| Grétar Magnússon

Sigur á Hertha Berlin

Liverpool mætti Hertha Berlin á heimavelli síðarnefnda liðsins og unnu öruggan og flottan 0-3 sigur.

Þeir Sadio Mané og Emre Can voru í byrjunarliðinu í fyrsta sinn á undirbúningstímabilinu og nýjasti leikmaður félagsins, Andy Robertson var á bekknum.  Breytingar þurfti svo að gera á byrjunarliðinu rétt fyrir leik þegar Divock Origi meiddist lítillega aftan í læri og því tók Dominic Solanke stöðu hans í framlínunni.  Fyrir leik voru svo ýmsir viðburðir í gangi til að fagna 125 ára afmæli félaganna beggja á árinu.

Byrjunarliðið var semsagt þannig skipað:  Mignolet, Gomez, Matip, Klavan, Moreno, Can, Lallana, Wijnaldum, Mane, Coutinho og Solanke.

Varamenn: Grabara, Robertson, Lovren, Flanagan, Ejaria, Henderson, Firmino, Sturridge, Salah og Kent.

Berlínarmenn byrjuðu betur og á 10. mínútu þurfti Simon Mignolet að bregðast snögglega við þegar Vladimir Darida þrumaði að marki eftir að varnarmönnum mistókst að hreinsa almennilega frá marki.  En aðeins fimm mínútum síðar voru gestirnir komnir yfir.  Adam Lallana var með boltann rétt fyrir utan vítateiginn og sendi háa sendingu inná teiginn þar sem Solanke lyfti sér upp og skallaði boltann í fjærhornið, óverjandi fyrir Rune Jarstein í markinu.


Annað mark hefði átt að líta dagsins ljós skömmu síðar þegar Mané fékk pláss á vítateignum, hann skaut að marki með vinstri fæti en skotið fór yfir.  Liverpool hafði yfirhöndina en heimamenn fengu næsta færi þegar Ondrej Duda fékk boltann á teignum.  Hann skaut strax að marki en Joel Matip gerði vel og renndi sér fyrir skotið þegar það virtist stefna í netið.  Á 36. mínútu skaut svo Marvin Plattenhardt að marki úr aukaspyrnu en boltinn fór rétt yfir markið.

Örskömmu síðar voru gestirnir hinsvegar búnir að tvöfalda forystu sína.  Solanke gerði vel þegar hann hélt boltanum vel í vítateignum, hann renndi boltanum til Mané sem sendi áfram til Gini Wijnaldum.  Hollendingurinn var á vítateigslínunni og skaut hnitmiðuðu skoti meðfram grasinu í bláhornið.  Virkilega vel gert.

Í hálfleik gerði Jürgen Klopp fimm breytingar á liðinu, inná komu þeir Andy Robertson, Jordan Henderson, Mohamed Salah, Roberto Firmino og Daniel Sturridge í stað Moreno, Lallana, Wijnaldum, Mané og Solanke.

Líkt og í fyrri hálfleik voru heimamenn fyrstir til að ógna þegar Alexander Esswein skaut að marki en Mignolet var vel á verði.  Hinumegin átti Robertson svo fína sendingu fyrir markið en Salah náði ekki til boltans.  Um miðjan seinni hálfleikinn kom svo þriðja markið hjá gestunum.  Coutinho var með boltann á miðjum eigin vallarhelmingi, plataði nokkra mótherja og sendi svo langa sendingu innfyrir þar sem Salah var í góðu hlaupi innfyrir.  Hann var að sjálfsögðu fljótari en varnarmenn Hertha Berlin og lyfti boltanum yfir markvörðinn sem kom út á móti og í markið.  Frábær sending hjá Coutinho og afgreiðslan hjá Salah var ekki síðri.

Firmino hefði svo átt að bæta við fjórða markinu þegar Salah sendi góða sendingu inn til vinstri á vítateignum.  Firmino reyndi að lyfta boltanum yfir markvörðinn og í markið en boltinn fór yfir.  Nokkrum mínútum síðar gerði Sturridge vel á teignum og skaut að marki en skotið var varið.  Fleira markvert gerðist ekki og niðurstaðan góður 0-3 sigur.

Okkar menn mæta næst Bayern Munchen á þriðjudaginn kemur í Audi Cup.

Hér má sjá myndir úr leiknum.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan