| Grétar Magnússon

Fyrsta viðtal van Dijk

Virgil van Dijk var opinberlega kynntur sem leikmaður Liverpool á nýársdag og hér má lesa hans fyrsta viðtal eftir komuna.

Hollendingurinn mun leika í treyju númer 4 og segist ætla að gefa allt sem hann á í hverjum leik með félaginu eftir að hafa skrifað undir langtíma samning.


Virgil, velkominn til Liverpool Football Club.

Takk kærlega fyrir.

Hvernig er tilfinningin að hafa skrifað undir samning við félagið ?

Augljóslega er tilfinningin stórkostleg.  Ég er mjög ánægður með að vera kominn hingað og get ekki beðið eftir því að byrja.

Hvers vegna er Liverpool rétta félagið fyrir þig, hvað var það sem dró þig svona að félaginu ?

Ég held það mikilvægasta hafi verið hvað félagið er stórt, menning félagsins, leikmennirnir, stjórinn og auðvitað stuðningsmennirnir sem gera þetta félag svo sérstakt.  Saga félagsins og allt í kringum það, jafnvel æfingasvæðið og allt tengt því, þetta er í raun alltsaman fullkomið og hentar mér afskaplega vel og fjölskyldu minni einnig.

Hversu mikilvægt var það að fá tækifæri að vinna með Jürgen Klopp í ákvörðun þinni ?

Allir sem eru hjá félaginu vita auðvitað hvernig hann er, hann er svo líflegur, hann getur gert leikmennina betri og gefið þeim sjálfstraust einnig.  Það passar vel við mig.  Ég held að hann geti gert mig að betri leikmanni og ég hlakka mikið til þess að vinna undir hans stjórn.

Klopp sagði í viðtali að þetta væri eitthvað sem honum finndist í raun vera allt eins og það á að vera.  Ertu sammála þeirri fullyrðingu ?

Ég hef sömu tilfinningu.  Það eru augljóslega miklir peningar í spilinu en ég get ekki stjórnað því.  Ég hef ekkert með verðmiðann að gera og í raun stjórnar því enginn.  Það er bara markaðurinn í dag.  Það eina sem ég get gert er að leggja hart að mér, gert góðu hlutina og gefið 100 prósent á hverjum degi.  Það er ákkúrat það sem ég vil gera, og ætla að gera.

Hvernig lýsir þú sjálfum þér sem varnarmanni ?

Ég tala mikið, er augljóslega nokkuð hávaxinn.  Ég vil stjórna varnarlínunni og vera með boltann einnig.  Ég vil spila boltanum út frá vörninni og mér líður vel með boltann.  Auðvitað get ég enn bætt mig og ég held að stjórinn geti hjálpað mér í þeim efnum.

Þú nefnir það að þú getir bætt þig, þú ert aðeins 26 ára og klárlega tækifæri til þess að bæta sig enn frekar.

Já vonandi.  Ég held að þetta sé rétti tíminn fyrir mig til að vera hér og bæta allskonar hluti í mínum leik.  Ég hlakka mikið til þess, það er stóra atriðið í þessu.

Þú hefur spilað tvisvar sinnum á Anfield sem leikmaður mótherja til þessa, hvernig verður tilfinningin að klæðast rauða búningnum í fyrsta skipti ?

Ég held að það verði mjög sérstakt.  Anfield er mjög sérstakur leikvangur og núna er það minn heimavöllur.  Tilhlökkunin er mikil að ganga út á völlinn, sérstaklega sem leikmaður heimaliðsins núna.  Það verður góð tilfinning, sérstaklega í kvöldleikjunum og á Evrópukvöldum.

Meistaradeildarkvöld á Anfield geta verið ansi sérstök kvöld, hversu mikið hlakkar þig til að leika í þeirri keppni ?

Mjög mikið.  Ég hef spilað áður í keppninni með Celtic og það var mjög sérstakt líka.  Andrúmsloftið og stuðningsmennirnir hjá Liverpool eru það svo sannarlega líka.  Ég hlakka í rauninni til alls.  Allt er fullkomið, leikvangurinn, æfingaaðstaðan, fólkið hjá félaginu, stuðningsmennirnir og borgin öll.  Þetta er í raun fullkominn staður fyrir mig til að vera á og eins ég nefndi áðan einnig fyrir fjölskyldu mína.

Mikið hefur verið rætt um sóknarlínu Liverpool, hversu ánægður ertu að þurfa ekki lengur að mæta þeim sem mótherji og staðinn vera með þeim í liði ?

Mjög ánægður !  Hjá Southampton sáum við þetta með okkar eigin augum (þegar liðin mættust í nóvember).  Það eru miklir hæfileikar framávið.  Ég held að liðið allt sé í raun stútfullt af hæfileikum.  Leikmennirnir hafa sýnt það nú þegar á tímabilinu.


Utanfrá séð, hversu mikið hefur þú hrifist af því starfi sem Jürgen Klopp hefur unnið hjá félaginu ?

Afskaplega mikið.  Síðan hann kom til félagsins held ég að mikið hafi áunnist fram til þessa og vonandi verður það bara betra og betra.  Vonandi get ég lagt mitt af mörkum þar líka.

Þú munt leika í treyju númer 4, er einhver sérstök ástæða fyrir því að þú tókst það númer ?

Ég spilaði í treyju númer 4 þegar ég spilaði fyrir Groningen í Hollandi og hef alltaf verið mikill aðdáandi þess númers.  Þegar ég kom til Southampton var góðvinur minn Jordy Clasie með þetta númer og ég vildi ekki taka það af honum !  Mér líkar bara við fjarkann.  Það er svo augljós tenging við treyjuna hér því Sami Hyypia var númer 4 hér og hann spilaði fyrir Willem II á sínum tíma þar sem ég var í tíu ár, þetta er því örlítið sérstakt.

Þú hefur skrifað undir langtímasamning við félagið.  Hvað vonast þú til að áorka hér á samningstímanum ?


Að vinna titla.  Allir leikmenn vilja vinna titla og með þennan leikmannahóp hér og þær framfarir sem hafa átt sér stað held ég að við séum ekki mjög langt frá því.  Auðvitað á enn eftir að ná því takmarki.  Við sjáum til hvað framtíðin ber í skauti sér.

Hvenær heldur þú að þú getir farið að keppa um sæti í byrjunarliðinu ?

Ég er tilbúinn núna.  Ég hef ekki spilað síðustu tvo leiki með Southampton en mér finnst ég tilbúinn engu að síður.  Ég hlakka til að byrja baráttuna, vera viss um að fá tækifæri og bara spila knattspyrnu.

Að lokum, til stuðningsmanna félagsins sem lesa þetta, hver eru skilaboð þín til þeirra ?

Ég mun leggja hart að mér í hverjum leik.  Ég mun gefa allt sem ég á, reyna að halda markinu hreinu og jafnframt vera ógnandi uppvið mark andstæðinganna líka.  Ég held að aðalatriðið sé að skipuleggja vörnina, halda hreinu og ég mun leggja mitt af mörkum til þess.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan