2 leikja ferð janúar-febrúar 2003
Einn af hápunktunum í starfsemi Liverpoolklúbbsins á Íslandi er skipulagning ferða til Liverpool - Mekka knattspyrnunnar á Englandi. Í flestum tilfellum er um stuttar ferðir að ræða þar sem aðeins er farið á einn leik í hverri ferð. Á undanförnum árum hafa okkur af og til borist óskir um að skipuleggja ferðir þar sem farið verði á fleiri leiki í sömu ferðinni. Til að koma á móts við þessar óskir var ákveðið að fara í tveggja leikja ferð um mánaðarmótin janúar / febrúar og fylgjast með leikjum Liverpool gegn Arsenal á Anfield og gegn West Ham á Upton Park. Og viðtökurnar létu ekki á sér standa því allir 40 miðarnir sem voru í boði seldust upp á skömmum tíma.
Fyrirkomulag ferðarninnar var þannig að flogið var til London þriðjudaginn 28. janúar og síðan var ekið með rútu til Liverpool. Dvalið var í Liverpool í 3 daga og síðan ekið aftur til London þar sem dvalið var í aðra 3 daga. Haldið var heimleiðis sunnudaginn 2. febrúar.
Smellið á myndina til að sjá mun stærri mynd af hópnum
Samsetning hópsins var afar fjölbreytt. Einstaklingar, pör, feðgar, vinahópar, fjölskyldur. Yngsti þátttakandinn var 13 ára gamall en sá elsti 77 ára. Sumir voru að fara í sína fyrstu ferð, aðrir höfðu farið áður. Flestir voru harðir Liverpoolmenn en sumir þeirra höfðu þó tekið með sér vini sína sem eru ( voru ) Arsenalaðdáendur. Og enn aðrir höfðu takmarkaðan áhuga á knattspyrnunni en slógust í för með vinum og kunningjum. Eiginlega má segja að það hafi aðeins verið tvennt sem hópurinn átti sameiginlegt. Í fyrst lagi löngunina til að upplifa þá ógleymanlegu stemningu sem fylgir því að fara á völlinn í Englandi og í öðru lagi virtust flestir hafa ráð undir hverju rifi sem myndi duga til að rífa Liverpool upp úr þeim öldudal sem félagið hefur verið í að undanförnu.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvað það sé sem fær fólk á öllum aldri til að eyða tíma og peningum í að fara í fótboltaferðir til Englands. Og ekki bara það. Virðulegir skrifstofumenn, sem ganga að jafnaði í jakkafötum og bindi, kasta frá sér hverdagsleikanum og klæða sig í Liverpoolbúning rétt eins og þeir eigi von á því að fá tækifæri til að taka þátt í leiknum. Að sjálfsögðu er ekki til neitt einhlýtt svar við þessu en ég tel þó að flestir fari til að upplifa þá ótrúlegu stemningu sem er í kringum enska fótboltaleiki. Stemningu sem menn geta ekki upplifað heima í stofu. Fyrir leikinn á móti Arsenal voru um 20 Íslendingar mættir á Park ( krá stuðningsmanna Liverpool ) þremur tímum fyrir leik til að vera með í upphituninni fyrir leikinn með hörðustu stuðningsmönnum Liverpool. Þessir menn mæta þarna fyrir hvern einasta heimaleik Liverpool ár eftir ár og syngja baráttusöngva. Þessi stund verður þeim sem þarna voru í fyrsta sinn ógleymanleg og án efa einn af hápunktum ferðarinnar. Aðeins eitt skapar meiri geðshræringu þegar farið er á leiki Liverpool. Og það er þegar áhorfendur standa upp 6 – 7 mínútum fyrir leik og syngja “ You Never Walk Alone “. Það er eins gott að taka með sér hreinan vasaklút á völlinn!!!!!!!
Daginn eftir leikinn á móti Arsenal fórum við í skoðunarferð um völlinn og Liverpoolsafnið. Eftir að hafa farið inn í búningsherbergi Liveropool, gengið upp tröppurnar þar sem leikmennirnir koma inn á völlinn við mikinn fögnuð áhorfenda ( reyndar spilað af segulbandi ) og sest í sætið þar sem Houlier situr á heimaleikjum fengum við stuttan fyrirlestur um starfsemina á Anfield. Þar kom m.a. fram að áætlað er að taka nýjan völl í notkun árið 2006, árlega eru seldir 21.000 ársmiðar á völlinn og um 20.000 manns eru á biðlista eftir ársmiðum og á hverjum heimaleik starfa um 1100 manns. Þessar tölulegu upplýsingar segja meira en mörg orð um hversu stórt dæmi það er að reka klúbb eins og Liverpool FC.
Eftir að hafa náð góðum úrslitum í leiknum gegn Arsenal á heimavelli var mikill hugur í mönnum fyrir seinni leikinn gegn West Ham í London. Og okkar menn stóðu undir þeim væntingum og unnu leikinn 3 – 0. Hluti hópsins fékk miða fyrir aftan annað markið meðal stuðningsmanna Liverpool. Stemningin þar var ólýsanleg, sérstaklega eftir því sem leið á leikinn og úrslitin voru ráðin. Eftir leikinn gegn West Ham var haldið út á flugvöll og lent í Keflavík um kl 1:00 um nóttina.
Hvað segja þátttakendurnir?
Nafn: Sæmundur Ragnarsson
Aldur: 31 árs
Hvaðan ertu: Reykjavík
Hvernig fannst þér ferðin: Ferðin var alveg frábær. Það er mjög gott framtaka að hafa tvo leiki í sömu ferðinni. Ég hef farið í ferð þar sem það var aðeins einn leikur og þetta er miklu betra fyrirkomulag. Auk þess að sjá Liverpool spila tvisvar sinnum sá ég einnig leikinn Tottenham – Chelsea.
Hápunktur ferðarinnar: Þegar Heskey skorðai jöfnunarmarkið á móti Arsenal og heimsóknin á Park fyrir leikinn.
Hefur þú hug á að fara í aðra ferð: Já, ég á alveg örugglega eftir að fara í fleiri ferðir. Þetta var í fjórða sinn sem ég fer á Anfield og þetta er alltaf jafn skemmtilegt.
Nafn: Kristján Blöndal Jónsson
Aldur: 25 ára
Hvaðan ertu: Frá Blönduósi, en bý nú á Akureyri.
Hvernig fannst þér ferðin: Þetta var meiriháttar ferð. Hópurinn náði vel saman og ég skemmti mér konunglega.
Hápunktur ferðarinnar: Það var örugglega leikurinn gegn Arsenal. Það var stórkostlegt að sjá þessi tvö stórveldi spila saman. Einnig var frábært að fara á leikinn Tottneham – Chelsea. Þar var ég mitt á milli stuðningsmanna liðanna og það var allt vitlaust á svæðinu þar sem ég var..
Hefur þú hug á að fara í aðra ferð: Þetta var í fyrsta sinn sem ég fór á leik í Englandi en örugglega ekki það síðasta. Ég stefni að því að fara í aðra ferð seinna á árinu.
Nafn: Rúna Sif Stefánsdóttir.
Hvaðan ertu: Reykjavík.
Aldur: 14 ára.
Hvernig fannst þér ferðin: Mér fannst ótrúlega gaman. Það var skemmtilegt að Liverpool skyldi ná svona góðum árangri á þessum tveimur leikjum.
Hápunktur ferðarinnar: Leikurinn á Anfield. Spennan var ótrúleg og það var gaman að fylgjast með stuðningsmönnunum. Einnig var skoðunarferðin um völlinn skemmtileg.
Hefur þú hug á að fara í aðra ferð: Það væri gaman að fara aftur seinna, sérstaklega þegar nýi völlurinn verður tilbúin.
Nafn: Bjarki Sigurjónsson
Aldur: 13 ára
Hvaðan ertu: Vestmannaeyjum.
Hvernig fannst þér ferðin: Glæsileg. Mér fannst ekkert mál að vera að ferðast með svona mörgum fullorðnum. Ég keypti mér fullt af Liverpooldóti sem ég ætla að koma fyrir í herberginu mínu.
Hápunktur ferðarinnar: Það er erfitt að gera upp á milli en ég held að það sé leikurinn á móti Arsenal.
Hefur þú hug á að fara í aðra ferð: Ég fer alveg örugglega aftur.
Ég held að ég tali fyrir munn allra sem þátt tóku í ferðinni að hún hafi verið mjög vel heppnuð þrátt fyrir að hópurinn væri fjölbreyttur. Fjögur mikilvæg stig unnust og menn trúðu því að með þessum leikjum færi gæfuhjólið að snúast aftur með okkar mönnum.
Að lokum vil ég þakka öllum þátttakendum fyrir skemmtilega viðkynningu og vonast til þess að þeir drífi sig á Anfield sem allra fyrst. Einnig færi ég Lúðvík Arnarssyni bestu þakkir fyrir örugga og röggsama fararstjórn.
Markús Einarsson
Aðstoðarfararstjóri og
ritari Liverpoolklúbbsins.