Árshátíð 2001
Klukkan hálffjögur 17. febrúar 2001 voru um 80 manns mættir í íþróttahúsið í Austurbergi og sáu strákar úr kennaraháskólanum um að halda uppi fjörinu fyrir yngri meðlimi klúbbsins. Það var farið í margvíslega leiki og fullyrði ég að allir höfðu nóg að sýsla. Knattþrautir, fótboltamót, og skotkeppni voru meðal annars á boðstólum. Happdrætti setti lokapunktinn yfir daginn eftir að allir voru búnir að gæða sér á Dominospizzunum. Fótboltar og áritaðar myndir af Dietmar Hamann og Vladimir Smicer heilluðu mest í happdrættinu en við sáum til þess að allir fengu vinning og voru því allir ánægðir.
Um kl. 19.30 voru 105 manns mættir í Ölver til að vera viðstaddir kvöldskemmtun að hætti Púllara. Ég bauð menn velkomna með stuttri en hnitmiðaðri ræðu enda orðinn svangur mjög. Sigursteinn bauð því næst Jósep Svani veislustjóra á gólfið og hann var hress að vanda og forréttur var fljótlega kominn á borðið til að seðja sárasta hungrið. Jósep Svanur endurskírði forréttinn á viðeigandi hátt og "Rjómalögð sveppasúpa" var ekki lengur á boðstólum heldur Romalögð sveppasúpa.
Þegar áheyrendur voru búnir að jafna sig á litríkum lýsingum uppistandarans og fyrrum "fyndnasta manns Íslands" Péturs Jóhanns Sigfússonar m.a. á afturendum eldri karlmanna sem blöstu við honum jafnan þegar hann fór í sund og minntu hann á uppþornaða hitapoka, þá var hafist handa við að snæða aðalréttinn sem var reykt svínakjöt. Happdrættið var komið í fullan gang og var þar mikið um dýrðir en reyndar var maður farinn að hafa áhyggjur af því að koníakið og vískíflöskurnar virtust allar stefna í ákveðið horn í salnum þar sem menn voru farnir að verða ískyggilegir. Það átti greinilega að tappa strax af þessum 7 árum sem veigarnar voru búnar að lifa. En ber að taka fram að ekki voru allir svo gráðugir og fóru vel með þessar glæsilegu flöskur sem þeir hrepptu. 16 manna tertur, glæsilegar gjafakörfur, reiðhjólahjálmur, frí klipping, treyjur og alls kyns vinningar voru einnig í boði. Kelloggs var með miða nr. 2 og kvaldist mikið þegar hver miðinn á fætur öðrum sem endaði á 2 var dreginn út en aldrei hans miði, sessunautum hans til mikillar skemmtunar en honum til óbærilegrar skelfingar.
Uppboð á heldur merkilegri Liverpooltreyju var næst á dagskrá. Hún var árituð af eigi ómerkari köppum en Phil Neal, Alan Kennedy, Ian Rush, Steve McMahon, David Johnson, Brian Hall, Bruce Grobbelaar, Phil Thompson, Ron Yeats og Craig Johnston. Alls 4 leikmenn sem voru fyrirliðar Liverpool og talsverður fjöldi verðlaunapeninga sem þessir kappar geta allir státað af. Við vorum búnir að hengja hana upp við sviðið þannig að menn gátu virt hana fyrir sér og var jafnan tjáð að fyrsta boð í þennan grip væri 10.000 krónur. Það voru nokkrir aðilar vel undirbúnir að fara hærra en fyrsta boð en þegar "25.000 krónur!" glumdi hreystilega í salnum rétt þegar orðinu var sleppt að fyrsta boð væri 10.000 krónur þaggaði það niður í öllum. Sá sem hafði tekið til máls var vaskur markvörður Grindvíkinga Albert Sævarsson og honum var greinilega umhugað um að hirða treyjuna. Það fór svo auðvitað að hann fékk sínu framgegnt og tjáði okkur að hann hafði verið reiðubúinn að bjóða allt að tvöfalt hærri upphæð ef þörf krefði. Hann og félagi hans Sverrir Þ Sverrisson höfðu slegið saman í púkk og varð ekki skotaskuld úr þessu og greiddu treyjuna daginn eftir.
Púllari ársins var tilkynntur og varð fyrir valinu Þórir Eiríksson en hann hafði útvegað ógrynninn öll af glæsilegum vinningum fyrir árshátíðina en fyrst og fremst hafði hann safnað um það bil 40 skráningum í Liverpoolklúbbinn á síðastliðnum tveim mánuðum á suðurnesjum einum. Magnús V Pétursson, fyrrum alþjóðadómari, sem er heiðursfélagi nr. 1 í Liverpoolklúbbnum tók við viðurkenningu á þeirri mætu staðreynd. Hann var fararstjóri í fyrstu ferðum klúbbsins á Anfield og leiðbeindi okkur á rétta braut hvað varðar háttalag og kurteisisvenjur út í bítlaborginni. Það þótti einnig við hæfi að bjóða Matthew og Dave sérstaklega velkomna enda harðir Púllarar og Matt, sem hefur verið búsettur á Liverpoolsvæðinu mestalla ævi, státar af því að hafa verið handhafi ársmiða í The Kop í 5 síðastliðin ár. Þeir komu hingað í ársbyrjun til að vinna fyrir Íslenska Erfðagreiningu en skyldi maður fórna ársmiða í The Kop til að koma upp á Skerið?!! Það er vafamál en Matt ber með sér fulla dómgreind þannig að Kári klónari hefur beitt einhverjum bellibrögðum á hann. Sönghópurinn Staupasteinar söng þjóðsöng okkar "You'll Never Walk Alone" af mikilli snilld og þegar hópurinn mætti aftur á sviðið tóku allir undir með þessum stórsöngvurum svo í gamla Ölver glumdi.
Það var óneitanlega spenna í loftinu þegar var komið að því að draga út aðalvinning kvöldsins sem var ferðavinningur á leik Liverpool og Man Utd á Anfield. Ingimundur Jónsson frá Reyholtsdal hreppti vinninginn góða og leiddist ekki að miðinn hans hans reyndist sannkallaður happamiði og var spenningurinn strax farinn að gera vart við sig.
Þegar var komið að kveðjustund var samdóma álit manna að vel hafði til tekist og maður er strax farinn að hlakka til næstu árshátíðar. Ég læt fylgja með hér í lokin vísukorn sem sungið var af hreysti síðar um kvöldið. Beggi Gísla er höfundur textans en lagið er samið af Bubba Morthens "Konan sem horfði út á hafið".
Við komum í Ölver
á febrúarkvöldi
og snjór var úti
Sólin var sest
Við horfðum á leikinn
og spáðum í spilin
Hvort liðið væri best
Þetta er liðið sem sigraði Roma
Draumar hafa ræst
Þetta er liðið sem sigraði Manjú
og deildin verður næst (x2)