| Grétar Magnússon

Fréttir af lánsmönnum

Það er kominn tími til að fara yfir gengi lánsmanna félagsins um nýliðna helgi.

Taiwo Awoniyi skoraði mikilvægt sigurmark fyrir NEC Nijmegen í 2-1 sigri á AZ Alkmaar í hollensku deildinni en liðið er í harði fallbaráttu.  Awoniyi kom inná í stöðunni 1-1 þegar aðeins voru sjö mínútur eftir af leiknum og skömmu síðar skallaði hann boltann í markið og kom sínum mönnum í 2-1.  Markinu var gríðarlega vel fagnað og fékk Awoniyi að líta gula spjaldið fyrir að fara úr treyjunni við fögnuðinn en honum var væntanlega slétt sama um það spjald.  NEC eru í næst neðsta sæti deildarinnar með 31 stig, jafnmörg og Sparta Rotterdam sem eru í sætinu fyrir ofan.  Næst neðsta sæti deildarinnar þýðir að liðið fer í umspil um að halda sæti sínu í deildinni en liðið á enn möguleika á því að klífa ofar í töflunni þegar þrír leikir eru eftir.

Í sömu deild hlaut Pedro Chirivella þau leiðinlegu örlög að falla úr deildinni með Go Ahead Eagles er liðið tapaði 4-0 fyrir Ajax.  Spánverjinn spilaði allan leikinn og átti víst ekki mjög góðan leik frekar en samherjar sínir, sem misstu mann af velli um miðjan seinni hálfleikinn.

Í næst efstu deild Englands fór lokaumferð deildarinnar fram um helgina.  Markvörðurinn Danny Ward var sem fyrr í byrjunarliði Huddersfield sem töpuðu 3-0 fyrir Cardiff City og fékk Ward að líta rauða spjaldið eftir aðeins 20 mínútur.  Hann handlék boltann utan vítateigs og rændi þar með leikmann Cardiff upplögðu marktækifæri og því var lítið annað að gera fyrir dómarann en að lyfta rauða spjaldinu.  Spjaldið þýðir að Ward fer í eins leiks bann og missir af fyrri leik Huddersfield gegn Sheffield Wednesday í umspili um laust sæti í Úrvalsdeildinni.  Huddersfield endaði í 5. sæti deildarinnar með jafn mörg stig og Wednesday og það verður væntanlega hart barist í umspilsleikjunum.

Ryan Kent spilaði í 74 mínútur með Barnsley í sömu deild er liðið tapaði 3-0 fyrir Rafa Benítez og félögum í Newcastle sem tryggðu sér þar með deildarmeistaratitilinn.  Barnsley endaði í 14. sæti deildarinnar og Kent ætti að vera ánægður með framlag sitt á tímabilinu en hann skoraði þrjú mörk og átti jafnmargar stoðsendingar.

Í efstu utandeild Englands, National League, kom Jack Dunn lítillega við sögu í umspilsleikjum Tranmere Rovers við Aldershot.  Í fyrri leiknum kom hann inná sem varamaður undir lok leiks í 3-0 sigri og var svo ónotaður varamaður í seinni leiknum sem endaði 2-2.  Tranmere mætir Forest Green Rovers í hreinum úrslitaleik um hvort liðið fer upp í League Two á næsta tímabili.

Í League One deildinni spilaði Cameron Brannagan í tveimur umspilsleikjum með Fleetwood Town þegar liðið mætti Bradford City.  Hann sat á varamannabekknum í fyrri leiknum sem tapaðist 1-0 og spilaði síðustu 20 mínútur seinni leiksins þegar liðinu tókst ekki að snúa við taflinu og leikurinn endaði með markalausu jafntefli.  Það er því ljóst að Fleetwood, sem enduðu í fjórða sæti deildarinnar, eiga ekki möguleika á því að komast upp um deild þetta tímabilið.  Brannagan spilaði alls 13 leiki fyrir Fleetwood og náði einu sinni að leggja upp mark en þess má geta að hann var aðeins í byrjunarliðinu í fimm af 13 leikjum.

Í Úrvalsdeildinni spilaði Lazar Markovic með Hull City á heimavelli í 2-0 tapi gegn Sunderland sem þegar eru fallnir.  Markovic spilaði í 65 mínútur og átti eitt gott færi þegar skalli af stuttu færi var vel varinn.  Tapið þýddi að Hull eru nú komnir í fallsæti og barátta þeirra við Swansea heldur áfram allt til lokaleiks tímabilsins.  Þeir Mamadou Sakho og Jon Flanagan komu svo ekkert við sögu með Crystal Palace og Burnley, Sakho er meiddur eins og flestir vita og Flanagan situr sem fastast á varamannabekknum og fær fá tækifæri.

Á meginlandi Evrópu töpuðu Andre Wisdom og félagar í Red Bull Salzburg óvænt 2-1 fyrir Mattersburg og var það fyrsta tap liðsins í 18 leikjum.  Tapið þýddi að sigri í deildinni verður frestað um sinn en félagið er þó svo gott sem búið að tryggja sér titilinn og ansi mikið þarf að breytast til þess að það gerist ekki.

Í þýsku deildinni var Brasilíumaðurinn Allan Rodrigues á varamannabekknum eftir að hafa byrjað síðustu þrjá leiki fyrir Hertha Berlin.  Hann kom þó inná í seinni hálfleik í 4-1 tapi gegn RB Leipzig á heimavelli.  Hertha sitja í 6. sæti deildarinnar með 46 stig eftir 32 leiki.

Að lokum ber svo að nefna frammistöðu Brooks Lennon í bandarísku MLS deildinni en hann spilaði allan leikinn með Real Salt Lake gegn FC Dallas.  Það er skemmst frá því að segja að FC Dallas unnu 3-0.  Real Salt Lake sitja í næst neðsta sæti vesturdeildar með 8 stig eftir 10 leiki.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan