)

Steven Gerrard

Úrslitaleikur Ensku bikarkeppninnar 2006 mun örugglega þegar árin líða verða kenndur við Steven Gerrard. Leikurinn í ár var 125. úrslitaleikurinn í sögu keppninnar. Af öllum þeim leikjum er ekki nema einn leikur sem hefur verið kenndur við einstakan leikmann. Það var Matthews úrslitaleikurinn árið 1953 þegar Blackpool lagði Bolton Wanderes að velli 4:3. Sir Stanley heitinn Matthews fór algerlega á kostum í þeim leik og leikurinn hefur verið kenndur við hann alla tíð. Það segir sína sögu um framgöngu Stanley í leiknum að Stan Mortensen skoraði þrennu í leiknum fyrir Blackpool. Samt er leikurinn kenndur við Stanley! Vissulega hafa nokkrir leikmenn sett verulega mark sitt á nokkra úrslitaleiki þessarar elstu bikarkeppni í heimi. Síðasti sigur Liverpool í keppninni vorið 2001 vannst til dæmis þegar Michael Owen skoraði tvö mörk á síðustu sjö mínútum leiksins og tryggði 2:1 sigur á Arsenal. Michael var nefndur Prinsinn af Wales eftir leikinn en leikurinn hefur samt ekki almennt verið kenndur við nafn hans.

Gerrard úrslitaleikurinn fór fram þann 13. maí árið 2006 þegar Liverpool atti kappi við West Ham United. Steven Gerrard eignaði sér úrslitaleikinn með stórfenglegri framgöngu. Til að byrja með þá jafnaði hann metin tvívegis. Fyrst í upphafi síðari hálfeiks með glæsilegu marki og svo aftur með einu af fallegustu bikarúrslitamörkum sögunnar á síðustu mínútu leiksins þegar allt stefndi í sigur West Ham United. Steven skoraði svo þriðja mark Liverpool í vítaspyrnukeppninni. En að auki þá lagði hann upp tvö mörk. Fyrst fyrir Peter Crocuh sem var reyndar ranglega dæmt af. Hann lagði svo aftur upp mark fyrir Djibril Cissé sem kom Liverpool aftur inn í leikinn eftir að Hamrarnir höfðu komist tveimur mörkum yfir. Allan tímann dró hann félaga sína áfram með frábæru fordæmi. Það hefur sjaldan verið auðveldara að velja besta mann leiksins eftir úrslitaleik! Steven tók svo við bikarnum eftir að leikinn og varð sjöundi fyrirliði Liverpool til að hampa honum.

Leikmaður hefur ekki lengi hlotið annað eins lof eftir úrslitaleik í stórkeppni. Tveir af dáðustu sonum Liverpool spöruðu ekki stóru orðin. Ian Rush taldi að Liverpool hefði ekki unnið sigur ef Steven hefði ekki notið við. ,,Þegar upp var staðið þá var augljóst að liðið vann bikarinn vegna framgöngu fyrirliðans. Hann er býr yfir ótrúlegum hæfileikum og er án nokkurs vafa besti leikmaður Liverpool sinnar kynslóðar. Ég held að West Ham hefði unnið bikarinn á laugardaginn, en ekki við, ef hann hefði leikið fyrir þá. Hann hafði það mikil áhrif á leikinn." Ekki voru orð Kenny Dalglish léttvægari. ,,Hann er ótrúlegur og hann á eftir að vera enn betri. Burtséð frá stöðu hans þá hefur hann gert meira fyrir Liverpool á síðustu leiktíðum en nokkur annar leikmaður hefur gert fyrir neitt annað félag. Það skiptir ekki máli hvað Ronaldhino hefur gert fyrir Barcelona eða Thierry Henry fyrir Arsenal. Steven hefur gert meira fyrir liðið sitt en þeir fyrir sín félög og hann hefur lagt meira af mörkum en nokkur annar. Það er ekki neitt smáræði sem býr í þessum manni. Það er ekki nóg með þessa gríðarlegu hæfileika heldur líka hugrekki hans og trúfestu. Það er oft talað um að menn eigi að fara fyrir með góðu fordæmi. En framganga hans á laugardaginn var svo miklu öflugri en hægt var að ætlast til. Svo er hann bara ungur strákur."

Framganga Steven Gerrard vakti kannski enn meiri athygli að leik loknum í ljósi þeirra orða sem fóstbróðir hans, Jamie Carragher, lét falla fyrir úrslitaleikinn. ,,Mín skoðun er sú að Steven Gerrard sé í öðru sæti á eftir Kenny Dalglish sem besti leikmaður sem spilað hefur fyrir Liverpool. Það hafa verið margir heimsklassaleikmenn í sömu stöðu og hann. Til dæmis Graeme Souness og listinn er langur hjá félaginu. En ég trúi því hins vegar ekki að það séu margir sem myndu áorka því sama og hann hefur gert. Hann er líka ennþá svo ungur. Ef hann getur unnið nokkra deildartitla gæti jafnvel verið að hann verði talinn betri en Kenny. Ég held ekki að það sé til stærra hrós fyrir hann en það. Hann er samt yngri nú en Kenny var þegar hann kom til liðs við Liverpool. Hver veit hversu langt Steven Gerrard á eftir að ná ?" Mörgum þóttu þessi orð Jamie ganga nærri því að flokkast sem helgispjöll því Kenny Dalglish er ókrýndur besti leikmaðurinn í gjörvallri sögu Liverpool. Flestir hafa hingað til talið að það muni aldrei koma fram leikmaður sem tekur Kenny fram í getu. En hver veit? Kannski á Steven Gerrard eftir að verða besti leikmaður í sögu Liverpool. Hann á auðvitað enn langt í land með að hljóta þá viðurkenningu. En það er óneitanlega stórt skref á þeirri leið að fá úrslitaleik í F.A. bikarnum kenndan við nafn sitt!

Sf. Gutt.

 

TIL BAKA