| Sf. Gutt

Florian Wirtz keyptur fyrir metfé!

Florian Wirtz er búinn að semja við Liverpool. Þýski landsliðsmaðurinn kemur frá þýska liðinu Bayer Leverkusen. Liverpool borgar 100 milljónir sterlingspunda fyrir Florian. Við bætast svo 16 milljónir að uppfylltum ákvæðum í samningnum. Þegar og ef ákvæðin hafa tekið gildi verður Þjóðverjinn dýrasti leikmaður sem enskt félag hefur keypt frá upphafi vega!

Florian leikur jafnan sem framliggjandi miðjumaður og getur líka spilað úti á kanti. Hann er eldfljótur, áræðinn og býr yfir mikilli knatttækni. Þjóðverjinn hefur verið einn eftirsóttasti leikmaður í heimi síðustu tvö árin eða svo.

Florian Wirtz er fæddur 3. maí 2003 í Pulheim í Þýsklandi. Hann æfði með Köln frá 2010 en gekk til liðs við Bayer Leverkusen í janúar 2020. Hann þótti þá eitt mesta efni sem hafði lengi komið fram í Þýskalandi. Forráðamenn Köln voru mjög ósáttir við að hann skyldi fara því þeir stóðu í þeirri meiningu að hann ætlaði ekki frá félaginu

Florian vann sér fljótlega sæti í aðalliði Bayer Leverkusen. Hann var lykilmaður í hinu ósigrandi liði Bayer sem vann Tvennu í Þýskalandi á leiktíðinni 2023/24 og var valinn besti leikmaður deildarinnar. Hann vann líka Stórbikar Þýskalands í fyrra. Florian var valinn í lið deildarinnar fyrir leiktíðarinnar 2021/22,  2023/24 og 2024/25.

Florian Wirtz lék með öllum yngri landsliðum Þjóðverja. Hann lék sinn fyrsta aðallandsleik haustið 2022. Florian er búinn að spila 31 landsleik og skora eitt mark. 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan