| Grétar Magnússon

Landsleikjafréttir

Þá er síðasta landsleikjahléi tímabilsins lokið og við rennum yfir gengi okkar manna með landsliðum sínum.

Englendingar unnu Litháa á heimavelli á sunnudaginn 2-0 og lagði Adam Lallana upp seinna mark Englendinga í leiknum sem Jamie Vardy skoraði en Jermaine Defoe skoraði fyrra markið.  Hann spilaði allan leikinn en Nathaniel Clyne sat á bekknum og kom ekki við sögu.  Eins og við höfum greint frá áður þá er Lallana frá í mánuð vegna meiðsla í læri sem hann hlaut í leiknum.

Emre Can kom ekki við sögu hjá Þýskalandi í 1-4 sigri þeirra á Azerbaidjan á útivelli.

Á mánudaginn mættust Senegal og Fílabeinsströndin í París og þar skoraði Mané fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu en Fílbeinsstrendingar jöfnuðu skömmu síðar.  Flauta þurfti leikinn af á 88. mínútu þar sem áhorfendur hlupu ítrekað inná völlinn og öryggisverðir réðu lítið við það.  Dómari leiksins sá sér þess kost vænstan að stöðva þessa vitleysu og lokamínúturnar voru ekki spilaðar.

Joe Gomez spilaði allan leikinn þegar U-21 árs lið Englendinga vann góðan 4-0 sigur á Dönum á mánudagskvöldið og fyrr um daginn kom Trent Alexander-Arnold inná sem varamaður þegar U-19 ára lið Englendinga sigruðu Hvíta-Rússland 5-1.

Á þriðjudagskvöldið leiddi Ragnar Klavan Eistland til sigurs 3-0 á Króatíu í Eistlandi en um vináttuleik var að ræða.  Simon Mignolet spilaði allan leikinn í marki Belga sem gerðu 3-3 jafntefli við Rússa sömuleiðis í vináttuleik og var þriðja mark Rússa og jafnframt jöfnunarmark þeirra seint í leiknum að einhverju leyti Mignolet að kenna.

Í Amsterdam spilaði Gini Wijnaldum í 77 mínútur þegar Hollendingar töpuðu 1-2 fyrir Ítalíu.

Brasilíumenn tryggðu sér þátttökurétt á HM í Rússlandi næsta sumar fyrstir liða en þeir sigruðu Paragvæ 3-0 á heimavelli.  Leikurinn fór fram um miðja nótt að evrópskum tíma.  Coutinho skoraði fyrsta mark leiksins með góðu skoti fyrir utan vítateig.  Coutinho fór af velli þegar þrjár mínútur voru eftir ásamt Roberto Firmino og þeir félagar fóru svo beint í einkaflugvél sem félagið útvegaði til að koma þeim sem fyrst aftur til Englands.

Þegar allir liðsmenn Jurgen Klopp eru komnir til baka á Melwood hefst svo undirbúningur fyrir stórleikinn við Everton í hádeginu á laugardaginn kemur.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan