Anfield
Áhorfendafjöldi:
Main stand = 9.575
Paddock= 2.454
Anfield Road = 9.116
Centenary stand = 11.411
Kop = 12.390
Móttökustúkur (executive boxes) = 344
Stæði fyrir fatlaða = 80
Samtals áhorfendafjöldi = 45.370
Anfield var fyrst heimavöllur Everton en eftir deilur við eiganda vallarins John Houlding um leiguna á vellinum, fluttu þeir burt. Houlding stofnaði sitt eigið lið og Liverpool var það látið heita eftir að deildin bannaði honum að nota Everton-nafnið. Völlurinn tók um 20.000 áhorfendur en það var frekar tómlegt um að litast á fyrsta heimaleik Liverpool er aðeins 100 manns sáu sér fært að mæta á staðinn. Árið 1906 var ný aðalstúka tilbúin og áhorfendur gátu nú staðið í suðurenda vallarins. Suðurendinn sem skírð var the Spion Kop varð brátt vinsæl enda hæsta stúka í Englandi, alls 132 þrep. Þegar Shankly tók við Liverpool tímabilið 1959/60 var meðaláhorfendafjöldi á Anfield 28.961 og heimsóttu alls 608.194 manns Anfield til þess að fylgjast með liðinu í 2. deild. Völlurinn var hálftómur en allir þekkja áhrif Shankly á Liverpool og brátt flykktust áhorfendur að. Stjórn félagsins ákvað að hefja framkvæmdir að nýju enda uppgangur hjá félaginu. Árið 1963 reis því Kemlyn Road-stúkan. Ný aðalstúka var reist árið 1970 en svo óheppilega vildi til að klósettin voru fremur illa úr garði gerð og þvag áhorfenda lak úr klósettunum niður í fundaherbergi stjórnarmanna. Eftir að pípararnir höfðu kippt þessu í liðinn og flóðljós voru sett upp fyrir um 100.000 pund státaði Liverpool af einum glæsilegasta velli í Evrópu.
En Anfield var að sprengja utan af sér hverfin í nágrenninu og félagið keypti því húsin allt um kring til þess að geta bætt aðstöðuna en tvær systur héldu aftur af framkvæmdum í 19 ár vegna þess að þær vildu ekki selja húsið sitt þrátt fyrir gyllitilboð. Þess má geta að þær systur fengu á hverjum jólum fjölda pakka og árnaðaróska frá aðdáendum Everton og voru hvattar til þess að dvelja þarna sem lengst. Árið 1990 fékk Liverpool loksins sínu framgegnt enda kerlingarnar komnar á elliheimili og framkvæmdir hófust við gerð nýrrar stúku sem kostaði um 8.5 milljónir punda eða eitt stykki Collymore. Stúkan var svo opnuð 1. september 1992 einni öld upp á dag eftir að Liverpool hafði leikið sinn fyrsta leik á Anfield og var af því tilefni kölluð Centenary stand eða Aldarstúkan. Hillsborough-slysið varð þess svo valdandi að sæti voru sett í the Kop 1989 og glataðist þar með mikilvægur hluti af andrúmsloftinu á Anfield en hættan var vissulega fyrir hendi og því nauðsynlegt að tryggja öryggi áhorfenda. Í dag er framtíð Anfield óráðin og liggur á teikniborðinu nýr völlur í næsta nágrenni sem mun taka um 70.000 manns.
Ýmis tölfræði um Anfield
Met áhorfendafjöldi: 61.905. 2. febrúar 1952. F.A. bikar 4. umferð.
Liverpool - Wolverhampton Wanderes 2:1
Fyrsti leikur á Anfield: 1. september 1892. (vináttuleikur).
Liverpool - Rotherham Town 7:1
Fyrsti kappleikur á Anfield: 3. september 1892. (Lancashire-deildin).
Liverpool - Higher Walton 8:0 (Cameron 2, McQue 2, Smith 2, McBiride og McVean). Liverpool: Ross, Hannah, McLean, Pearson, McQue, McBride, Wyllie, Smith, McVean, Cameron og Kelvin. Áhorfendur: 200.
Tapleysi á Anfield: Frá janúar 1978 til janúar 1981 tapaði Liverpool ekki leik á Anfield. Á þessu tímabili lék liðið 85 leiki í öllum keppnum án taps. Markatalan í leikjunum var 213:35 Liverpool í hag. Þetta er met hjá ensku liði.
Leiktíðirnar 1893/94, 1970/71, 1976/77, 1978/79, 1979/80, 1987/88, 2017/18, 2018/19 og 2019/20 tapaði Liverpool ekki deildarleik á Anfield. Það sem meira er 1893/94 vann Liverpool alla heimaleiki sína.
Heimilisfang:
Liverpool Football Club
Anfield Road
Liverpool L4 0TH
England