Uppgangur og uppköst á Anfield 23. september 2006

Félagarnir fyrir utan Anfield klukkutíma fyrir leik Liverpool og Tottenham. Framundan var glæsilegur 3-0 sigur.

Greinarhöfundur er lengst til hægri.

Skrýtið hvernig sumir draumar eru lengur að rætast en aðrir. Orðinn fertugur og hefur aldrei farið á Anfield! Það gengur ekki og því gaf ég sjálfum mér ferð á Anfield í fertugsafmælisgjöf. Draumurinn rættist svo í september sl. þegar við félagarnir skelltum okkur á leik Liverpool og Tottenham. Það kom aldrei annað til greina en að fara á heimaleik Liverpool, jafnvel þó við vissum ekki þá að eina leiðin til að sjá Liverpool sigra væri að fara á Anfield, því það þarf ekki að segja stuðningsmönnum Liverpool frá því að stigin hafa komið heima, en ekki að heiman.

Það er skemmst frá því að segja að frá því hópurinn mætti í flugstöðina á Keflavíkurflugvelli hafi Kop stemmning myndast og hún hélst alla ferðina og gott betur. Tugir stuðningsmanna í treyjum, Carlsberg í glösum og Gerry and the Pacemakers með reglulegu millibili nægði til að gera stuðningsmenn annarra liða í flugvélinni pirraða og órólega.

Það var lent á flugvellinum í Manchester á föstudagskvöldi og þeir huguðustu flögguðu treyjum og treflum framan í heimamenn við lítinn fögnuð en óhætt er að segja að flestir hafi andað rólegar þegar í rúturnar var komið. Enn betra var að koma á Adelphi hótelið og rölta um nágrennið og hlusta á Scouse mállýskuna og drekka í sig Bítla og fótbolta.

Laugardagurinn var tekinn snemma. Við vorum mættir á The Park gegnt Anfield vel fyrir klukkan 10, þremur tímum fyrir leik. Okkur hafði verið sagt að Park opnaði ekki fyrr en klukkan tíu en vingjarnleg barstúlkan benti okkur á að koma inn um bakdyrnar þó enn væru fimmtán mínútur í opnun. Þar inni sat fimm manna harður kjarni Kopíta og söngluðu Liverpool lög. Gæsahúðin kom strax fram, Anfield andrúmsloftið var magnað. Og það varð bara magnaðra eftir því sem fleiri bættust við eftir því sem leikur nálgaðist. Söngvarnir urðu háværari, stemmningin magnaðist og þegar klukkan sló tólf hysjuðu menn upp um sig og fóru í mekkað, musterið, Anfield.

Að segja að við félagarnir höfum farið í stúkuna með bros á vör er hreinlega rangt. Við brostum ekki bara hringinn, við brostum meir en maður hélt að væri mögulegt. Smám saman fylltist stúkan og þegar Liverpoolliðið kom inn á völlinn til að hita upp fyrir leik var orðið erfitt að hemja sig. Þegar flautað var til leiks var rödd sumra farin að bresta og treflar byrgðu sumum sýn, en skemmtunin var ósvikin.

3-0 sigur varð staðreynd í leiknum eins og allir vita. Raddlausir, þreyttir en yfirmáta ánægðir drifum við okkur upp á hótel og þaðan á næsta pöbb. Við vorum svangir og því var ákveðið að skella sér á hamborgara á staðnum. Mistök, mistök og aftur mistök. Við höfðum pantað okkur borð á þeim ágæta veitingastað The Living Room um kvöldið, en þangað koma leikmenn og fyrrverandi leikmenn gjarnan og snæða. Undirritaður var hálf slappur í maganum þegar leið á kvöldið en það hindraði hann ekki í að koma auga á Michael Thomas á staðnum og koma félögunum í myndatöku með honum. Magaverkurinn versnaði hins vegar enn eftir því sem leið á kvöldið og því tók ég það til ráðs að fá mér ferskt loft fyrir utan staðinn. Líðanin skánaði ekki þó John Barnes gengi framhjá mér og tæki undir kveðju Íslendingsins. Skömmu síðar varð uppgangur Liverpoolliðsins á vellinum gleymdur þegar uppgangur matsins vildi hefjast. Það er skemmst frá því að segja að undirritaður dvaldi á hótelherbergi sínu frá miðnætti á laugardegi til hádegis á mánudegi og kastaði öllu sem hægt var að kasta upp og rúmlega það, þökk sé helv... hamborgaranum frá því fyrr um daginn. Það er því rétt að vara við staðnum Wall Street í Liverpool.

Nokkrum kílóum léttari en með frábærar minningar af góðum leik, frábærri stemmningu, góðum félagsskap og fullt af varningi frá Anfield búðinni var svo haldið heim á leið á mánudag. 3-0 sigur var efst í huga, uppgangur og uppköst eru hins vegar órjúfanlegur hluti minningarinnar um frábæra ferð.

Steingrímur Sævarr Ólafsson

TIL BAKA