| Grétar Magnússon

Verðlaun til Klopp og van Dijk

Jürgen Klopp var valinn stjóri desember mánaðar í ensku úrvalsdeildinni og Virgil van Dijk var leikmaður mánaðarins.



Þeir félagar tóku við verðlaununum á Melwood fyrr í dag. Liverpool vann alla sjö leiki sína í deildinni í mánuðinum og komust í toppsætið með 22 mörk skoruð og þrjú fengin á sig.

Virgil van Dijk spilaði alla þessa leiki í hjarta varnarinnar, liðið hélt hreinu í fjórum leikjum og hann skoraði einnig sitt fyrsta deildarmark fyrir Liverpool í 0-2 sigri á Úlfunum.

Klopp hafði betur gegn Nuno Espirito Santo (Úlfarnir), Manuel Pellegrini (West Ham), Mauricio Pochettino (Tottenham) og Maurizio Sarri (Chelsea) í valinu að þessu sinni.

Þeir leikmenn sem voru tilnefndir ásamt van Dijk voru Mohamed Salah, Felipe Anderson (West Ham), Eden Hazard (Chelsea), Harry Kane (Tottenham), Marcus Rashford (Manchester United) og Son Heung-min (Tottenham).

Klopp var síðast útnefndur sem stjóri mánaðarins í september árið 2016 og er þetta í fyrsta sinn í töluverðan tíma sem bæði leikmaður og stjóri Liverpool vinna titilinn í sama mánuði. Það gerðist síðast þegar Brendan Rodgers var stjóri Liverpool en þá hampaði hann verðlaununum með þeim Luis Suarez og Steven Gerrard sem báðir voru útnefndir leikmenn mars mánaðar árið 2014.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan