| Sf. Gutt

Hverjir eiga að leiða sóknina?

Það er um fátt meira fjallað í fjölmiðlum en það hversu leikmönnum Liverpool hefur gengið treglega að skora á undanförnum vikum. En hvaða leikmenn eiga að leiða sóknina? Svarið er einfalt. Að minnsta kosti ber tveimur vefkönnunum, sem nú eru í gangi, saman um hvaða menn eigi að vera í fremstu víglínu.

Á forsíðu Liverpool.is er nú könnun þar sem spurt er um hvaða menn lesendur vilji að leiði sókn Liverpool. Könnun sama efnis er á forsíðu vefútgáfu staðarblaðanna í Liverpool. Á báðum vefsíðunum eru nokkrir möguleikar settir fram og stuðningsmenn Liverpool, og aðrir lesendur, geta valið á milli manna. Nú, þegar þetta er skrifað, fer ekkert á milli mála hvað menn stuðningsmenn Liverpool myndu velja í sóknina hjá Liverpool. Hinir útvöldu eru þeir Robbie Fowler og Djibril Cissé

Frá því Robbie kom til Liverpool hefur hann aldrei leikið í sókninni með Djibril. Frakkinn hefur reyndar sjaldan verið valinn til þess að vera í sókninni á þessu ári. Hafi hann verið valinn þá hefur hann verið settur úr á hægri vænginn og þar hefur hann ekki leikið vel enda er hann ekki útherji. Reyndar verður það að teljast mjög undarlegt að Djibril skuli aldrei fá að leika í sókninni núorðið því hann hefur nú skorað 12 mörk og er næst markahæsti maður liðsins. Hann hefur reyndar ekki skorað á árinu en honum hefur heldur aldrei verið teflt fram í sókninni.

Robbie er búinn að leika átta leiki og hefur enn ekki skorað mark. Að minnsta kosti ekki löglegt mark. Þrjú mörk hafa verið dæmd af honum og hafa tvö þeirra líklega átt að dæmast góð og gild. En Robbie er samt búinn að leika nokkuð vel og það ætti bara að vera spurning um tíma hvenær hann skorar sitt fyrsta mark. Það verður spennandi að sjá hverjum Rafael Benítez stillir upp í kvöld þegar Fulham kemur í heimsókn. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan