| Sf. Gutt

Skammarlegt brottfall

Hrakfarirnar halda áfram. Liverpool féll í dag úr FA bikarnum á skammarlegan hátt eftir 1:2 tap fyrir Wolverhampton Wanderes á Anfield. Á einni viku hefur liðið hrunið og það fallið úr tveimur bikarkeppnum.

Eins og við var að búast breytti  Jürgen Klopp liðinu mikið frá tapleiknum á moti Southampton í Deildarbikarnum. Eins og á móti Plymouth gaf hann nokkrum ungliðum tækifæri en reyndir menn voru með. Ekki voru allir af bestu leikmönnunum tiltækir en nokkrir voru stirðir eftir leikinn á móti Southamppton og því hvíldir. Sama var  framkvæmdastjórinn mat það sem svo að liðið væri fullfært um að vinna lið sem er í neðri helmingi í næst efstu deild.

Gestirnir fengu aukaspyrnu á fyrstu mínútunni. Sent var fyrir markið og Richard Stearman skallaði auðveldlega í markið. Varnarmenn Liverpool voru ekki komnir á fætur og Loris Karius fór ekki út í fyrirgjöfina. Reyndar hefði markið ekki átt að standa vegna þess að Richard var rangstæður að sjá. Heilar 53 sekúndur voru liðnar!

Leikmenn Liverpool rumskuðu en varla meira en það. Á 10. mínútu fékk Liverpool horn en Úlfarnir sneru vörn í sókn og Helder Costa lék frá sínum vítateig fram allan völlinn og inn í vítateg Liverpool þar sem Ben Woodburn náði að koma honum úr jafnvægi þannig að skot hans fór framhjá. Ótrúleg rispa og Liverpool slapp með skrekkinn.

Liverpool sótti lánlaust ekki vantaði það en gestirnir vörðust með kjafti og klóm og heimamenn komust ekkert áleiðis. Það kom kannski ekki á óvart að Wolves bætti marki við þegar fjórar mínútur voru til leikhlés. Skyndisókn sem ósamstæð vörn Liverpool átti ekkert svar við og Andreas Weimann lék léttilega á Loris og skoraði í autt markið.

Connor Randall var tekinn út af í leikhléi og Philippe Coutinho kom inn á. Eftir klukkutíma varð hann fyrsti leikmaður Liverpool til að eiga skot á markrammann en skotið var laflaust og skapaði enga hættu. Sókn Liverpool, þótt linnulaus væri, skapaði enga hættu og leikmenn liðsins voru hver öðrum slakari. Varamenn voru sendir til leiks en þeir bættu liðið ekkert. Þegar tíu mínútur voru eftir var varamaður Wolves Jón Daði Böðvarsson ágengur eftir horn en Loris lokaði á hann.

Loksins á 86. mínútu skoraði Liverpool. Varamaðurinn Daniel Sturridge skallaði fyrir markið eftir horn og Divock Origi skoraði af stuttu færi. Nú loksins kom eitthvað líf og kraftur í leikmenn Liverpool sem loksins virtust átta sig á því að það stefndi í skammarlegt tap. Strax í næstu sókn var Divock búinn að skora en markmaðurinn náði að verja naumlega. Allt var sett í sóknina en þegar mínúta var eftir náði Jón Daði mikilli rispu. Varnarmenn Liverpool náðu ekki að stöðva hann og hann náði skoti en Lucas Leiva komst fyrir skotið. Fögnuður gestanna innan vallar sem utan var gríðarlegur þegar flautað var til leiksloka. Rauði herinn var bugaður og menn fóru skömmustulegir af velli! Menn máttu svo sannarlega skammast sín!

Þetta tap var skelfilegt hvernig sem á það er litið og liðið var einfaldlega niðurlægt. Það er eins og liðið hafi hrunið á einni viku og menn misst trú á að þeir geti spilað knattspyrnu. Vissulega hefur liðinu verið breytt milli leikja en séu menn ekki betri en hver og einn hefur sýnt síðustu vikuna þá má ekki búast við gæfulegum endi á leiktíðinni. Nóg er að láta lið sem Liverpool á að vinna slá liðið út úr báðum bikarkeppnunum á fjórum dögum. Framkvæmdastjórinn er kominn í þröng og fátt er til svara. Þessi vika hefur verið skelfileg hvað Liverpool Football Club varðar. Félagið er haft að háði og spotti! Leikmenn eru hver öðrum slakari og sama virðist vera hver er inn á. Knattspyrnan er bara leikur og flest allt mikilvægara en þetta gengur ekki!  

Liverpool: Karius, Randall (Coutinho 45. mín.), Gomez, Klavan, Moreno, Leiva, Ejaria (Can 74. mín), Wijnaldum, Woodburn, Firmino (Sturridge 65. mín.) og Origi. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Milner, Stewart og Wilson.

Mark Liverpool:
Divoc Origi (86. mín.).

Gult spjald: Georginio Wijnaldum.

Wolverhampton Wanderes: Burgoyne, Coady, Stearman, Hause, Doherty, Saville, Evans, Costa (Ronan 67. mín.), Edwards, Weimann (Mason 76. mín.) og Dicko (Jón Daði Böðvarsson 71. mín.). Ónotaðir varamenn: Lonergan, Batth, Enobakhare og Gibbs-White.

Mörk Wolves:
Richard Stearman (1. mín.) og  Andreas Weimann (41. mín.).

Gul spjöld: Richard Stearman, Kortney Hause og Lee Evans.

Áhorfendur á Anfield Road: 52.469.

Maður leiksins:
Ben Woodburn. Eini leikmaður liðsins sem komst skammlítið frá leiknum. 

Jürgen Klopp: Ég ber ábyrgð á hvernig liðið spilaði því ég hélt að liðið sem ég valdi væri tilbúið í leikinn. Það kom í ljós að svo var ekki og tilfinningin er slæm. Ég gæti reynt að afsaka eitthvað en mig langar ekki til þess. Kannski ættum við að nota tímann til að vera vera  vonsviknir, argir og reiðir við sjálfa okkur. Það eina sem ég get sagt er fyrirgefiði!

Fróðleikur

- Liverpool hefur nú tapað þremur leikjum í röð á Anfield Road.

- Það gerðist síðast í október 2012.

- Divock Origi skoraði áttunda mark sitt á leiktíðinni.

- Wolves hefur nú slegið tvö lið úr efstu deild út úr FA bikarnum. Fyrst Stoke City og svo Liverpool. 

- Í síðustu þrjú skipti sem Liverpool hefur tapað á Anfield í FA bikarnum hefur það verið fyrir liðum úr næst efstu deild. Fyrir Barnsley 2008, næst Reading 2010 og nú Wolves.

Hér eru
myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.




 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan