| Sf. Gutt

Hvað gerist? - Uppfært í dag og fram á kvöld!

Í kvöld verður lokað fyrir félagskipti knattspyrnumanna. Eins og vant er verður fylgst með gangi mála hér á Liverpool.is.

23:30. Þá hefur verið lokað fyrir félagaskipti þangað til í sumar. Frá í gærkvöldi voru fimm leikmenn lánaðir. Einn fór fyrir fullt og fast en enginn kom til félagsins. 



23:00. Harry Wilson var orðaður við lánsdvöl hjá Hull fyrr í dag og það gekk eftir. En áður en hann fór í burtu skrifaði hann undir nýjan samning við Liverpool.


22:45. Lazar Markovic er kominn með lánssamning. Sá kom úr frekar óvæntri átt því Serbinn mun spila með belgíska stórliðinu Anderlecht út keppnistímabilið.  


22:00. Ekki var talið útilokað að Jon Flanagan yrði lánaður. Nú hefur verið staðfest að Jon mun spila sem lánsmaður hjá Bolton Wanderes út leiktíðina.  




19:00. Lengi vel var talið að Danny Ings færi í lán en Jürgen Klopp sagði á blaðamannafundi í gærkvöldi að slíkt kæmi ekki til mála. Það yrði ekki gert nema að hann væri meðvitundarlaus á meðan!

18:30. Sami miðlinn telur að Hull City hafi áhuga á fá Harry Wilson að láni. Áður var Wigan nefnt til sögunnar. 

18:15. Liverpool Echo greinir frá því að Swansea hafi hug á því að fá Lazar Markovic í sínar raðir fyrir nóttina.  


18:00. Lítið fór fyrir brottför Cameron Brannagan en hann gekk til liðs við Oxford United fyrr í mánuðinum.


16:00. Hafi það farið framhjá einhverjum þá var Daniel Sturridge lánaður til West Bromwich Albion í gærkvöldi. 


15:00.
Liverpool Echo greinir frá því að Wigan Atheltic hafi hug á að því að fá ungliðann Harry Wilson að láni. Harry er búinn að raða inn mörkum og leggja upp mörk fyrir varalið Liverpool síðustu þrjár leiktíðir. Harry, sem hefur spilað einn leik með aðalliðinu, gæti líka hugsanlega viljað fara frá Liverpool en hann hefur ekki viljað gera nýjan samning við félagið. 


14:15.
Enn af markmönnum. Þó fáir viti það þá er Adam Bogdan ennþá hjá Liverpool. Hann fór í lán til Wigan Athletic sumarið 2016 en í nóvember varð hann fyrir hnjámeiðslum. Hann var frá í nærri því ár og er hjá Liverpool. Hann er til sölu og ekki er útilokað að hann fari frá Liverpool í dag.



14:00.
Í sambandi við markmenn þá má nefna að unglingamarkmaðurinn Ryan Fulton fór frá Liverpool síðasta sumar. Hann gekk til liðs við skoska liðið Hamilton Academical. Hann hefur leikið með yngri landsliðum Skota nú síðast undir 21. árs liðinu. Á meðan hann var hjá Liverpool fór hann í lán til Portsmouth og Chesterfield. Hann hafði verið hjá Liverpool frá því hann var 11 ára gamall. Ryan var fjórum sinnum á bekknum hjá aðalliði Liverpool á leiktíðinni 2015/16.


13:30. Lloyd Jones hefur gert samning við Luton Town. Lloyd, sem er varnarmaður, kom til Liverpool frá Plymouth Argyle árið 2011. Hann komst einu sinni á varamannabekk aðalliðsins en spilaði aldrei leik með því. Hann var varamaður þegar Liverpool vann Fulham 1:3 í London vorið 2013. Hann hefur farið á lán til Cheltenham Town, Accrington Stanley, Blackpool og Swindon Town. Lloyd er nú á braut og fer sem fyrr segir til Luton sem leikur í fjórðu efstu deild. 



13:00.
Staðfest hefur verið að ungliðinn Ovie Ejaria hafi verið lánaður til Sunderland. Hann verður þar út leiktíðina. 

7:45. Liverpool á að hafa áhuga á að kaupa nýjan markmann en ósennilegt er að sá maður bætist við liðshópinn í dag.

 
7:30. Vel gæti gerst að einhverjir af ungliðum Liverpool yfirgefi félagið í dag. Ovie Ejaria og Lloyd Jones voru nefndir í frétt Liverpool Echo í gærkvöldi. 


7:00. Hugsanlegt er að Lazar Markovic verði seldur eða lánaður. Swansea mun hafa áhuga á honum.  


Staðan í gærkvöldi!

Liverpool hefur bæði keypt og selt fyrir metfé það sem af er ársins. Philippe Coutinho var seldur fyrir 145 milljónir sterlingspunda til Barcelona og Virgil van Dijk var keyptur frá Southampton fyrir 75 milljónir punda. Í báðum tilfellum var félagsmet slegið. Daniel Sturridge var svo lánaður til West Bromwich Albion í gær. Áður fór Marko Grujic í lán til Cardiff City. Ekki er von á miklum tíðindum hjá Liverpool í dag. Jürgen Klopp hefur talað á þann veg að ekki sé útlit á viðskiptum.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan