)

Paul Willis

Paul Willis tryggði Liverpool eina titil félagsins á leiktíðinni. Það gerði hann á óvenjulegan hátt í úrslitum Liverpoolbikarkeppninnar. Úrslitaleiknum við Everton lauk með 1:1 jafntefli. Framlenging gaf ekkert af sér og því tók við vítaspyrnukeppni. Paul Willis markvörður Liverpool hafði nóg að gera í vítaspyrnukeppninni enda varð úr Maraþonkeppni. Aðeins tveir leikmenn Liverpool voru eftir að taka spyrnur þegar Paul varði. Staðan var 8:8 og spennan í hámarki! Ef Liverpool myndi skora úr næstu spyrnu næði liðið að vinna Liverpool Senior Cup. Tveir leikmenn voru eftir í liði Liverpool og það var Paul sem gaf sig fram nýbúinn að verja. Hann skoraði úr spyrnu sinni og tryggði Liverpool bikarinn. Paul fór nokkur heljarstökk þegar hann fagnaði vítaspyrnu sinni. Markvörðurinn hafði ráðið úrslitum.

Paul er fæddur þann 5. mars 1986 í Belfast höfuðstað Norður Írlands. Hann hefur varið mark undir 19 ára liðs Liverpool á þessari leiktíð og hefur staðið sig mjög vel. Hann þykir mjög efnilegur og traustur markvörður. Paul hefur verið fastamaður í yngri landsliðum Norður Írlands. Það verður gaman að sjá hvað hann nær langt.

Hinn ódauðlegi markvörður Elisha Scott, sem lék með Liverpool frá 1913 til 1934, var líkt og Paul fæddur í Belfast. Hann er síðasti leikmaður Liverpool til að leika með landsliði Norður Íra. Það verður erfitt fyrir Paul að feta í fótspor hans. Ekki það að hann eigi ekki góða möguleika að komast í landslið þjóðar sinnar. Það mun á hinn bóginn reynast honum erfiðara að komast í aðallið Liverpool. Heimaalinn markvörður hefur ekki komist í mark Liverpool í áratugi.

En Paul er að minnsta kosti búinn að koma sér í sögubækurnar hjá Liverpool. Líklega er hann fyrsti markvörður félagsins til að skora úr vítaspyrnu í alvöru keppni. Það var að minnsta kosti bikar í verðlaun! Ekki sá eftirsóttasti. En samt bikar með langa sögu og hefð á bak við sig.

TIL BAKA