| Sf. Gutt

Allt eða ekkert!


Það er allt eða ekkert á Anfield Road í kvöld. Liverpool þarf að vinna Southampton til að komast í úrslitaleikinn um Deildarbikarinn. Dýrlingarnir hafa eitt mark í nesti og Liverpool þarf því að vinna með tveggja marka mun. Vinni Liverpool 1:0 eftir framlengingu þarf vítaspyrnukeppni eins og í fyrra þegar Liverpool sló Stoke City út og fór í úrslitaleikinn sem tapaðist í vítaspyrnukeppni fyrir Manchester City. Hafa ber í huga að útimörk taka ekki gildi fyrr en eftir venjulegan leiktíma. 

Framganga Liverpool á móti Swansea City um helgina olli miklum vonbrigðum og reyndar hefur liðið ekki spilað vel frá því það vann Manchester City í gamlársdagsleiknum. En nú dugar ekkert nema sigur og liðið verður að sýna hvað í því býr!


Jürgen Klopp segir að ef allir sem standa að Liverpool leggi sitt af mörkum geti liðið komist á Wembley annað árið í röð. ,,Í kvöld snýst þetta um okkur sem lið og félag. Hvernig við bregðumst við og stöndum okkur saman. Allir þekkja sitt hlutverk í kvöld. Liðið, leikmennirnir, við sem stjórnum liðinu og starfsfólkið. Stuðningsmennirnir vita hvaða áhrif þeir geta haft á svona stundum. Við vitum hvað er í húfi  og hversu mikla þýðingu það hefur að komast í úrslitaleik og halda voninni um að vinna þessa keppni á lífi."


Jordan Henderson fyrirliði Liverpool segir að liðið fái nú tækifæri til að rífa sig í gang. ,,Það er úrslitaleikur á Wembley í húfi en það er bara einn af nokkrum þáttum sem ætti að hvetja okkur fyrir þessa rimmu. Stærsta hvatningin liggur í þeirri staðreynd að við fáum þarna tækifæri til að sýna að við erum betri en úrslit og framganga okkar í síðustu leikjum gefur til kynna."

Það er allt eða ekkert í kvöld. Allir innan vallar sem utan verða að leggjast á eitt. Það voru mikil vonbrigði að missa af titlum á síðustu leiktíð. Það er tækifæri til að bæta úr á þessari sparktíð en til þess þarf Liverpool að komast áfram í kvöld. Ekkert annað en sigur er ásættanlegt!!!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan