Liverpool - Chelsea, haust 1997
Þann 2. október síðastliðinn lögðu 90 fræknir Íslendingar í mikinn leiðangur til Liverpool. Markmið ferðarinnar var auðvitað að sjá Liverpool leika við Chelsea og auðvitað ætluðum við okkur sigur í þeim leik. Okkar menn brugðust okkur ekki, við sigruðum Chelsea 4-2 með mörkum frá Berger sem skoraði þrennu og svo Fowler.
Í hópi ferðalanga voru nokkrir stjórnarmenn Liverpoolklúbbins og einnig vinningshafinn í getrauninni okkar og Íslenskra getrauna, Hálfdán Daðason.
Á föstudeginum vorum við svo heppin að komast inn á æfingu hjá Liverpool á Melwood æfingasvæðinu.
Aðalmarkmið okkar var að afhenda Steve McManaman viðurkenningu sem leikmaður ársins hjá Liverpool-klúbbnum á Íslandi. Auðvitað nýttum við tímann og tækifærið sem okkur gafst þarna til að tala við aðra leikmenn og taka af þeim myndir. Það voru teknar myndir þarna fyrir mörg þúsund krónur. Við afhentum McManaman smá viðurkenningarskjal ásamt því að gefa honum Panorama bókina um Ísland eftir Pál Stefánsson. McManaman kvartaði reyndar yfir því að vera svona aftarlega í röðinni þegar við "misstum” það út úr okkur að Bjornebye, Leonhardsen, Babb, McAteer og Kennedy væru búnir að fá svona bók líka. En Macca tók mjög vel á móti okkur og það er satt sem þeir segja um hann. Hann er FRÁBÆR náungi.
Bílaeign leikmanna Liverpool endurspeglar kannski meira en nokkuð annað hvernig þessir menn standa fjárhagslega og má hér sjá nokkrar myndir af bílum. Hér fyrir neðan sjáið þið Porsche-inn hans Ruddock en þið sjáið kannski ekki að í farþegasætinu er golfsett og það kom í ljós þegar við töluðum við aðra leikmenn að þeir stunda mikið golf þegar þá vantar að komast aðeins frá boltanum. David James ekur um á Jaguar, Steve Harkness á Porsche með montnúmerinu HARKY. Mark Wright á Porsche, Karl Heinz Riedle keyrir um á þýskum eðalvagni en Patrik Berger á stórglæsilegan vel búinn Mercedes Benz. En fallegasta bílinn átti auðvitað Robbie Fowler, dökk grænsanseraðan Porche, sem kostar örugglega einhverja peninga. Ekki furða þó að hann þurfi að fá launahækkun!
Roy Evans var mjög upptekinn þarna á æfingasvæðinu því að það var mikið fjölmiðlafár í gangi og hann talinn mjög valtur í sessi og gæti verið rekinn á hverri stundu. Hann gaf sér þó tíma til að spjalla við okkur og þótti mikið til þess koma að til væri öflugur stuðningsmannaklúbbur á þessari litlu eyju. Við hittum einnig fleiri leikmenn Liverpool t.d. Danny Murphy, David James, Phil Babb, Bjornebye, Danny Murphy, Rob Jones, Redknapp, Riedle, Owen, Berger, Harkness og auðvitað Ruddock. En þetta allt saman hjá okkur vakti auðvitað töluverða athygli og það vildi þannig til að á svæðinu eftir þessa æfingu var heilmikill hópur af blaðamönnum sem voru að spjalla við Roy Evans. En þegar Íslendingar eru á ferð þá vekur það jafnan athygli og þegar Evans var farinn og leikmennirnir búnir að skipta úr æfingagöllunum, tóku blaðamennirnir eftir því að flestallir leikmenn Liverpool höfðu talað við okkur og eyddu töluverðum tíma í það. Skipti engum togum að það kom til okkar fréttamaður frá Liverpool Life, sem er lítil sjónvarpsstöð í Liverpool, og hún vildi ólm komast að því hvað við værum að gera þarna. Við auðvitað útskýrðum það í sjónvarpsviðtali sem við sáum reyndar aldrei....
Við heilsuðum einnig upp á Doug Livermore sem er aðstoðarmaður Roy Evans. Leikmenn Liverpool voru allir mjög vinalegir og er það alveg ótrúlegt að menn skuli ekki missa þolinmæðina þegar fólk flikkist að þeim í leit að eiginhandaráritunum.
Allur hópurinn fór auðvitað í skoðunarferð um Anfield og menn fóru í búningsklefana og þar kom ýmislegt skemmtilegt í ljós. T.d. þá er mismunandi gólfefni í búningsklefunum tveimur. Í klefa okkar manna þá er mjög stíft og gott gólfefni þannig að hetjurnar okkar renni ekki, em gæti gerst ef það væri jafn hált og inn í hinum búningsklefanum.
Leikurinn sjálfur var auðvitað hápunkturinn í ferðinni og völlurinn var að sjálfsögðu troðfullur eins og fyrri daginn. Og auðvitað frábær stemmning. Við sem vorum þarna þennan frábæra dag munum aldrei gleyma þessum frábæra leik. Stemmningin í The Kop var hreint út sagt stórkostleg og náði auðvitað hápunkti þegar þeir tóku "You’ll never walk alone” og allir tóku undir nema aðdáendur Chelsea. Við fengum frábær sæti neðarlega í Main Stand og það ætlaði allt að tryllast þegar Berger skoraði sitt þriðja mark og hljóp rakleiðis að stúkunni beint fyrir framan okkur til þess að fagna. En sumir áttu erfitt með að ná myndum af þessu sökum eigin fagnaðarláta og geðshræringar.
Eftir leik var brunað út á flugvöll og við vorum komnir í loftið á heimleið ca. tveimur og hálfum tíma eftir leik. Andrúmsloftið í flugvélinni á heimleið var magnað. Öll Liverpool lögin sem menn höfðu lært á Anfield voru sungin aftur og aftur. Og menn skemmtu sér alveg konunglega í sigurvímu eftir aldeilis frábæran dag. Við í stjórn Liverpoolklúbbins viljum þakka þeim sem komu með okkur í þessa ferð en hún var ein sú allra besta sem farin hefur verið. Nú er bara að fara að spýta í lófana og safna fyrir næstu ferð. En þegar það verður ljóst hvenær við förum og á hvaða leik, verður hún að sjálfsögðu auglýst í RAUÐA HERNUM. Menn sem eru í klúbbnum munu að sjálfsögðu njóta forgangs.
Kær kveðja
Mummi