| Heimir Eyvindarson

Pulis álögin á bak og burt

Liverpool vann góðan 0-1 sigur á WBA á The Hawthorns í gær. Þetta var í fyrsta sinn sem Liverpool sigrar lið undir stjórn Tony Pulis á hans heimavelli í Úrvalsdeild.

Leikurinn var ekki mikið fyrir augað og í rauninni alveg drepleiðinlegur lengst af. Það var nokkuð hátt tempó alveg í byrjun og heimamenn voru kannski heldur sterkara liðið á fyrstu mínútunum. Smá óöryggi aftast hjá Liverpool, eins og stundum áður og liðið virkaði ekki alveg tilbúið í leikinn. Eftir c.a. korter kom fyrsta færi Liverpool en þá sendi Coutinho góðan bolta á Firmino sem smellti boltanum rétt framhjá með vinstri.

Eftir þetta gerðist eiginlega ekkert merkilegt í leiknum þar til á loka andartökum hálfleiksins að Liverpool fékk aukaspyrnu úti á hægri kanti. Milner sendi boltann inn að teig þar sem Lucas skallaði hann aftur fyrir sig í átt að fjærstöng. Þar kom Firmino á fljúgandi siglingu framhjá varnarlurkum WBA og skallaði boltann í netið framhjá varnarlausum Foster. Glæsilega gert!

Tony Pulis var gargandi ósáttur við markið þar sem hann taldi Firmino hafa haldið Dawson í teignum, en okkur er drullusama. Endursýningin sýndi svo sem að Pulis hafði hugsanlega eitthvað til síns máls, en mark er mark og þetta var svo sannarlega sætt. Staðan 0-1 í hálfleik.

Liverpool var miklu betra liðið á vellinum á fyrstu 20-25 mínútunum í seinni hálfleik og hefði getað klárað leikinn á þeim tíma, en eins og stundum áður gekk rófan ekki alveg. Besta færi okkar manna kom á 57. mínútu þegar gullfalleg sókn endaði með frábærri sendingu Firmino á Milner sem kom á mikilli ferð inn í teiginn og reyndi að stýra boltanum innanfótar framhjá Foster, en sópaði honum yfir. Virkilega flott sókn og synd að Milner skyldi ekki ná að skora. Hefði getað orðið eitt af mörkum tímabilsins.

Upp úr 70. mínútu fór WBA að komast meira inn í leikinn og síðustu 10 mínúturnar eða svo voru ansi taugatrekkjandi. Við getum þakkað Simon Mignolet fyrir að heimamenn náðu ekki að jafna, þegar Matt Phillips komst einn í gegn undir lok leiksins. Belginn kom frábærlega út og varði með fótunum, Peter Schmeichel style. Mignolet búinn að eiga nokkur gríðarlega góð móment í undanförnum leikjum. Guð láti gott á vita.

Uppbótartíminn var fjórar mínútur og var eiginlega hálfgerður sirkus. Ben Foster kom hvað eftir annað fram í sóknina og lenti í töluverðum vandræðum. Alberto Moreno, sem kom inná sem varamaður undir lokin, hefði getað gert út um leikinn þegar hann vann boltann á miðjum vallarhelmingi Liverpool með Foster töluvert fyrir aftan sig en Spánverjinn ákvað að láta vaða á opið markið, sem var líklega það óskynsamlegasta í stöðunni. Sjálfsagt voru fáir fegnari en Moreno þegar lokaflautið gall. Hann hefði heldur betur fengið að heyra það ef WBA hefði náð að jafna eftir þessi ósköp.

Lokatölur á The Hawthorns 0-1 og fyrsta tap Tony Pulis fyrir Liverpool á sínum heimavelli í Úrvalsdeild staðreynd. Ekki nóg með það heldur náði Liverpool fullu húsi gegn WBA á þessari leiktíð, sem er í senn óvenjulegt og sætt.

Þetta var enginn stórleikur hjá Liverpool, en engu að síður ótrúlega sætur sigur. Það þarf líka að vinna ljótu og leiðinlegu leikina.

WBA: Foster, Dawson, McAuley, Evans, Brunt, Fletcher, Livermore, Yacob (McClean á 64. mín.), Chadli (Morrison á 61. mín.), Robson-Kanu (Rondon á 64. mín.), Phillips. Ónotaðir varamenn: Myhill. Field, Nyom.

Gul spjöld: Robson-Kanu, Evans, Brunt.

Liverpool
: Mignolet, Clyne, Matip, Lovren, Milner, Lucas, Can, Wijnaldum, Coutinho (Moreno á 90. mín.), Firmino, Origi (Sturridge á 82. mín.). Ónotaðir varamenn: Karius, Alexander-Arnold, Grujic, Gomez.

Mark Liverpool: Firmino á 45. mín.

Gult spjald: Lucas Leiva.

Áhorfendur á The Hawthorns: 25.669.

Maður leiksins: Mér fannst Firmino bestur í dag. Hann skoraði markið sem skildi liðin að og átti frábæra sendingu á Milner í seinni hálfleik, sem hefði með réttu átt að verða gullin stoðsending. Vinnusemi Firmino var líka alveg frábær, hann barðist eins og ljón út um allan völl og var ekki síður mikilvægur varnarlega en sóknarlega. Frábær dagur hjá Brassanum. Mignolet var líka frábær. Hann steig vart feilspor allan leikinn og bjargaði deginum undir lokin þegar hann varði frá Phillips.

Jurgen Klopp: ,,Þetta var mjög mikilvægur sigur. Það hefur ekki gengið nægilega vel hjá okkur að undanförnu að halda einbeitingu allan tímann en nú tókst það. Ég er mjög ánægður með það. Mér fannst líka mjög jákvætt að seinni hálfleikurinn hjá okkur var betri en sá fyrri, það gerist ekki oft. Við vorum aðeins staðir á köflum í fyrri hálfleik en mér fannst við vera betur skipulagðir og ákveðnari í seinni hálfleik. Nú erum við komnir með 66 stig, sem er góð tala. Eftir næsta leik ætlum við að vera komnir með 69 stig og svo framvegis." 

Fróðleikur:

-Frá því að Tony Pulis kom fyrst með lið í Úrvalsdeild leiktíðina 2008-2009 hefur hann haft merkilega gott tak á Liverpool. Eins og fram hefur komið var þetta fyrsti sigur Liverpool á liði undir stjórn Tony Pulis á hans eigin heimavelli á þessum 9 árum. Liverpool hefur þurft að þola fimm jafntefli og þrjú töp, meira og minna gallsúr. Þar til í gær. Húrra fyrir því, vonandi er Pulis grýlan úr sögunni.

-Það hefur gengið örlítið betur gegn Pulis á Anfield, en það má þó ekki miklu muna. Ef allt er talið var sigurinn í gær sá fimmti í 16 leikjum gegn liðum undir stjórn Pulis í Úrvalsdeild. Sigurinn á Anfield í október var sá fyrsti síðan 2011.

-Í október 2011 tókst Liverpool reyndar að vinna Stoke, undir stjórn Pulis, á útivelli með tveimur mörkum frá Luis Suarez, en sá leikur var í deildabikarnum. 

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan