| Grétar Magnússon

Coutinho skrifar undir nýjan samning

Þær gleðifréttir bárust nú í morgunsárið að Philippe Coutinho hefur skrifað undir nýjan langtíma samning við félagið.

Nýi samningurinn tekur gildi þann 1. júlí í sumar og er hann talinn gilda til ársins 2022.  Brasilíumaðurinn kom til félagsins í janúar árið 2013 og hefur síðan þá vaxið gríðarlega sem leikmaður og sýnt það og sannað að hann er einn mikilvægasti leikmaður liðsins.  Til þessa hefur hann spilað 163 leiki og skorað í þeim 34 mörk.

Coutinho sagði af þessu tilefni:  ,,Ég vil byrja á því að þakka öllum hjá félaginu, fyrst og fremst.  Ég er auðvitað mjög ánægður með að skrifa undir nýjan samning hér.  Þetta er félag sem ég stend í mikilli þakkarskuld við og undirskriftin sýnir hversu ánægður ég er hér.  Ég mun leggja harðar að mér til að þakka fyrir það traust sem mér er sýnt."

,,Ég skrifaði undir nýjan samning til að vera áfram hér næstu ár og það er mér mikill heiður.  Ég er gríðarlega ánægður og þegar ég kom hingað fyrst var mér tekið með opnum örmum af öllum starfsmönnum félagsins og stuðningsmönnum frá fyrsta degi.  Ég segi það aftur að ég stend í mikilli þakkarskuld við félagið fyrir allt sem það hefur gert."

Brasilíumaðurinn er nýkominn til baka eftir meiðsli sem héldu honum frá keppni frá lokum nóvembermánaðar, áður en hann meiddist var hann í frábæru formi og hafði skorað 6 mörk í 14 leikjum sem og átt nokkrar stoðsendingar.  Eftir að hafa jafnað sig af meiðslunum hefur hann tekið þátt í síðustu fjórum leikjum.

Hann bætti við:  ,,Ég er þannig gerður að ég vil leggja mikið á mig til að verða betri með hverjum deginum.  Ég vil læra nýja hluti og það hefur ekkert breyst frá því sem það var fyrir meiðslin.  Auðvitað verða hlutirnir erfiðari þegar maður glímir við meiðsli og ég missti af mörgum leikjum."

,,Þegar maður kemur til baka getur svo verið erfitt að komast aftur í sama form en ég hef verið að vinna að því hörðum höndum að spila eins vel og ég gerði í byrjun tímabils til að hjálpa liðinu að vinna leiki.  Síðustu leikir hafa ekki verið nógu góðir en ég er tilbúinn að halda áfram að berjast."

Jurgen Klopp var að sjálfsögðu ánægður með Coutinho og sagði af þessu tilefni:  ,,Þetta eru frábærar fréttir og ég veit að allir sem tengjast félaginu verða mjög ánægðir þegar þeir heyra þessar fréttir.  Ég held að allir viti hversu góður knattspyrnumaður Phil er, það þarf ekkert að fjölyrða um það - en það sjá ekki allir hversu ótrúlega jákvæð persóna hann er og hversu mikil áhrif það hefur í búningsklefanum."

,,Ég þekkti Phil áður en ég kom hingað til Liverpool og vissi vel hversu hæfileikaríkur hann var, en síðan ég kom hingað hef ég ekki aðeins orðið var við þetta sjálfur heldur einnig hversu mikið hann bætir sig dag frá degi.  Hann er klárlega leikmaður í heimsklassa.  Sú staðreynd að hann vilji vera hér áfram og vera hluti af því sem við erum að byggja sýnir hversu tilbúinn hann er að verða betri sem og að verða stór hluti af einhverju sérstöku hér."

,,Við höfum fulla trú á verkefninu en þegar leikmaður á borð við Coutinho sýnir vilja til að vera hér í mörg ár í viðbót þá sjáum við að menn hafa trú á hlutunum.  Hann veit að hann getur uppfyllt drauma sína og markmið hér hjá Liverpool.  Það er stór yfirlýsing."

,,Ég hlakka til að sjá Phil skapa fleiri minningar hjá þessu félagi."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan