| Sf. Gutt

Áframhald tryggt

Evrópumeistararnir gulltryggðu sæti sitt í þriðju umferð forkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld með því að leggja Kaunas að velli 2:0 á Anfield Road. Liverpool vann samtals 5:1 og leikur gegn CSKA Sofia í þriðju umferð forkeppninnar. Rafael Benítes breytti liðinu talsvert frá því í síðustu viku. Alls voru átta breytingar gerðar á byrjunarliðinu.  Þeir Peter Crouch og Mohamed Sissoko spiluðu í fyrsta sinn með Liverpool á Anfield Road. Peter leiddi sóknina með Fernando Morientes. Zak Whitbread fékk tækifæri í stöðu miðvarðar og lék við hlið Sami Hyypia sem var fyrirliði. Scott Carson stóð í markinu og Jose Reina sat á bekknum. Máttarstólparnir Steven Gerrard og Jamie Carragher sátu á bekknum í upphafi leiksins. Eins og í leikjum sumarsins þá sat Milan Baros og horfði á félaga sína. 

Liverpool hafði mikla yfirburði frá upphafi til loka leiksins. Litháarnir, undir stjórn nýs þjálfara, börðust vel og stóðu fyrir sínu. En leikmenn Liverpool tóku lífinu með ró og aðeins eitt gott færi skapaðist í fyrri hálfleik. Fernando Morientes átti þá skalla sem markvörður gestanna varði vel. Scott Carson þurfti einu sinni að verja þegar hann varði aukaspyrnu sem stefndi á markið.

Heldur lifnaði yfir leikmönnum Liverpool í síðari hálfleik. Djibril Cisse, sem skipti við Fernando í hálfleik, færði meira líf í sóknina. Spánverjinn náði sér ekki á strik frekar en í öðrum leikjum sumarsins. Peter Crouch varð að yfirgefa leikvöllinn snemma í síðari hálfleik eftir að hafa tognað. Ekki er vitað um hversu alvarleg meiðslin eru. En færi fóru að skapast uppi við mark Kaunas. Næst komst Sami Hyypia því að brjóta ísinn en bylmingsskalli hans fór í þverslá og niður. En það færðist fyrst verulegt líf í leik Liverpool þegar Steven Gerrard kom til leiks á 75. mínútu eftir að hafa skipt við Dietmar Hanmann. Með fyrstu snertingu sinni átti hann bylmingsskot sem varnarmaður stöðvaði. Næst átti hann frábæra stungusendingu á Djibril Cisse sem komst í færi sem marvörðurinn bjargaði vel. Því næst skoraði hann. Allt þetta gerði Steven á aðeins tveimur mínútum! Markið skoraði hann með skoti á nærstöng sem hann tók á móts við vinstra vítateigshornið. Markvörður Kaunas náði ekki að stoppa boltann sem rúllaði hægt og rólega yfir marklínuna fyrir framan The Kop. Þetta var sjöunda mark fyrirliðans á leiktíðinni. Djibril Cisse gulltryggði svo sigurinn fjórum mínútum fyrir leikslok þegar hann skoraði af öryggi úr vítateignum eftir frábæra sendingu frá Luis Garcia. Stuðningsmenn Liverpool máttu vera sáttir þó þeir hafi ef til vill viljað sjá fleiri mörk. Önnur hindrum Evrópumeistaranna á sumrinu var yfirstigin og í næstu viku er komið að þeirri þriðju. 

Liverpool: Carson, Finnan, Hyypia, Whitbread, Warnock, Luis Garcia, Hamann (Gerrard 75. mín.), Sissoko, Zenden, Crouch (Potter 55. mín.), Morientes (Cisse 45. mín.). Ónotaðir varamenn: Reina, Riise, Alonso og Carragher.

Mörkin:  Liverpool, Steven Gerrard, (77. mín.) og Djibril Cisse (86. mín.).

Áhorfendur á Anfield Road: 43.717.

Rafael Benítez var sáttur með niðurstöðu kvöldsins. ,,Þetta var erfiður leikur til að byrja með því þeir lögðu hart að sér og gáfu okkur lítið svigrúm. En við vorum miklu betri í síðari hálfleik og erum komnir áfram í næstu umferð. Steven Gerrard er að skora mikið af mörkum fyrir okkur. Ég vildi láta hann spila svo stuðningsmennirnir gætu séð hann. Ég vona að hann haldi áfram að skora miklu meira fyrir okkur. Mér fannst Momo Sissoku einn af bestu mönnum vallarins. Hann var duglegur, vann tæklingar og spilaði einfalt. Ég er ánægður með hann."


 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan