Jose Manuel Reina
Jose Reina hefur nú þegar haldið markinu oftar hreinu en Liverpool gerði á allri síðustu leiktíð. Hann hefur þegar þetta er skrifað haldið marki hreinu í fimmtán leikjum. Að auki hefur hann ekki fengið á sig mark í sex leikjum í röð. Slíkt hefur ekki gerst hjá markmönnum Liverpool frá því í desember 2001. Jose byrjaði leiktíðina líka frábærlega því hann fékk ekki á sig mark í fyrstu fjórum deildarleikjunum. Það var nýtt félagsmet. Eins má nefna að aðeins leikmenn í einu liði hafa skorað hjá honum á Anfield Road í deildinni. Vissulega fékk hann þá fjögur mörk á sig þegar Chelsea kom í heimsókn. En tölurnar tala sínu máli. Liverpool hefur aðeins fengið átta mörk á sig í deildinni.
Jose var í raun lítt þekktur þegar Rafael Benítez keypti hann frá Villareal í sumar. Reyndar hafði hann vakið nokkuð mikla athygli á síðustu leiktíð en hann þótti þá eiga stóran þátt í góðu gengi Villareal. Hann hóf ferilinn með Barcelona og lék með liðinu á Anfield Road þegar Liverpool sló Börsunga út í undanúrslitum Evrópukeppni félagsliða. Hann réði ekki við vítaspyrnu Gary McAllister sem kom Liverpool í úrslit þar sem liðið vann Alaves 5:4. Jose fór svo til Villareal sumarið 2002.
Rafael Benítez lagði mikla áherslu á að fá landa sinn til Liverpool og hetjudáðir Jerzy Dudek í Istanbúl breyttu engu þar um. Pólverjinn hefur heldur ekki spilað frá því hann skipaði sér í stall með lifandi goðsögnum á Ataturk leikvanginum. Reyndar er óvíst að hann spila nokkurn tíma aftur með Liverpool. Það má telja næsta víst að Jose sé kominn til að vera í marki Liverpool og hann var ekki lengi að hugsa sig um þegar tækifæri gafst að ganga til liðs við Evrópumeistarana. "Mér fannst þetta vera frábært tækifæri fyrir mig. Liverpool er frábært félag með mikla sögu og ég vildi bara gera sem mest úr tækifæri mínu hér með þessu félagi."
Pepe, eins og hann er kallaður, er enn ungur að árum. Hann er enn ekki talinn besti markvörður Spánverja og hefur aðeins tvívegis fengið tækifæri í landsliðinu. En hann er án efa efnilegasti markvörður Spánverja og hann er fastamaður í landsliðshópnum. Hann á reyndar ekki langt að sækja hæfileika sína því faðir hans var markvörður með Athletico Madrid og þótti mjög góður.
Það merkilega við þetta er að það hefur ekki ýkja mikið sést til Spánverjans í þeim leikjum sem hann hefur spilað. Það er varla að maður muni eftir einhverjum snilldarmarkvörslum hjá honum. Til dæmis hefur hann varla þurft að verja skot í þeim sex síðustu leikjum sem hann hefur leikið. Vissulega er vörn Liverpool búin að vera gríðarlega sterk í síðustu leikjum og reyndar eru hún búin að vera mjög góð alla leiktíðina. En Jose á auðvitað hrós skilið fyrir framgöngu sína það sem af er leiktíðar. Tölfræðin segir að Jose verðskuldi fyllilega að vera aðalmarkvörður Liverpool.