Jamie Carragher
Á degi heilags Valentínusar lék Jamie Carragher sinn 400. leik fyrir hönd Liverpool. Það gerði hann í 1:0 sigri Liverpool gegn Arsenal. Líkt og í þeim 399 leikjum sem hann hafði áður leikið fyrir félagið þá gat hann gengið af leikvelli með þá vitneskju í huga að hann hafði lagt sig allan fram fyrir Liverpool Football Club. Með því að leika sinn 400. leik þá varð Jamie 24. leikmaðurinn í sögu Liverpool til að leika 400 leiki með liðinu. Það er orðið all fágætt nú á seinni tímum að leikmenn nái þeim leikjafjölda fyrir félagið. Sem dæmi um það þá er Jamie fyrsti leikmaður Liverpool í níu ár til að ná að leika svo marga leiki. John Barnes náði þessum árangri síðast árið 1997. Það má til gamans geta þess að John lék sinn 400. leik tveimur mánuðum eða svo eftir að Jamie lék sinn fyrsta leik.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um Jamie því allir stuðningsmenn þekkja og kunna að meta fyrir hvað hann stendur. Carra er einfaldlega einn af leiðtogum Evrópumeistaranna. Hann er ekki bara einn af máttarstólpum liðsins innan vallar. Hann er líka mjög áhrifamikill utan vallar. Hann er lykilmaður í því að viðhalda liðsandanum og hafa hann sem bestan. Hin magnaða kímnigáfa hans sér til þess að það er aldrei leiðinlegt í kringum leikmenn Liverpool. Að minnsta kosti ekki þegar Jamie fer með gamanmál sín! Hann er líka góð fyrirmynd fyrir unga knattspyrnumenn og eins er hann frábær fulltrúi síns félags. Jamie hefur líka unnið mikið að góðgerðarmálum. Þau verk Jamie eru ekki í sviðsljósinu en hann hefur látið töluvert af peningum sínum af hendi rakna til góðgerðarmála. Að auki á hann það til að borga eitt og eitt flugfar fyrir stuðningsmenn Liverpool. Hann mun til dæmis hafa borgað flugfar fyrir einn heim frá Tókíó eftir Heimsmeistarakeppni félagsliða!. Svona verk eru dæmigerð fyrir Jamie. Hann lætur verkin tala og finnst ekki nein þörf á því að auglýsa þau. En hann fékk þó viðurkenningu fyrir þessi verk sín og önnur nú á dögunum þegar hann var valinn heiðursborgari í Sefton sem mun vera eitt úthverfa Liverpool. En fyrir öll sín verk innan vallar sem utan þá hefur Jamie orðið að lifandi goðsögn meðal stuðningsmanna Liverpool. Ástæðan er fyrst og fremmst sú að þeir telja hann einn úr sínum hópi sínum. Það er hann vissulega þótt hann hafi haldið með Everton á yngri árum!
Það var fyrst tekið eftir Jamie þegar hann var í liði Liverpool sem vann Unglingabikarkeppnina árið 1996. Hann lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu á Árbakkavelli þann 8. janúar 1997. Hann kom þá inn sem varamaður fyrir Rob Jones á 75. mínútu. Liverpool tapaði þessum sem var í Deildarbikarnum 2:1. Í næsta deildarleik kom Jamie inn sem varamaður í 0:0 jafntefli gegn West Ham United á Anfield Road. En fyrsti leikur hans í byrjunarliði hefði ekki getað gengið betur. Liverpool vann þá Aston Villa 3:0 og Jamie skoraði með skalla fyrir framan The Kop. Þar með var hann búinn að skora þriðjung af þeim mörkum sem hann hefur skorað hingað til fyrir aðalliðið! Jamie lék ekki meira á þessari fyrstu leiktíð sinni en á þerri næstu 1997/98 fór hann að festa sig í sessi í aðalliðinu. Alla tíð síðan hefur hann verið fastamaður í því. Það hefur engu máli skipt hvað menn hefa verið keyptir til félagsins. Alltaf hefur Jamie haldið sínu sæti. Hann hefur að vísu ferðast nokkuð um völlinn hvað stöður varðar. Hann hefur leikið allar stöður í vörninni og jafnvel á miðjunni. En sú staðreynd stendur eftir að engum hefur tekist að bola Jamie út úr liðinu. Hann náði til dæmis stöðu sinni strax aftur eftir að hann fótbrotnaði haustið 2003 og var frá framyfir áramót.
Jamie var einn þeirra leikmanna sem Gerard Houllier bar hvað mest traust til og Rafael Benítez hefur ekki minni trú á honum. Orð hans daginn áður en Jamie lék sinn 400, leik með Liverpool segja sína sögu. ,,Það gerist æ erfiðara nú til dags að leika svona lengi hjá einu félagi og hvað þá að leika jafn marga leiki og hann hefur gert. Þann tíma sem ég hef þekkt Jamie Carragher þá hefur hann líka gert annað sem er jafnvel enn erfiðara. Hann hefur ekki bara leikið marga leiki. Hann hefur líka gert það meðal þeirra bestu og sýnt mikinn stöðugleika. Mér finnst þetta magnað afrek og það er frábært fyrir mig að hafa mann á borð við hann í liðinu sem er svona góður atvinnumaður."
Leikirnir eru núna sem sagt orðnir 400 og þó svo mörkin sem hann hefur skorað séu bara þrjú þá eru mörkin sem hann hefur komið í veg fyrir óteljandi. Jamie hefur unnið átta titla með Liverpool. Hann vann Deildarbikarinn árin 2001 og 2003. Hann vann F.A. bikarinn, Evrópukeppni félagsliða, Góðgerðarskjöldinn og Stórbikar Evrópu árið 2001. Árið 2005 bættust svo Evrópubikarinn og Stórbikar Evrópu við verðlaunasafn hans. Hann leiddi Liverpool til sigurs í Stórbikarnum í lok ágúst sem fyrirliði í forföllum Steven Gerrard. Á þesari leiktíð var Jamie einn af hornsteinum varnar Liverpool sem setti nýtt félagsmet með því að halda markinu hreinu í ellefu leikjum í röð fyrir jólin. Við þessa upptalningu má svo bæta að hann hefur leikið 22 landsleiki með enska aðallandsliðinu. Að auki lék hann 27 leiki með undir 21. árs liðinu. Sá fjöldi var og er kannski enn met.
Það dettur ekki nokkrum manni í hug að halda því fram að Jamie hafi hæfileika á borð við þá hæfileikaríkustu í röðum knattspyrnumanna. En flesta aðra leikmenn getur aðeins dreymt um baráttuvilja og eldmóð hans. Ein er sú svipmynd af Jamie sem greiptist í huga stuðningsmanna Liverpool á einu andartaki. Það var þegar hann lá, seint í leiknum, sárþjáður á Ataturk leikvanginum í Istanbúl eftir að hafa komið boltanum frá marki Liverpool. Krampinn sem hann fékk stöðvaði Carra ekki. Nei, hann kom sér á fætur og barðist til loka leiksins. Eftir að Liverpool vann vítaspyrnukeppnina var hann svo fyrstur að hlaupa til Jerzy Dudek til að fagna með honum. Krampinn hamlaði honum ekki heldur á þeim spretti!
Með þessa eðlisþætti sína að vopni er það öruggt að Jamie, ef hann sleppur við alvarleg meiðsli, á eftir á komandi árum að bæta vel við þá 400 leiki sem hann er búinn að leika fyrir Liverpool. Félagsmet Ian Callaghan, sem lék 857 leiki með Liverpool, verður kannski aldrei slegið. En það er næsta víst að Jamie verður kominn töluvert nærri því meti þegar hann leggur skóna á hilluna.