| Grétar Magnússon

Liðin sem Liverpool getur mætt

Nú er ljóst hvaða liðum Liverpool getur mætt í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í vetur.

Dregið verður á föstudaginn kemur, þann 4. ágúst og Liverpool getur mætt eftirfarandi liðum:  Steaua Búkarest, Young Boys, Nice, Hoffenheim eða Istanbul BB.

Það má kannski segja að athyglisverðasta liðið þarna sé Nice frá Frakklandi en með þeim spilar Mario Balotelli, það kæmi svo sannarlega ekki á óvart ef okkar menn myndu dragast gegn franska liðinu sem sló út Ajax með fleiri mörkum skoruðum á útivelli eftir 2-2 jafntefli í Hollandi.

Liverpool hefur aðeins mætt Young Boys frá Sviss áður af þessum liðum en margir muna eftir leikjum liðanna í Evrópudeildinni tímabilið 2012-13 þar sem Liverpool sigruðu á útivelli 5-3 og liðin gerðu svo jafntefli á Anfield 2-2.  Á heimavelli Young Boys er gervigras og á sínum tíma var töluvert rætt um það hvernig leikmenn Liverpool myndu spjara sig á því en þegar upp var staðið kom það alls ekki að sök.

Fyrri leikirnir fara fram 16. og 17. ágúst og seinni leikirnir viku síðar, 22. og 23. ágúst.  Komist Liverpool áfram, verða þeir í pottinum þegar dregið verður í riðla 24. ágúst og fyrstu leikirnir í riðlakeppninni svo spilaðir 12. og 13. september.

Efri styrkleikaflokkur:

Sevilla, Napoli, Liverpool, CSKA Moskva, Sporting Lissabon.

Neðri styrkleikaflokkur:

Steaua Búkarest, Young Boys, Nice, Hoffenheim, Istanbul BB.






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan