| Grétar Magnússon

Ætlar að ná því besta út úr Henderson

Brendan Rodgers hrósaði nýlega Jordan Henderson í hástert og ætlar að einsetja sér það að ná því besta út úr leikmanninum.

Henderson, sem er 22 ára, var þónokkuð gagnrýndur fyrir sitt fyrsta tímabil hjá félaginu en hann var keyptur frá Sunderland á 16 milljónir punda síðastliðið sumar.

Rodgers var hinsvegar alltaf handviss um að það tæki tíma fyrir Henderson að aðlagast og er sannfærður um að hann muni verða farsæll leikmaður hjá félaginu.

,,Ég lít á þennan unga mann Jordan Henderson sem fékk á sig gagnrýni á síðasta ári en vitiði hvað, hann var aðeins 21 árs gamall," sagði Rodgers.

,,Ég hugsaði fyrst þegar ég sá hann hjá Sunderland að þetta væri drengur sem myndi verða mjög góður leikmaður.  Hann kemur síðan hingað fyrir mikinn pening, kemur til risastórs félags með mjög miklar væntingar á bakinu.  Hann flyst að heiman, hann er einn og óstuddur og þarf að sigra heiminn á fyrsta tímabili.  Það var aldrei að fara að gerast."

,,En hann kann að spila fótbolta.  Ef hann er í ákveðnu kerfi - í umhverfi þar sem hann fær hjálp og nær að mennta sig í fræðum leiksins - þá munum við sjá góðan leikmann."

Henderson skoraði tvö mörk í 48 leikjum á síðasta tímabili, hann er ennþá ókominn til æfinga hjá félaginu eftir að hafa fengið lengra frí vegna þess að hann var í landsliðshópi Englendinga á EM.  Hann mun hinsvegar koma til liðs við Rodgers og félaga í Boston þann 23. júlí.

Rodgers hlakkar til að vinna með honum eftir að hafa fengið að heyra og sjá aðra hrósa Henderson mikið.

,,Það besta sem ég hef heyrt um Henderson er gríðarlega gott viðhorf hans.  Hann er klárlega með hausinn í góðu lagi," sagði hann.  ,,Ef maður er með svona leikmann með hæfileikana og þorstann til að læra - hann getur hlaupið allan daginn, hann er líkamlega vel á sig kominn, hann er sterkur, hann er snöggur - og það er hægt að móta hann.  Þegar upp er staðið er hægt að vera með leikmann í höndunum sem endurspeglar þá fjárfestingu sem sett var í hann."

,,En vissulega var síðasta ár erfitt fyrir hann.  Ég er með nokkra slíka leikmenn, sem vonandi geta hreinsað það út svo hægt sé að ná því besta út úr þeim."

Rodgers segir að allir leikmennirnir í hópnum fái tækifæri til að sýna hvað þeir geti á undirbúningstímabilinu, þar með talinn Joe Cole sem var á láni hjá Lille á síðustu leiktíð.

,,Ég hef unnið með Joe áður.  Ég þekki styrkleika hans, ég veit hvað hann getur," sagði Rodgers.

,,Þegar hann kom hingað fyrst átti hann í erfiðleikum.  Hann var rekinn útaf í fyrsta leik, hann meiddist og staðan var alltaf hálf slæm fyrir hann."

,,En ég mun skoða alla leikmenn sem eru hér og meta þá."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan