| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Liverpool v. Southampton

Það má ekkert út af bera annað kvöld þegar Liverpool mætir Southampton í seinni hálfleik undanúrslitarimmu liðanna í Deildarbikarnum. Liverpool tapaði 1:0 á suðurströndinni í fyrri leiknum og þarf minnst tveggja marka sigur á Anfield Road ef ekki er reiknað með 1:0 sigri og svo sigri í vítaspyrnukeppni. Við stuðningsmenn Liverpool þurfum ekki á slíkri spennu að halda en það er svo sem sama hvernig farið verður að því að komast á Wembley. 


Liverpool er í lægð og það á versta tíma. Reyndar er enginn tími góður til að lenda í lægð en ef liðið rífur sig ekki í gang annað kvöld kemst Liverpool ekki á Wembley og það yrði ömurlegt þegar svona nærri er komið. Tapið fyrir Swansea um helgina var kjaftshögg en staðreyndin eru sú að liðið hefur leikið illa frá því það vann Manchester City á síðasta degi liðins árs. Þá leit allt vel út en nú næstum mánuði síðar hefur liðið ekki unnið deildarleik og eini sigur ársins kom þegar liðið vann lið úr fjórðu deild með minnsta mun!


Jürgen Klopp var skiljanlega heldur þungbúinn á blaðamannafundi í gær og sagði að hvorki áhorfendur eða leikmenn hefðu staðið sig nógu vel á Anfield þegar Swansea kom í heimsókn. Málið er einfalt. Bæði leikmenn og áhorfendur verða að taka sig saman í andlitinu og sýna sitt besta. Öðruvísi kemst Liverpool ekki til Wembley!

Það er ekki gott að segja hvers vegna Liverpool hefur dottið niður núna eftir áramótin. Sadio Mané er auðvitað í Afríkukeppninni en þeir Daniel Sturridge, Divock Origi og fleiri ættu samt að geta spilað betur. Búist var við að þeir myndu grípa tækifærið þegar Sadio yrði ekki á svæðinu en þeir hafa varla sést. Kannski er þreyta hjá lykilmönnum en þeir fengu samt flestir hvíld í leikjunum við Plymouth. 


Dýrlingarnir munu örugglega mæta brattir á Anfield enda unnu þeir góðan 3:0 sigur á Englandsmeisturum Leicester City um helgina og þeir hafa ekki tapað fyrir Liverpool í þeim tveimur leikjum sem liðin hafa leikið á leiktíðinni. Liverpool hefur ekki einu sinni skorað gegn þeim! Leikmenn Liverpool verða að rífa sig upp og ég trúi ekki öðru en svo verði. Ef ekki þegar sæti í úrslitaleik er í boði þá veit ég ekki hvað þarf til. Ég spái því að Liverpool vinni 3:1 og komist samanlagt áfram. Leikurinn verður samt erfiður og Liverpool fer aldrei greiðar leiðir þegar úrslitaleikir eru annars vegar! Daniel Sturridge, Jordan Henderson og Adam Lallana skora og koma Liverpool á Wembley. Annað er ekki í boði!

Hér má
sjá leikmenn Liverpool æfa á Melwood fyrir leikinn. 

YNWA!






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan