| Grétar Magnússon

Landsleikir

Rennum yfir gengi leikmanna félagsins í þessum seinni hluta landsleikjahlésins en margir leikmenn léku með landsliðum sínum á sunnudag, mánudag og þriðjudag.

Á sunnudaginn lék Gini Wijnaldum með Hollendingum í 3-1 sigri á Búlgaríu í Amsterdam.

Dejan Lovren var í byrjunarliði Króatíu sem unnu tæpan 1-0 sigur á Kosovó á heimavelli, leikurinn átti að fara fram á laugardeginum en vegna gríðarlega mikillar rigningar var hann flautaður af eftir 22 mínútur.

Simon Mignolet sat svo eins og venjulega á varamannabekknum hjá Belgum sem sigruðu Grikki á útivelli 1-2.

Á mánudagskvöldið spiluðu Englendingar á heimavelli gegn Slóvakíu.  Jordan Henderson var fyrirliði enskra og Alex Oxlade-Chamberlain var einnig í byrjunarliðinu.  Oxlade-Chamberlain var skipt útaf seint í leiknum en hann þótti víst ekki eiga góðan leik, Henderson spilaði hinsvegar allan leikinn sem vannst 2-1.  Mörkin skoruðu þeir Eric Dier og Marcus Rashford og lagði Henderson upp seinna mark Englendinga.  Daniel Sturridge sat allan tímann á varamannabekknum.

Andy Robertson var í liði Skota sem sigruðu Möltu á heimavelli 2-0.

Í Stuttgart fóru Þjóðverjar illa með Norðmenn og sigruðu 6-0.  Emre Can sat á bekknum allan tímann.

Á þriðjudeginum spiluðu þeir Mohamed Salah og Sadio Mané með landsliðum sínum, Egyptalandi og Senegal og skoruðu báðir.  Egyptar mættu Úganda á heimavelli og skoraði Salah eina mark leiksins í mikilvægum sigri.  Mané skoraði seinna mark Senegal gegn Burkina Faso og kom þeim í 2-1 en tveim mínútum fyrir leikslok jöfnuðu Burkina Faso og þar við sat.

Í Evrópu hélt Ben Woodburn uppteknum hætti með landsliði Wales.  Hann kom inná sem varamaður í seinni hálfleik gegn Moldavíu og lagði upp fyrsta mark leiksins sem Robson-Kanu skoraði.  Wales bættu svo við öðru marki og unnu flottan sigur.

Dejan Lovren gat ekki hjálpað sínum mönnum gegn Tyrklandi en Króaatar töpuðu 1-0 á útivelli.  Allir þekkja stöðuna í riðli liðanna þar sem Ísland er í sama riðli og spennan er mikil.

Í Suður-Ameríku mættu Brasilíumenn Kólombíu á útivelli og þar byrjaði Roberto Firmino en Coutinho var á bekknum.  Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli og spilaði Firmino rúma klukkustund í leiknum.  Coutinho kom inná þegar 15 mínútur voru eftir.

Að lokum ber svo að nefna 3-0 sigur U-21 árs landsliðs Englendinga þar sem þeir Trent Alexander-Arnold, Joe Gomez og Sheyi Ojo voru allir í byrjunarliðinu.  Dominic Solanke kom inná sem varamaður í seinni hálfleik. Joe var fyrirliði.






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan