Í hnotskurn
Furðulegur útileikur. En öruggt áframhald úr Bretlandsorrustunni. Þetta er leikur Liverpool og Total Network Solutions í hnotskurn.
- Liverpool fór í fyrsta skipti til Wales til að spila Evrópuleik.
- Liverpool hefur þá heimsótt alla hluta Stóra Bretlands, Skotland, Norður Írland og Wales, á Evrópuferðum sínum. Liðið hefur líka heimsótt írska lýðveldið en það er ekki stjórnarlega hluti Stóra Bretlands.
- Þetta ferðalag er hið stysta sem Liverpool hefur lagt í frá því liðið fór í sitt fyrsta Evrópuferðalag til Reykjavíkur sumarið 1964. Á björtum degi, sé klifrað upp í hæstu byggingar borgarinnar, má til dæmis sjá til Wales frá Liverpool!
- Það eru aðeins 40.2 mílur milli Liverpool og Wrexham.
- En þótt ferðalagið væri stutt þá komu leikmenn Liverpool um langan veg. Þeir komu alla leið frá Sviss þar sem liðið var búið að vera í æfingabúðum!
- Liverpool spilaði sinn annan leik á Racecourse Ground í Wrexham á leiktíðinni. Liverpool spilaði fyrsta æfingaleikinn á leiktíðinni þar tíu dögum áður. Þá vannst 4:3 sigur á heimamönnum.
- Einhverjir leikmenn Liverpool eiga eftir að fá miklu meiri reynslu af Racecourse Ground á leiktíðinni því varalið félagsins mun spila heimaleiki sína þar eins og á síðustu leiktíð.
- Fyrir þann leik sýndu þeir Steven Gerrard og Jamie Carragher Evrópubikarinn. Það olli sumum stuðningsmönnum Liverpool vonbrigðum að bikarinn góði skyldi ekki vera sýndur fyrir fyrri leikinn við T.N.S. á Anfield Road. Rick Parry sagði að vegna virðingu við andstæðngana hefði bikarinn ekki verið sýndur. Víst eru það rök en ég átta mig samt ekki á þeim!
- Fyrir fyrrnefndan vináttuleik sýndu leikmenn Wrexham neðrideildarbikarinn sem liðið vann á síðustu leiktíð.
- Reyndir stuðningsmenn Liverpool höfðu ekki upplifað annan eins útileik í Evrópukeppni. Astæðan var sú að það voru miklu fleiri stuðningsmenn Liverpool á Racecourse Ground!
- Um níu þúsund áhorfendum var hleypt inn á völlin. Hann tekur fleiri áhorfendur en ekki má selja í stæði í Evrópuleiki. Einn stuðningsmanna Liverpool sagðist halda að um 500 stuðningsmenn T.N.S. hefðu verið á leiknum. Afgangurinn af þeim átta þúsund áhorfendum sem borguðu sig inn hafa þá verið stuðningsmenn Liverpool!
- Þó að stuðningsmenn T.N.S. hafi ekki verið nema í kringum 500 þá er það samt gott hlutfall af íbúafjöldanum í Llansantffraid-ym-Mechain þaðan sem T.N.S. kemur. Það búa aðeins um eitt þúsund manns í þorpinu!
- En líklega er þetta í fyrsta skipti sem stuðningsmenn Liverpool hafa verið í meirihluta á útileik!
- Mark Lloyd Williams sóknarmaður T.N.S. skoraði 34 mörk á síðustu leiktíð. Hann skoraði flest mörk allra sóknarmanna í Evrópu. Þeir Thierry Henry og Diego Forlan deildu samt Gullskónum þó þeir skoruðu níu mörkum færra en Mark. Knattspyrnusamband Evrópu bjó til, fyrir nokkrum árum, reglur um hvernig mörk í hinum ýmsu deildum í Evrópu eru talin. Mörkin gilda sem sagt ekki jafnt. Mörk í sterkari deildum Evrópu gilda meira en í hinum veikari. Ég hélt nú bara að væri mark. En það er ekki að spyrja að útreikningum þeirra í Knattspyrnusambandi Evrópu.
- Fyrrnefndur Mark er mikill markaskorari og er nú orðinn markahæsti maður í sögu velsku deildarkeppninnar.
- John Lawless leikmaður T.N.S. er mikill stuðningsmaður Liverpool. Hann ber húðflúrað félagsmerki Liverpool á sér. Ekki nóg með það. Hann fór til Miklagarðs til að styðja sína menn gegn A.C. Milan. Ekki nóg með það. Í LFC, vikuriti Liverpool, er mynd af honum með Evrópubikarinn sem hann lét taka af sér í safninu á Anfield Road. Hann er reyndar í búningi T.N.S. á myndinni! Ég er viss um að hann hefur líka látið taka mynd af sér í búningi Liverpool!
- Jamie Carragher leiddi Liverpool til leiks sem fyrirliði. Sami Hyypia tók við fyrirliðabandinu þegar Jamie fór af leikvelli og bar það til leiksloka þrátt fyrir innkomu Steven Gerrard.
- Sami Hyypia lék sinn 45. Evrópuleik í röð fyrir Liverpool. Hann hefur spilað hverja einustu mínútu í þessum leikjum.
- Zak Whitbread lék sinn fimmta leik fyrir Liverpool þegar hann kom inn sem varamaður fyrir Jamie Carragher.
- Þeir Jerzy Dudek og Milan Baros voru ekki í hópnum sem valinn var til fararinnar til Wales. Hvað þýðir það?
- Fyrsta mark leiksins, sem Djibril Cisse skoraði, var 450. Evrópumark sem Liverpool skorar.
- Steven Gerrard skoraði tvö mörk í leiknum. Hann er þá búinn að skora 14 Evrópumörk og er kominn í fimmta sætri yfir þá leikmenn sem hafa skorað flest mörk í Evrópukeppnum fyrir Liverpool. Vinur hans Michael Owen hefur skorað flest eða 22.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Riise, Cisse, Le Tallec (Garcia 58. mín.), Alonso (Gerrard 67. mín.), Hamann, Carragher (Whitbread 53. mín.), Zenden og Potter. Ónotaðir varamenn: Carson, Josemi, Warnock og Morientes.
Mörkin: Djibril Cisse (26. mín) og Steven Gerrard (85. og 86. mín.).
Áhorfendur á Racecourse Ground: 8.009.
Maður leiksins samkvæmt Liverpool.is: Steven Gerrard. Í þessari seinni Bretlandsorrustu Liverpool og T.N.S. sýndi Steven enn og aftur hversu öflugur leikmaður hann er. Hann kom ekki til leiks fyrr en nokkuð var liðið á síðari hálfleikinn. En hann setti mark sitt á leikinn með því að skora tvö mörk. Það sem meira var mörkin komu á tveimur mínútum. Það er ekki oft sem menn skora tvö mörk á tveimur mínútum í Evrópuleik.
Jákvætt :-) Liverpool vann öruggan sigur og er komið í aðra umferð forkeppninnar. Það var skemmtilegt að bæta Wales í safn þeirra landa sem Liverpool hefur heimsótt á Evrópuferðalögum sínum. Zak Whitbread fékk tækifæri. Hann stóð sig vel í leiknum og það er ljóst að hann getur staðið fyrir sínu í aðalliðinu.
Neikvætt :-( Ekki nema það að persónulega þá finnst mér að Milan Baros eigi að fá að spila. En svona leikur eins og leikinn er með hann þessa dagana er víst, hvort sem manni líkar betur eða verr, hluti af nútímaknattspyrnu.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool mætti mikilli mótspyrnu og Veilsverjarnir stóðu sig með sóma. Liverpool átti nokkur góð færi áður en Djibril Cisse kom Liverpool yfir á 26. mínútu. Varnarmaður missti af fyrirgjöf John Arne Riise og boltinn barst til Djibril sem skoraði af öryggi. Anthony Le Tallec var næstum búinn að skora fyrir leikhlé en skoti hans var bjargað á línu.
Liverpool fékk vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik þegar brotið var á Darren Potter. Dietmar Hamann tók vítaspyrnuna en Ged Doherty varði lausa spyrnu Þjóðverjans all örugglega. T.N.S. náði næstum að skora sitt fyrsta Evrópumark sitt en gott skot frá Steven Beck hafnaði í stöng. Litlu síðar skipti Rafael Steven Gerrard inn á. Hann fór á kostum og skoraði tvö mörk á tveimur mínútum undir lok leiksins. Fyrst skoraði hann með föstu langskoti á 85. mínútu eftir að hafa snúið varnarmann T.N.S. af sér með frábærri gabbhreyfingu. Mínútu síðar skoraði hann aftur með skoti rétt innan vítateigs eftir snilldarsendingu Luis Garcia. Öruggur sigur Evrópumeistaranna var í höfn og áframhald í aðra umferð forkeppninnar gulltryggt.
-
| Sf. Gutt
Vopnahlésdagurinn -
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu