| Heimir Eyvindarson

Hvað gerist í janúar - Fer Coutinho, kemur Lemar???

Það er töluverð óvissa í kringum framtíð Coutinho hjá Liverpool, ekki í fyrsta sinn. Með hverjum deginum sem líður virðast líkurnar á því að Thomas Lemar endi í Liverpool aukast. 

Rétt eins og í byrjun leiktíðarinnar er Coutinho allt í einu kominn á meiðslalistann. Hvað hrjáir Brassann hefur ekki fengist staðfest en sá grunur læðist óneitanlega að okkar stuðningsmönnum Liverpool að fátt sé að honum annað en Barcelonaþráin.

Liverpool neitaði boði upp á 118 milljónir punda frá Barcelona í sumar og gerði Brassanum um leið ljóst að hann væri ekki að fara neitt, enda samningsbundinn Liverpool til 2022.

Guillem Ballage á Spáni segist hafa heimildir fyrir því að Barcelona ætli sér að bjóða 150 milljónir evra núna í janúar, en stjóri Barcelona hefur talað mjög varlega um Coutinho málið þannig að það er svosem ekkert víst hvað Spánverjarnir gera. Kannski halda þeir að sér höndum þar til í sumar. 

Fótboltapennar Liverpool Echo, sem eru yfirleitt frekar vel inní málum LFC, telja einna líklegast að Coutinho fari ekki til Barcelona fyrr en í sumar, en fullyrða reyndar ekkert um ástandið. Þeir segja þó að það sé alveg klárt að öll orka forráðamanna LFC fari þessa dagana í að fara yfir mál Coutinho; hvenær fer hann, hvað fáum við fyrir hann og hvað gerum við fyrir peninginn?

Í því sambandi talar Liverpool Echo um að Thomas Lemar færist nær og nær Liverpool, en hann er einn af þeim leikmönnum sem Klopp vildi fá í sumar og hefur verið orðaður við Liverpool á hverjum degi nýja ársins. Franski landsliðsmaðurinn, sem leikur með Monaco, er afar eftirsóttur, en hann hefur lýst yfir áhuga á að ganga til liðs við Liverpool. Sem er auðvitað afskaplega ánægjulegt. 

Lemar er kannski ekki beint arftaki Coutinho, en yrði örugglega mjög góð viðbót við liðið. Leikmaður sem getur spilað á báðum köntum og inni á miðri miðjunni. Þar að auki er hann aðeins 22 ára gamall, þannig að hann smellpassar inn í módelið hjá FSG og Klopp.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan