Í hnotskurn
Titilvörn hefst á miðju sumri með fyrsta hundadegi. Sigur hjá Evrópumeisturunum í fyrri hluta Bretlandsorrustu. Þetta er leikur Liverpool og Total Network Solutions í hnotskurn.
- Liverpool hefur aldrei fyrr í sögu félagsins hafið leiktíð eins snemma. Fyrra metið var frá 1971 og 1999. Þá hóf Liverpool keppni 7. ágúst. Liverpool bætti því gamla metið um hvorki fleiri né færri en 25 daga! Þetta er félagsmet sem vonandi verður aldrei jafnað hvað þá slegið!
- Liverpool mætti til leiks eftir að hafa unnið Evrópubikarinn í fimmta sinn. Liverpool er það með komið í þriðja sæti yfir sigursælustu félög í sögu Evrópubikarsins. Real Madrid hefur unnið bikarinn níu sinnum. AC Milan á sex sigra og svo kemur Liverpool með fimm.
- Liverpool vann Evrópubikarinn til eignar í vor. Aðeins fimm félög hafa uppfyllt þau skilyrði sem uppfylla þarf í þeim efnum. Til að svo geti orðið þarf félag að vinna bikarinn fimm sinumm alls eða þrísvar í röð. Liverpool bættist í hóp Real Madrid, AC Milan, Ajax og Bayern Munchen sem hafa uppfyllt fyrrnefnd skilyrði.
- Liverpool hóf titilvörnina aðeins 49 dögum eftir að liðið vann Evrópubikarinn í Konstantínópel í vor. Þá var sauðburði að ljúka. Nú var sláttur rétt að hefjast!
- Sex af Evrópumeisturunum frá Istanbúl hófu titilvörnina. Það voru þeir Steven Gerrard, Jamie Carragher, Steve Finnan, Sami Hyypia, Joihn Arne Riise og Xabi Alonso. Djibril Cisse bættist í hópinn þegar leið á leikinn. En þeir Jerzy Dudek, Djimi Traore, Luis Garcia, Harry Kewell, Milan Baros, Vladimir Smicer og Dietmar Hamann komu ekki við sögu í þessum fyrsta leik eftir Evrópubikarsigurinn í vor. Af varamönnum í Istanbúl voru þeir Scott Carson og Josemi til taks. Þeir Stephen Warnock, Darren Potter og Anthony Le Tallec spiluðu á leiðinni til Istánbúl þó þeir tækju ekki þátt í úrslitaleiknum. Fernando Morientes lék sinn fyrsta Evrópuleik fyrir Liverpool. Hann var ekki löglegur með Liverpool í Evrópukeppni á síðustu leiktíð þar sem hann hafði leikið Evrópuleik með Real Madrid áður en hann yfirgaf félagið.
- Það var sól og blíða þegar leikurinn hófst á Anfield Road. Heitt var í veðri enda hálfgerð hitabylgja búin að vera á Bretlandi dagana fyrir leikinn.
- Liverpool var að leika í fyrsta skipti gegn liði frá Wales í Evrópukeppni.
- Total Network Solutions var 93. liðið sem Liverpool spilar við í Evrópukeppni.
- T.N.S. kom til leiks sem tvöfaldir meistarar í Wales. Þeir unnu bæði deild og bikar á síðustu leiktíð. Liðið hefur tvívegis unnið deildarkeppnina í Wales. Sömuleiðis hefur liðið unnið bikarkeppnina þar í landi í tvígang. Þarlendan Deildarbikar hefur liðið unnið einu sinni.
- T.N.S. dró að sér mesta áhorfendafjölda á Evrópuleik á Anfield Road í 26 ár. Alls borguðu sig 44.760 inn á leikinn. Síðast mættu fleiri áhorfendur á Evrópuleik haustið 1978 þegar 51.679 áhorfendur sáu seinni rimmuna í Bretlandsorrustu Liverpool og Nottingham Forest. Þetta var sem sé mest áhorfendafjöldi á Evrópuleik á Anfield Road eftir að leikvanginum var breytt þannig að aðeins er hægt að selja miða í sæti. T.N.S.
- Evrópumeisturunum var gríðarlega vel fagnað þegar nöfn þeirra voru lesin upp fyrir leikinn. Aldrei varð þó fögnuðurinn meiri en þegar nafn Steven Gerrard var lesið upp. Heimildarmaður minn á leiknum sagði leikvanginn hafa nötrað!
- Það þurfti ekki að nota flóðljósin í fyrri hálfleik enda hásumar!
- Þeir Jose Reina og Boudewijn Zenden spiluðu í fyrsta sinn fyrir hönd Liverpool. Spænskur markvörður hefur aldrei áður staðið í marki Liverpool.
- Sami Hyypia lék sinn 44 Evrópuleik í röð fyrir Liverpool.
- Darren Potter lék sinn tíunda leik fyrir Liverpool.
- Steven Gerrard skoraði þrennu í fyrsta sinn á ferli sínum. Hann sagðist síðast hafa skorað þrennu þegar hann var strákur.
- Það var allmikill handagangur í öskjunni í leikslok þegar leikmenn velska liðsins hópuðust að leikmönnum Liverpool til að fá að skipta á peysum við þá sem sumir eru hetjur þeirra.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Warnock (Zenden 64. mín.), Potter (Cisse 76. mín.), Alonso, Gerrard, Riise, Morientes og Le Tallec. Ónotaðir varamenn: Carson, Baros, Hamann, Josemi og Whitbread.
Mörkin: Steven Gerrard (8., 21. og 89. mín.)
Áhorfendur á Anfield Road: 44.760.
Maður leiksins samkvæmt Liverpool.is: Steven Gerrard. Það var auðvelt að velja mann leiksins eftir þennan leik. Eftir mikið hugarangur ákvað Steven að vera áfram hjá Liverpool. Hann sýndi og sannaði í þessum leik að skarð hans hefði verið vanfyllt hefði hann ekki hætt við að fara frá Liverpool. Steven var yfirburðamaður á vellinum og skoraði þrjú falleg mörk. Þetta var fyrsta þrenna hans fyrir Liverpool.
Jákvætt :-) Stuðningsmenn Liverpool tóku vel á móti hetjunum sínum og troðfylltu Musterið. Sannkölluð hátíðarstemmning ríkti fyrir leik og á meðan á honum stóð. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu Steven Gerrard gríðarlega vel fyrir leikinn. Steven þakkaði fyrir sig með stórleik og þremur mörkum!
Neikvætt :-( Mér hefði það þótt viðeigandi að leikmenn Liverpool hefðu sýnt hinum dyggu stuðningsmönnum sínum Evrópubikarinn fyrir leikinn. Maður hefði viljað fá nokkur mörk í viðbót.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool byrjaði af krafti og yfirburðir liðsins voru algerir frá því dómarinn flautaði til leiks og þar til hann flautaði til leiksloka. Steven Gerrard kom Liverpool yfir eftir átta mínútur. Hann skoraði þá með hnitmiðuðu skoti úr teignum eftir góðan samleik og snjalla sendingu frá Fernando Morientes. Steven bætti öðru marki við á 21. mínútu. Hann komst þá einn í gegnum vörn velsku meistaranna og lyfti boltanum snyrtilega yfir markvörð þeirra. Allt stefndi í stórsigur Liverpool en markvörður velsku meistaranna fór á kostum og varði vel frá þeim Steven Gerrard, Fernando Morientes, Steve Finnan og Anthony Le Tallec fyrir leikhlé. Jose Reina þurfi að verja eitt skot og var það eina marktilraun velska liðsins í leiknum.
Leikmenn Liverpool tóku lífinu með ró í síðari hálfleik og Veilsverjarnir efldust. Vissulega átti Liverpool færi til að skora fleiri mörk en Fernando Morientes gekk illa upp við markið. Hollendingurinn Boudewijn Zenden kom inn í sínum fyrsta leik með Liverpool og lék á vinstri kantinum. En það var ekki fyrr en Frakkinn Djibril Cisse kom inn á að líf færðist í leik Liverpool á nýjan leik. Hann olli miklum usla í vörn T.N.S. Steven Gerrard fullkomnaði svo fyrstu þrennu sína mínútu fyrir leikslok. Hann skoraði þá með föstu langskoti neðst í bláhornið fyrir framan The Kop. Sigurinn var gulltryggður með þessu marki en hann var ekki eins stór og flestir áttu von á. Hann ætti þó að duga til frekara áframhalds á leiðinni til Parísar!
-
| Sf. Gutt
Vopnahlésdagurinn -
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu