Fyrsta ferð okkar til MEKKA 4. nóvember 2006

Tilbúnir fyrir leikinn - trefillinn og gallinn með í för!

Það var föstudagurinn 3. nóvember og dagurinn byrjaði eins og flest allir dagar nema hann var örlítið styttri en aðrir í vinnu þar sem við vorum á leiðinn til Keflavíkur eftir hádegi. Við vorum mættir 14:30 út á flugvöll og tilbúnir í flug til Manchester kl. 17.30. Flugið gekk tíðindalaust fyrir sig líkt og Flugleiðum er von og vísa og tók um 2 tíma.

Þegar töskur voru fundnar var farið að finna rútuna sem átti að flytja okkur til Liverpool ásamt um 50 öðrum stuðningsmönnum frá Íslandi. Rútan fannst eftir leit um hlaðið og smá misskilning um hvar hún væri. Þegar í rútuna var komið var greinilegt að þar voru dyggir stuðningsmenn komnir saman því að það var strax tekið til við að syngja Liverpoolsöngva sem að féllu vel í kramið hjá öllum. Þegar á hótelið var komið var farangri komið inn á herbergi og púlsinn tekin á kvöldlífinu. Farið var að fá sér í svanginn og er úr nægu að velja í borginni.

Eftir góðan nætursvefn rann leikdagur upp og ekki laust við að spenna og eftirvænting væri farin að gera vart við sig. Við drifum okkur í morgunmat sem samanstóð af eggjum, beikoni og ristuðu brauði og einni kaffikönnu. Um klukkan 10 hittist allur hópurinn í móttöku hótelsins til að fá miða á völlinn. Þegar þeir voru komnir í okkar hendur var orðið tímabært að kíkja á mannlífið í miðbænum og verða sér úti um Liverpool varning svo að við féllum inní hópinn með heimamönnum.

Sigri fagnað!

Við fundum mjög fljótlega búðina í bænum sem selur eingöngu varning merktan Liverpool en við værum sjálfsagt en að bíða eftir afgreiðslu viku seinna ef við hefðum ætlað að versla í búðinni, slík var ösin þar inni. Við héldum því röltinu um bæinn áfram og fundum á endanum lítinn söluvagn með varningi og fengum við okkur trefil og treyjur hjá karlinum sem var mjög ánægður með viðskiptin við okkur svona snemma dags. Þá vorum við að verða nokkuð vel útbúnir fyrir leikin við Reading en klukkan samt ekki orðin 11. Við héldum röltinu áfram um miðbæinn og hvarvetna sem við mættum fólki á göngu vildi fólk spjalla og spyrja okkur hvenær leikurinn hæfist.

Þá var orðið tímabært að koma sér á vallarsvæðið og leigubíl veifað og hann beðinn að keyra til Anfield Road. Eftir stutta ökuferð úr miðborginni og gott spjall við bílstjórann um Ísland og fótbolta blasti mekka fótboltans á jörðinni við okkur, sjálfur Anfield Road. Það hríslaðist um okkur unaðsleg tilfinning, við vorum komnir á staðinn sem að okkur hafði dreymt um svo lengi. Við kvöddum bílstjórann okkar og héldum að enda Kop stúkunnar, tókum myndir og virtum fyrir okkur umhverfið í kringum völlinn. Hvarvetna mátti líta fólk sem var komið til að njóta dagsins líkt og við. Þá var komið að því að líta inná Park en það er kráin sem að hörðustu stuðningsmenn Liverpool koma saman fyrir leiki, drekka öl, spjalla um liðið, leikinn framundan, syngja saman og búa til stemmningu. Er við mættum rúmlega 11 var kominn góður hópur af fólki klæddu rauðum treyjum Liverpool með trefla og byrjað að kyrja baráttusöngva. Við pöntuðum öl og fengum okkur sæti. Spennan hélt áfram að magnast og fólki tók að fjölga svo um munaði. Þarna var fólk á öllum aldri, börn, pabbar, afar, ömmur, allir á leiðinni á völlinn. Nú fór að þrengjast og hitna verulega í húsinu enda vilja allir sannir stuðningsmenn finna stemmninguna sem þarna er og hún er ósvikin.

The Park

Tíminn leið og þá var orðið tímabært að ganga yfir götuna og finna inngönguhliðið inná völlinn. Eftir smárölt var komið að stóru stundinni. Við gengum inná völlinn. Spennan og tilhlökkunin var orðin óbærileg. 30 ára bið eftir að fara á Anfield var loks á enda. Leikmenn voru langt komnir með upphitun og lokaundirbúningur var að hefjast. Leikmenn gengu til búningsklefa og veifuðu áhorfendum.

Þá var komið að því, liðin gengu til leiks og þjóðsöngur Liverpool byrjaði að hljóma, You’ll never walk alone. Allir stóðu á fætur og hylltu hetjurnar sínar veifandi treflum eða hverju sem minnti á liðið. Það fór unaðslegur hrollur um okkur og gæsahúð sem allar gæsir hefðu orðið stoltar af. Þvílík stund þegar 44.000 manns syngja í kór, þetta er engu líkt.  

Leikurinn hófst og stuðningsmenn Reading létu vel í sér heyra og það virtist hafa góð áhrif á þeirra menn því að þeir byrjuðu leikinn ágætlega án þess þó að varnarmenn Liverpool ættu í miklum vandræðum. Okkar menn fóru nú að koma framar og reyna að ógna marki Reading, á 14.mín barst boltinn út á hægri kant, Steve Finnan sendi á kollin á Peter Crouch sem skallaði til Dirk Kuyt og hann renndi honum í autt markið. 1-0 fyrir Liverpool. Þetta kunnu stuðnigsmenn Liverpool vel að meta og fögnuðu af krafti. Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Staðan 1-0. Við vorum sáttir þegar við fórum í sjoppuna í hálfleik, okkar menn yfir án þess að leika af fullum krafti.

Seinni hálfleikur hófst líkt og sá fyrri. Reading pressaði stíft, greinilega staðráðnir í að jafna metin strax og fá eitthvað út úr leiknum en okkar menn vörðust fimlega öllum sóknaraðgerðum. Það var síðan á 64. mín sem að annað markið kom og þar var Dirk Kuyt aftur á ferðinni eftir hornspyrnu.Staðan orðin 2-0 og útlitið gott. Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta og stjórarnir fóru að skipta inn varamönnum; Reading að reyna að komast inn í leikinn að nýju en Liverpool að halda fengnum hlut. Leikur fjaraði hægt og rólega út, okkar menn sáttir og Reading gáfust upp. Lokatölur 2-0.

Eftir þessa fyrstu ferð er alveg ljóst að við bræðurnir ætlum að fara aftur á Anfield. Stemmningin er engu lík, samstaðan meðal fólksins í borginni er einstök og vonandi verður næsta ferð farin fyrr en seinna.

Að lokum langar okkur að þakka Liverpoolklúbbnum á Íslandi fyrir að skipuleggja þessa ferð og við hvetjum alla til að koma með í gleðina á Anfield. Takk fyrir okkur.

Þorsteinn Baldursson
Jón Baldur Baldursson

 

TIL BAKA