Liverpool - Everton í apríl 1999
Liverpoolklúbburinn ásamt Úrval Útsýn stóðu fyrir hópferð til Liverpool um síðastliðna páska og er það ætlun mín segja aðeins frá þessari frábæru ferð. Þetta var rúmlega 50 manna hópur sem hafði ákveðið að fara og með í för var voru margir sem voru að fara í sína fyrstu ferð til Liverpool, þar á meðal var hann Björgvin, sem er fatlaður og er í hjólastól. Lagt var í hann á fimmtudeginum 2. apríl og var flogið beint til London og lent á Gatwick. Þar gistum við eina nótt. Morgunin eftir fórum við svo í 5 tíma rútuferð til Liverpool. Hótelið sem við gistum á var hreint út sagt stórkostlegt! Þetta hótel var staðsett niður við Merseyside ánna og það tók okkur ca. 5 - 10 mínútur að rölta niður í miðbæ og aðeins 5 mínútur að rölta yfir á bítlasafnið og svon amætti lengi telja. Hótel þetta hafði tekið til starfa aðeins 6 mánuðum áður og var auðvitað 5 stjörnu. Herbergin voru frábær ásamt því að þarna mjög góður veitingastaður, líkamsrækt og síðast en ekki síst bar.
Föstudagurinn fór í að koma sér fyrir á hótelinu, kanna miðbæinn, versla aðeins í nýju Liverpool búðinni í miðbænum og þeir voru ófáir sem kláruðu alveg að versla á föstudeginum. Einhverjir úr hópnum fóru svo út á lífið á föstudagskvöldinuen voru komnir snemma heim því að það var stórdagur fyrir marga daginn eftir en þá ætluðum við á einn stærsta leik ársins, Liverpool - Everton.
Það var sól og frábært veður á laugardeginum og ég var orðinn mjög bjartsýnn á laugardeginum og alveg viss um að þetta yrði frábær leikur. Klukkan 15:00 flautaði svo dómarinn og leikurinn var hafinn. Rúmri mínútu síðar skoraði Everton. Þvílíkt sjokk og maður hélt að núna væri þetta búið. Everton myndi valta yfir okkur og þetta yrði drepleiðinlegt.Sú varð ekki rauninn sem betur fer því að Liverpool sótti og sótti eftir þetta og fljótlega fengum við víti sem Fowler skoraði úr. Auðvitað trylltust allir á vellinum og ég tók ekkert eftir því að Fowler hafði eitthvað verið að skríða eftir hliðarlínunni. En svona er þetta. Nokkrum mínútum síðar skoraði Fowler aftur og við vorum kominn yfir 2-1. Liverpool spilaði hreint úr sagt frábærlega í þessum leik og stemningin á vellinum var ógleymanleg og allir sungu með nema auðvitað aðdáendur Everton sem er ekkert nýtt í þessum bransa. Patrick Berger bætti svo við öðru marki þegar um 10 mínútur voru eftir og þá var sko sungið "Goin down, you''re goin down" Enda var Everton í hvínandi fallbaráttu á þessum tíma og hvert einasta tækifæri nýtt til þess að nudda salti í sár aðdáenda Everton. En við fengum ekki að syngja þetta lengi því að stuttu seinna skoraði Everton og staðan var allt í einu orðinn 3-2. Þá tók við þvílíkur endasprettur á þessum leik því að Gerrard bjargaði tvisvar á marklínu í lok leiksins og bjargaði deginum. Í fyrsta skipti í mörg ár höfðum við unnið Everton á heimavelli og ég gekk glaður af vellinum ásamt 44 þús aðdáendum Liverpool.
Hópurinn safnaðist síðan saman eftir leik á hótelbarnum og það brostu allir nema einn en þessi eini var einmitt Everton aðdáandi sem kom í ferðina með félögum sínum sem voru púlarar. En það var einn í hópnum sem brosti kannski aðeins meir heldur en aðrir. Það var hann Björgvin, við höfðum reddað sérstöku hjólastólsstæði á Anfield fyrir hann og það var staðsett fyrir aftan annað markið og þar var hann með The Kop í bakið, það er sko ekki leiðinlegt að vera með staðsettur í The Kop á leikjum Liverpool. Þar eru allra hörðustu aðdáendur Liverpool og alltaf besta stemningin. Það var ekki spurning að Björgvin hafði fengið þessa stemningu beint í æð. Þetta var í fyrsta skipti sem einstaklingur í hjólastól hafði komið í ferð með okkur og þetta gekk eins og í lygasögu!
Það var mikið fjör hjá okkur á laugardagskvöldinu og allir sáu ástæðu til þess að fá sér aðeins í glas, mismikið þó.
Á sunnudeginum fórum við svo í skoðunarferð um Anfield og á hið fræga Liverpool safn. Sú ferð klikkaði auðvitað ekki. Undir lok skoðunarferðarinnar sagði leiðsögumaðurinn okkur frá því að leikmenn Liverpool væru væntanlegir bráðlega því að þeir voru að fara til Nottingham en Liverpool átti leik þar á mánudeginum. Það var svo hluti úr hópnum sem beið í ca. 1 klst og þá mættu leikmenn Liverpool og lítið mál var að fá að taka myndir með leikmönnum ásamt því að það fór fram mikil eiginhandaráritunarsöfnun.
Nokkrir strákar í ferðinni höfðu keypt sér Liverpool treyjur og látið prenta númerið 4 og nafnið Song á bolinn. Það vildi svo heppilega til að þeir voru í treyjunum þegar þeir hittu einmitt Rigobert Song og þetta vakti mikla ánægju hjá Song. En enskan var ansi takmörkuð hjá honum á þessum tíma og kunni hann eiginlega bara eitt orð en það var "F**k".
Við fengum svo óvæntan gest á sunnudagskvöldinu en þá heimsótti okkur Haukur Ingi Guðnason leikmaður Liverpool og þar fengum við tækifæri til þess að spyrja hann úr um lífið í Liverpool.
Á mánudeginum var svo stigið í rútu og keyrt til London og þar fórum við í flug heim til íslands. Þar lauk frábærri ferð til Liverpool þar sem allir skemmtu sér frábærlega og allt gekk upp.
Ég vil þakka Lúlla í Úrval/Útsýn fyrir frábæra fararstjórn og fyrir að hafa reddað okkur þessu frábæra hóteli.
Mummi