Emlyn Hughes, OBE
Afrekaskrá Emlyn Hughes er glæsileg. Hann lék með Liverpool frá 1967 til 1979. Alls lék hann 665 leiki með Liverpool og skoraði 49 mörk. Emlyn varð fjórum sinnum enskur meistari (1973, 1976, 1977 og 1979), F.A. bikarmeistari (1974), tvívegis Evrópumeistari meistaraliða (1977 og 1978) og tvívegis vann hann Evrópukeppni félagsliða (1973 og 1976). Emlyn vann svo Deildarbikarinn með Úlfunum 1980. Hann lék 62 landsleiki fyrir enska landsliðið. Þar af var hann fyrirliði í 23 leikjum.
Það má segja margt um Emlyn. En líklega er best að láta liðsfélaga hans hjá Liverpool lýsa honum. Þeir þekktu hann manna best og kunnu öðrum fremur að meta mannkosti hans. Við gefum þeim orðið.
"Þetta er sannarlega dapurlegur dagur. Brosið hans sagði allt sem segja þurfti um Emlyn Hughes. Allt sem hann tók sér fyrir hendur var framkvæmt af jákvæðni. Það var frábært að umgangast hann. Hann var skemmtilegur og hafði gaman af því að fara út með strákunum. Hann hafði gaman af því að fá sér ölglas en knattspyrnan var honum allt. Af öllum þeim sem ég hef kynnst í knattspyrnuheiminum þá myndi ég segja að Emlyn hafi verið sá sem naut þess fullkomlega að leika knattspyrnu. Það skipti engu hvar hann var að spila. Alltaf gaf hann 110% í það sem hann var að gera. Stuðningsmenn Liverpool munu aldrei gleyma honum. Hugsanlega eigum við aldrei eftir að sjá hans líkan aftur." Terry McDermott
"Hann var einstakur í huga okkar allra. Ótemjunnar verður saknað. Hinn kraftmikli persónuleiki hans og sigurvilji smitaði okkur alla. Hann var stórkostlegur fyrirliði. Ekki bara fyrir Liverpool heldur líka England og það skyldi aldrei gleymast. Barabara og krakkarnir veittu honum mikinn stuðning og við verðum að senda samúðarkveðjur til fjölskyldunnar sem eiga um sárt að binda. Það mun taka okkur langan tíma að komast yfir missi Ótemjunnar. Þann tíma sem ég þekkti hann var hann alltaf kátur og reifur. Hann var aldrei niðurdreginn. Það er svo sárt að hann þurfti að heyja svona stranga baráttu til loka síns stutta æviskeiðs." Phil Neal
"Hann var alger goðsögn. Hann var aðalmaðurinn þegar ég kom til Liverpool. Hann var magnaður leikmaður og öllum frábær fyrirmynd. Það var ekki hægt að hugsa sér betri mann til að læra af. Hann var mikill persónuleiki. Knattspyrnuheimurinn mun án efa sakna hans. Hann var goðsögn." Graeme Souness
"Hann var frábær fyrirliði fyrir enska landsliðið. Allir virtust njóta þess að horfa á hann leika vegna eldmóðs hans. Hann naut þess að spila. Ekki veit ég hvaðan eldmóðurinn kom. En þessi eldmóður hefði getað gert þjóðinni gott ef það hefði verið hægt að virkja hann." Ian St John
"Sem strákur þá dáði ég hann þegar ég horfði á Liverpool liðið á sjötta áratugnum. Shanks sá í honum mann sem endurspeglaði hann sjálfan á leikvellinum. Hinn kraftmikli leikstíll hans heillaði mig. Hendur hans og fætur virtust vera út um allt. Hann skoraði stórglæsileg mörk og alltaf þegar hann skoraði þá brosti hann út að eyrum." David Fairclough
"Hann bjó yfir endalausri orku og eldmóði. Sem leikmaður þá var hann ótrúlega snjall í að aðlaga sig mismunandi stöðum. Þegar hann kom til félagsins þá var hann miðjumaður. Síðar lék hann sem vinstri bakvörður með enska landsliðinu og miðvörð fyrir Liverpool. Eldmóður hans dró okkur áfram sem liðsheild. Hann gerði kröfur og vænti þess að liðið hans gerði sitt besta." Ray Clemence
"Emlyn var ímynd þess sem félagið stóð fyrir á þessum mögnuðu árum þegar Bill Shankly og seinna Bob Paisley stýrðu liðinu. Hann var kappsfullur og fjörugur náungi sem hvatti félaga sína til dáða og þá sérstaklega með því að sýna þeim gott fordæmi. Það skipti engu máli hvernig viðraði. Alltaf var hann fyrstur út á æfingavöllinn. Hann var líka síðastur til að fara af honum." John Toshack
Emlyn lést, eins og áður sagði, þann 9. nóvember. Hann lætur eftir sig eiginkonu sína sem heitir Barbara. Þau eignuðust tvö börn. Dóttir þeirra heitir Emma og sonurinn Emlyn. Við vottum þeim, vinum og vandamönnum dýpstu samúð okkar.