)

Jamie Carragher

Jamie Carragher lék tímamótaleik um helgina og það nægir til að gera hann að manni vikunnar. Ekki það að Carra geti ekki verið valinn maður vikunnar á eigin verðleikum. En harðjaxlinn lék sinn þrjúhundraðasta leik fyrir aðallið Liverpool. Hann er nú leikjahæsti leikmaður liverpool af þeim leikmönnum sem eru hjá félaginu.

Jamie lék sinn fyrsta leik með Liverpool 8. janúar 1997 í Deildarbikarleik gegn Middlesbrough. Liverpool tapaði 2:1 á Riverside en Jamie lék síðasta stundarfjórðung leiksins. Hann byrjaði í þar næsta leik og skoraði með skalla fyrir framan The Kop þegar Liverpool vann Aston Villa 3:0. Hann lék ekkert meira á þessari leiktíð. En leiktíðina á eftir kom hann meira við sögu og allt frá leiktíðinni 1998/99 hefur Jamie verið fastur maður í liði Liverpool.

Á þessum tíma hefur engu skipt hvaða leikmenn hafa komið til Liverpool. Jamie Carragher hefur, að heita má, alltaf haldið sæti sínu í liðinu. Gerard Houllier hefur mikið álit á Jamie og í raun hefur hann alltaf fundið honum sæti í liðinu. Af því hefur leitt að Jamie hefur leikið báðar bakvarðarstöðurnar, miðvörð og á miðjunni. Það veit kannski enginn hver besta staða hans er í raun og veru. Sumir telja að staða varnarsinnaðs miðjumanns væri hans besta.

En það skiptir engu máli hvaða stöðu Jamie spilar. Í hvert einasta skipti sem hann fer inn á völlinn í Liverpool peysunni leggur hans sig fram af öllum mætti og það þó hann hafi áður haldið með Everton!

Margir stuðningsmenn Liverpool vildu hann út úr liðinu undir lok síðsutu leiktíðar og í byrjun þessarar. En þeir hinir sömu komust að því að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur þegar Jamie fótbrotnaði í haust. Jamie var saknað bæði sem leikmanns og eins sem eins hinns kröftugasta persónuleika í liðshópnum. Endurkoma hans nú í byrjun árs var því öllum stuðningsmönnum Liverpool kærkomin. Það var líka ekki að sjá að Jamie hefði verið frá vegna fótbrots í fjóra mánuði. Hann byrjaði þaðan sem frá var horfið í að berjast fyrir málstað Liverpool Football Club.

Það segir sína sögu að þegar Jamie fótbrotnaði gegn Blackburn ætlaði hann að halda leiknum áfram eftir að búið var að huga að honum. Það var ekki fyrr en Jamie fann að hann gat ekki stigið í fótinn að hann sættist á að fara af leikvelli!

En hvort sem menn trúa því eða ekki þá hefur Jamie nú leikið þrjúhundruð leiki með Liverpool. Það er næsta víst að það á eftir að bætast jafnt og þétt við þann leikjafjölda á komandi leiktíðum. Fyrir hvaða annað lið ætti Carra svo sem að leika?

 

TIL BAKA