnum til 1-2 sigurs.  Það má einnig geta þess að Jordan Henderson fékk verðlaun fyrir flottasta mark úrvalsdeildarinnar í septembermánuði en mark hans í leiknum gegn Chelsea var stórglæsilegt.

Þriðji sigur mánaðarins vannst svo á Hull City á Anfield 5-1 og hefði sá sigur líklega getað verið mun stærri.  Niðurstaðan því fullt hús stiga í september og markatalan 11-3 sem verður að teljast ágætur árangur.  Þeir stjórar sem einnig voru tilnefndir að þessu sinni voru þeir Pep Guardiola, Arsene Wenger, Mauricio Pochettino og Alan Pardew.

Klopp sagði af þessu tilefni:  ,,Ég fór inná skrifstofu okkar þjálfarana og sagði við erum stjórar mánaðarins ! "

,,Það er vissulega betra að vera enn í baráttunni í deildinni.  Í september náðum við góðum úrslitum og frammistaðan í leikjunum var ekki svo slæm heldur.  En í alvöru talað þá þarf ég ekki á persónulegum viðurkenningum að halda, þær eru fínar en ég vil frekar safna stigum en svona viðurkenningum."

,,Ég er sannfærður um að í leikmönnum mínum býr mikill kraftur og hvert það leiðir okkur veit ég ekki.  Við erum á góðri leið en það eru svo mörg góð lið í þessari deild og svo margir erfiðir leikir sem við verðum ávallt að vera tilbúnir í.  Ég er ánægður nú sem stendur en við eigum eftir að spila nokkra leiki í viðbót og vonandi gerum við vel þar."

Þetta er í 15. sinn sem knattspyrnustjóri Liverpool hlýtur þessi verðlaun í úrvalsdeildinni og jafnaðist þar með fjöldi verðlauna Arsenal í öðru sæti á þeim lista.  Klopp er sjötti stjóri Liverpool sem hlýtur þessa útnefningu en undanfarin ár hafa þessi verðlaun ekki verið að lenda hjá Liverpool, er þetta í þriðja sinn á síðustu sjö tímabilum sem þau falla í skaut stjóra félagsins.  Brendan Rodgers hlaut síðast þessi verðlaun í mars árið 2014.

Í gegnum tíðina þýddu þessi verðlaun oftar en ekki það að úrslit liðsins í næstu leikjum voru alls ekki góð og menn hafa oft talað um að einhverskonar bölvun fylgi þessari nafnbót.  Tíminn einn mun leiða það í ljós hvernig liðinu reiðir af á næstunni en vonandi verða úrslitin áfram góð hjá okkar mönnum og þá sérstaklega í næsta leik !

Jafnframt var tilkynnt um valið á leikmanni september mánaðar og þar var Adam Lallana tilnefndur en það var Son Heung-min leikmaður Tottenham sem var valinn að þessu sinni.



Mark mánaðarins hjá Jordan Henderson má svo sjá hér fyrir neðan.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan